SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Blaðsíða 30
30 29. janúar 2012 F yrir viku var þeirri skoðun lýst hér á þessum vettvangi, að ójöfnuður væri mesti þjóð- félagsvandi okkar tíma. Fyrir nokkrum dögum flutti Barack Obama Bandaríkjaforseti báðum deildum Banda- ríkjaþings árlega skýrslu sína um stöðu bandaríska þjóðarbúsins. Í þeirri ræðu lagði hann línur í baráttu sinni fyrir end- urkjöri í nóvember á þessu ári. Kjarninn í þeirri baráttu verður að þau 1-2% Banda- ríkjamanna, sem mestan auð eiga skuli greiða sanngjarnan hlut til samfélagsins. Í hnotskurn lýsti Obama þeirri stefnu- mörkun á þann veg, að Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, eigi að borga sömu hlutdeild af tekjum sínum í skatta og ritari hans geri. Warren Buffett hefur lýst stuðningi við þessa tillögu. Reyndar er hann upphafs- maður hennar. Hann telur eðlilegt að milljarðamæringar í Bandaríkjunum greiði 30% af tekjum sínum í skatt í stað þess að borga 15% eða jafnvel innan við það. Repúblikanar halda því fram að með slíkum hugmyndum sé Obama að boða stéttastríð. Sjálfur segir forsetinn að hann telji, að flestir Bandaríkjamenn líti svo á að hann sé að boða heilbrigða skynsemi í skattamálum. Warren Buffett hefur skoðun á þeim staðhæfingum, að Obama boði stéttastríð. Hann segir efnislega: Ef svo er hefur mitt lið (milljarðamæringarnir) ígildi kjarn- orkusprengju okkar megin. Við höfum í okkar þjónustu hagsmunaverðina (lobbí- istana) og Wall Street (þ.e. fjármálafyr- irtækin). Debbie (ritari Buffetts) hefur ekkert. Obama er ekki að boða stéttastríð en hann er að boða annars konar stríð, stríð gegn ráðandi öflum, sem í krafti fjár- magns hafa ráðið Bandaríkjunum lengst af og notað þá aðstöðu til að skapa sér for- réttindi. Síðasta svona stríð var háð í Bandaríkjunum fyrir svo sem hundrað ár- um, þegar komið var böndum á járn- brautarbaróna og olíukónga. Um það stríð má lesa í sögu um Rockefeller hinn fyrsta. Obama er að skora á almenning í Banda- ríkjunum að taka þátt í því með sér að jafna metin, ekki til þess að draga úr vilja og metnaði fólks til að komast áfram í líf- inu heldur til að byggja upp sanngjarnara samfélag, þar sem hinir efnaminni borgi ekki með þeim efnameiri eins og nú er. Þetta er önnur útgáfa af þeim átökum, sem standa í Evrópu og á evrusvæðinu sérstaklega á milli fólksins og fjármálafyr- irtækjanna, þar sem fjármagnseigendur hafa krafizt þess, að skattgreiðendur borgi töp, sem þeir sjálfir hafa efnt til með glannalegri lánastarfsemi. Þeir eru með öðrum orðum að krefjast þess að komast á opinbert framfæri. Framan af stóðu kjörnir fulltrúar fólks- ins með fjármagnseigendum. Nú eru þeir tvístígandi en sýna merki þess að vilja setja fjármagninu stólinn fyrir dyrnar sbr. síðustu sviptingar í samningaviðræðum um afskriftir af skuldum Grikkja. Hér á Íslandi höfum við orðið vitni að enn einni útgáfu af þessum átökum. Bankarnir réðu Íslandi síðustu árin fyrir hrun. Með peningum var hægt að kaupa hvað sem var. Hrunið leiddi í ljós að það var annarra manna fé, sem notað var í því skyni. Mest af því átti sér rætur í sparnaði fátæks fólks í Asíu, sem sendur hafði verið til Vesturlanda til ávöxtunar. Þessir pen- ingar voru m.a. notaðir til hags- munavörzlu. Hagsmunaverðir samtímans eru eins konar málaliðar okkar tíma. Við skiljum merkingu orðsins málaliði á þann veg, að það séu hermenn, sem er borgað fyrir að berjast. Hagsmunaverðir Vest- urlanda (lobbíistar) eru hermenn, sem er borgað fyrir að berjast á vígvelli almenn- ingsálitsins. Þeir þurfa ekki að hafa sann- færingu fyrir því, sem þeir eru að berjast fyrir. Þeir þurfa bara að skila árangri. Slíka málaliða er að finna víðs vegar um samfélagið, ekki bara innan formlegra fyrirtækja hagsmunavarða. Barátta Hagsmunasamtaka heimilanna og annarra félagasamtaka, sem hafa tekið upp baráttu fyrir hagsmunamálum al- mennra borgara, sem hafa orðið illa úti í hruninu er angi af þeirri baráttu, sem við sjáum í Bandaríkjunum á milli 1% og 99%. Þessi samtök eru að berjast við fjár- málafyrirtæki fyrir hönd félagsmanna sinna. Þau eru líka að berjast fyrir kerf- isbreytingum svo sem afnámi verðtrygg- ingar. Þau standa hins vegar frammi fyrir eins konar bandalagi stjórnmála og fjár- mála. Þeir sem muna tímann fyrir verðtrygg- ingu vita, að þá var annars konar ranglæti á ferð. Þá borgaði óðaverðbólgan upp skuldir þeirra, sem höfðu aðstöðu til að fá lán, sem þá voru í raun gjöf. Þá sátu spari- fjáreigendur og lífeyrisþegar eftir með sárt ennið. Á 30 árum hefur þetta snúizt við. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir að bankarnir séu búnir með það svigrúm, sem þeir hafi haft. Vandi hagfræðinga er sá, að þeir hafa ekki gert upp sína hrun- sögu. Sumir í hópi þeirra voru málaliðar á vegum fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Og vegna þess að uppgjör þeirra hefur ekki farið fram er ekki sama mark tekið á Hag- fræðistofnun Háskóla Íslands eða öðrum sérfræðingum á sama vettvangi og áður var. Þetta má sjá á viðbrögðum Hags- munasamtaka heimilanna við áliti Hag- fræðistofnunar. Hér á Íslandi eins og annars staðar á Vesturlöndum þarf ný hugsun að koma til sögunnar. Hún er sú, að þeir sem eiga peninga eða ráða yfir annarra manna fé hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Þessi afstaða hefur ekkert með vinstri eða hægri í stjórnmálum að gera, sem eru úrelt hug- tök á okkar tímum. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki síður en vinstri flokkarnir gerzt málsvari hags- muna hins almenna borgara. En hann gerir það að sjálfsögðu ekki nema forystu- sveit hans hafi sannfæringu fyrir því að það sé hin rétta leið. Komist hún að ann- arri niðurstöðu munu aðrir taka þá bar- áttu upp. Og þá gæti farið svo að framtíðin yrði þeirra. Barátta almennra borgara og málaliðar samtímans Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Það var ósköp venjulegur mánudagur þegar hinsextán ára gamla Brenda Ann Spencer fór á fæt-ur á heimili sínu í San Diego í Bandaríkjunumfyrir 33 árum. Í stað þess að drífa sig af stað í skólann greip Spencer hins vegar hálfsjálfvirkan riffil, sem faðir hennar hafði gefið henni í jólagjöf, opnaði gluggann og hóf skothríð út í loftið. Handan götunnar var barnaskóli, kenndur við Grover Cleveland Bandaríkja- forseta og var skólastjórinn að opna hliðið fyrir börn- unum þegar skothríðin skall á. Þegar yfir lauk lágu tveir í valnum, skólastjórinn og annar starfsmaður skólans, sem reynt hafði að koma skólastjóranum til hjálpar. Átta börn og einn lögreglumaður særðust. Lögreglu dreif að en Spencer læsti sig inni og neitaði að koma út. Hótaði að hefja skothríðina á ný reyndi lögregla að brjótast inn. Eftir sjö klukkutíma samningaþóf gafst Spencer loks upp og var tekin höndum. Spurð um tildrög þessa skelfilega ódæðis sagði hún einfaldlega: „Mér leiðast mánudagar!“ Stúlkan sýndi enga iðrun og þegar hún var leidd í burtu sagði hún ennfremur við viðstadda: „Ég gerði þetta mér til gamans, gersamlega að tilefnislausu. Þetta lífgaði upp á daginn. Ég skaut svín,“ og átti þar við lögreglumanninn. „Helst langar mig að skjóta fleiri. Ég skemmti mér of vel til að gefast upp. Þetta var eins og að skjóta endur á tjörn, börnin voru eins og kúahjörð, sem stóð bara þarna. Það var auðvelt að miða þau út.“ Bjór- og viskíflöskur fundust á víð og dreif um húsið en Spencer reyndist eigi að síður vera allsgáð. Í nokkurn tíma áður en hún framdi verknaðinn hafði Spencer gefið í skyn að hún ætlaði að gera eitthvað voða- legt af sér en hvorki foreldrar hennar né vinir tóku hana trúanlega. Spurð síðar hvers vegna faðir hennar hefði gef- ið henni riffilinn svaraði Spencer: „Ég held að hann hafi viljað að ég fyrirfæri mér.“ Vegna alvöru glæpsins var réttað í máli Spencer eins og hún væri fullorðin. Hún játaði á sig tvö morð og árás með banvænu vopni og var dæmd í fangelsi í 25 ár eða fyrir lífstíð. Spencer er vistuð í kvennafangelsi í Chino í Kali- forníu og hefur í fjórgang verið synjað um reynslulausn, síðast árið 2009. Næst getur hún sótt um reynslulausn ár- ið 2019. Spencer, sem verður fimmtug í vor, hefur margbreytt framburði sínum í fangelsinu. Hún þrætir ekki fyrir ódæðið en þegar hún óskaði fyrst eftir reynslulausn árið 1993 hélt hún því fram að hún hefði verið undir áhrifum bæði áfengis og lyfja þegar hún skaut á fólkið. Spurð hvers vegna hið gagnstæða hefði komið fram við réttarhaldið fullyrti Spencer að um samsæri gegn sér væri að ræða með þátttöku bæði saksóknara og verjanda hennar. Nið- urstöðum úr lyfjaprófi hefði verið stungið undir stól. Bæði verjandi og saksóknari vísa þessu á bug. Þegar Spencer átti möguleika á reynslulausn árið 2001 hélt hún því fram að faðir hennar bæri ábyrgð á ofbeld- ishneigð hennar, hann hefði bæði gengið í skrokk á sér og misþyrmt sér kynferðislega. Þetta þótti skilorðsnefndinni ekki trúverðugt enda könnuðust meðferðarfulltrúar hennar ekki við að hafa heyrt Spencer nefna þetta áður. Þegar fréttir af ódæðisverki Spencer tóku að streyma út úr telex-tækjum (forvera faxins) á fjölmiðlum vestra var Bob Geldof, forsprakki írsku poppsveitarinnar The Boomtown Rats, í viðtali við háskólaútvarpsstöð í Georgíu-ríki. Hann sat við hlið telextækisins og las frétt- irnar um leið og þær bárust. Glæpurinn og tilgangsleysi hans sóttu á Geldof og fáeinum dögum síðar var hann bú- inn að semja lag um ósköpin, I Don’t Like Mondays, sem var fyrst leikið aðeins mánuði síðar. Lagið komst á topp breska vinsældalistans sumarið 1979 og er langvinsælasta lag The Boomtown Rats. Geldof hefur alla tíð hafnað því að hann hafi ætlað sér að græða á harmleiknum, hann hafi aðeins viljað ítreka tilgangsleysið. orri@mbl.is Mér leiðast mánudagar Brenda Ann Spencer sýndi enga iðrun eftir voðaverkið. ’ ... börnin voru eins og kúa- hjörð, sem stóð bara þarna. Það var auðvelt að miða þau út. Harmleikurinn varð Bob Geldof, síðar Sir, að yrkisefni. Reuters Á þessum degi 29. janúar 1979

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.