SunnudagsMogginn - 12.02.2012, Side 47
12. febrúar 2012 47
Vetrarhátíð í Reykjavík erhaldin þessa dagana og erþema ársins Magnað myrkur.Af því tilefni er boðið upp á
fjölbreytta menningardagskrá. Fjöl-
margir lögðu þá leið sína í söfnin af
þessu tilefni og var mikil stemmning á
hinni árlegu safnanótt hinn 10. febrúar
enda dagskrá safnanna litrík og
skemmtileg. Þegar kemur að hinu fag-
lega safnastarfi er hins vegar ekki tjaldað
til einnar nætur enda menningararfur
þjóðarinnar varðveittur í söfnunum.
Söfnum ætlað mikilvægt hlutverk
Safngripir eru viðkvæmir og tíminn set-
ur mark sitt á þá sem annað. Söfnum er
ætlað að spyrna við fótum þegar kemur
að hrörnun menningarminja sem varð-
veita ber um ókomna tíð. Lög um söfn
og þjóðminjar fjalla um hvernig staðið
skuli að verndun og friðun minja um allt
land. Söfnum er þar ætlað mikilvægt
hlutverk þar sem fara þarf saman varð-
veisla til framtíðar og aðgengi í samtím-
anum. Þar kemur til margþætt hlutverk
safna á sviði þar sem eitt leiðir af öðru í
órofa samhengi. Samhliða söfnun muna
fer fram skráning á sögu þeirra og við-
eigandi varðveisla. Þá fara fram rann-
sóknir á minjunum sem leiðir af sér
miðlun hvers konar í formi sýninga,
fræðslu og útgáfu.
Því fylgir mikil ábyrgð að taka muni til
varðveislu í safni því aðstæður og sér-
þekking til meðferðar þarf að vera til
staðar. Slík ákvörðun þarf að vera í sam-
ræmi við stefnumörkun viðkomandi
safns, ákvæði laga og taka mið af siða-
reglum ICOM sem er Alþjóðaráð safna.
Þar er meðal annars fjallað um hvernig
standa beri að varðveislu safnkostar og
hvaða viðmið eigi að tryggja fagleg
vinnubrögð með langtímavarðveislu að
leiðarljósi. Forsenda varðveislu menn-
ingarminja er réttar aðstæður sem hægja
á hrörnun minja. Slíkar aðstæður þurfa
að fela í sér stöðugleika og standast við-
eigandi öryggiskröfur. Það er því grund-
vallaratriði að söfn hafi góðar geymslur,
varðveisluhús, til þess að tryggja varð-
veislu og öryggi minjanna til framtíðar.
Á Þjóðminjasafninu fer fram sérhæfð
starfsemi á sviði varðveislu þar sem sér-
menntaðir forverðir starfa við meðferð
safngripa og huga að öryggisaðstæðum
þeirra. Kristján Eldjárn, fyrrverandi
þjóðminjavörður og síðar forseti, tók
upp orðið forvarsla yfir það viðfangsefni
að verja hluti gegn eyðingu og hrörnun
sem er mikilvægt ef tryggja á að hlutirnir
verði til staðar fyrir komandi kynslóðir.
Kristján valdi orðið út frá orðinu forvara
sem þýðir samkvæmt eldri merkingum
„að geyma og halda óbreyttu“ og á því
vel við.
Í forvörslu mætast
ólíkar fræðigreinar
Forvarsla er þverfagleg starfsgrein þar
sem markmiðið er að stuðla að lang-
tímavarðveislu menningarsögulegra
gripa á borð við listgripi, forngripi, bæk-
ur, ljósmyndir og handrit. Í forvörslu
mætast ólíkar fræðigreinar, svo sem
efnafræði, eðlisfræði, líffræði, listasaga,
fornleifafræði, sagnfræði, þjóðfræði og
siðfræði. Forvarsla, viðgerðir og umönn-
un gripa byggist á skilningi á eig-
inleikum þeirra efna sem gripirnir eru
skapaðir úr, hvernig þessi efni eldast og
færni í að bregðast við eyðandi áhrifum
umhverfisins. Við forvörslu og varð-
veislu menningarminja þarf einnig að
huga að sögulegu samhengi gripanna í
tengslum við meðferð þeirra. Í sumum
tilvikum er lögð áhersla á fyrirbyggjandi
forvörslu til þess að koma í veg fyrir
frekari skemmdir en orðið hafa en ekki
er leitast við að gera við hluti þannig að
þeir líti út fyrir að vera ónotaðir. Spor
sögunnar geta sannarlega verið mik-
ilvægur hluti minjagildis safngripa.
Á liðnum árum hefur verið gert mikið
átak í forvörslu safnkostar Þjóðminja-
safns Íslands, sérstaklega í tengslum
við enduropnun safnsins fyrir tæpum
áratug. Til þessa er það stærsta átak
sem unnið hefur verið í for-
vörslu safngripa hér á landi. Í
því verkefni var höfð náin
samvinna við sérfræðinga við Þjóð-
minjasafn Danmerkur sem var mikils-
verð reynsla fyrir sérfræðinga hér á landi
og styrkti tengsl safnanna. Það verkefni
fól í sér athugun á ástandi safnkostarins,
val safngripa á nýja grunnsýningu um
sögu þjóðarinnar og forvörslu með
framsetningu á sýningunni í huga. Sú
reynsla sem fékkst af samstarfi við
dönsku sérfræðingana varð mikilvæg við
gerð sérsýninga Þjóðminjasafnsins á
liðnum áratug. Á sýningum Þjóðminja-
safnsins er einungis brot af safnkosti
Þjóðminjasafnsins til sýnis þótt sýning-
argripir séu þúsundir muna. Meginhluti
munanna er í varðveislu í safngeymsl-
unum þar sem öryggi þeirra er tryggt
með réttum skilyrðum og fyrirbyggjandi
forvörslu til þess að forðast skaðleg áhrif
svo sem af völdum ljóss, raka eða ryks. Í
því felst einnig að huga að öryggi menn-
ingarminjanna með tilliti til bruna,
vatnstjóns og jafnvel náttúruhamfara.
Safnkosturinn er þar skráður og að-
gengilegur til skoðunar og miðlunar í
samræmi við starfsemi og áherslur
safnsins á hverjum tíma.
Forvarsla er órjúfanlegur þáttur
uppgraftar fornleifa
Af ofansögðu má sjá að umtalsvert
forvörslustarf hefur verið unnið í
tengslum við faglegt starf Þjóðminjasafns
Íslands. Þjóðminjasafn Íslands hefur
einnig sem höfuðsafn minjasafna í land-
inu veitt öðrum söfnum aðstoð vegna
áhrifa jarðskjálfta og eldgosa. Þá hefur
forvarsla jarðfundinna gripa aukist til
muna vegna fjölgunar fornleifarann-
sókna um allt land. Forvarsla er órjúf-
anlegur þáttur uppgraftar fornleifa enda
jarðfundnar minjar sérstaklega við-
kvæmar fyrir eyðandi áhrifum umhverf-
isins við þá breytingu sem uppgröftur úr
jörðu felur í sér. Með forvörslu er hægt
að stuðla að varðveislu og frekari skiln-
ingi á þeim gripum sem finnast. Á liðn-
um árum hefur einnig verið lögð meiri
áhersla á forvörslusjónarmið í umönnun
húsa í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Á
það sérstaklega við viðhald torfhúsa og
torfkirkna.
Árið 2011 var samþykkt ný yfirlitsskrá
Íslands hjá heimsminjaskrifstofu
UNESCO og því hefur í samræmi við
áherslur UNESCO verið leitast við að
standa vörð um sem mest af hinu upp-
runalega efni og hægja á hrörnunarferli
minjanna með sérhæfðum aðferðum. Það
felur í sér að í stað gagngerrar endurnýj-
unar í tengslum við viðgerðir friðaðra
húsa er lögð áhersla á viðgerðir á því sem
þarf að lagfæra, ávallt með það að leið-
arljósi að rýra ekki minjagildi húsanna.
Það krefst þverfaglegrar samvinnu á
sviði fræða, handverks og forvörslu. Með
því móti hefur tekist að halda í sem mest
af varðveislugildi þeirra húsa sem teljast
til safnkostar Þjóðminjasafns Íslands.
Á síðustu áratugum hefur þekking og
menntun á sviði forvörslu styrkst hér á
landi, og skilningur á mikilvægi þess að
standa rétt að varðveislu menning-
arminja hefur aukist. Þjóðminjasafni Ís-
lands sem höfuðsafni á sviði þjóðminja-
vörslu er ætlað að vera leiðandi á því
sviði. Það felur í sér miðlun þekkingar
með ráðgjöf og fræðslu auk faglegrar
samvinnu. Með útgáfu fræðsluefnis og
með kennslu háskólanema í forn-
leifafræði og safnafræði er aðferðum í
fyrirbyggjandi forvörslu miðlað til allra
hlutaeigandi aðila um allt land. Nýlega
náðist mikilvægur áfangi er fyrsta hand-
bók á íslensku um varðveislu safnkostar
var gefin út hér á landi á vegum Þjóð-
minjasafns Íslands í samstarfi við Þjóð-
skjalasafn Íslands og Landsbókasafn Ís-
lands - Háskólabókasafn. Handbókin
nýtist söfnum, kirkjum og öllum þeim
sem umgangast menningarminjar og
tryggja varðveislu þeirra sem best til
komandi kynslóða. Almenningur sem á í
fórum sínum forna ættargripi getur
einnig nýtt sér ráðgjöf handbókarinnar
sem er aðgengileg á vefsíðu safnsins. Út-
gáfa handbókarinnar er liður í fræðslu-
starfi Þjóðminjasafns Íslands sem með
útgáfunni leggur sitt af mörkum til auk-
innar fagmennsku á sviði varðveislu í
söfnum landsins. Varðveisla þjóðminja er
krefjandi verkefni og mikilvægt. Í fram-
tíðinni væri vert að efla enn frekar sam-
vinnu þjóðmenningarstofnana um for-
vörslu og varðveislu þjóðararfsins með
samhentu átaki á sviði geymslumála og
verndunar menningararfsins. Þjóð-
ararfur okkar er í raun fjöregg þjóð-
arinnar og er það okkar skylda að skila
honum ósködduðum til framtíðar.
Þankar um
þjóðminjar
Margrét Hallgrímsdóttir
margret@thjodminja-
safn.is
Fjöregg þjóðarinnar
Sylgjur sem sýna dæmi um pökkun og frágang forngripa til langtímavarðveislu í Þjóðminja-
safni Íslands. Í safninu er umtalsvert forvörslustarf unnið í tengslum við faglegt starf.
’
Því fylgir mikil ábyrgð að taka muni til varð-
veislu í safni því aðstæður og sérþekking til
meðferðar þarf að vera til staðar.
Ljósmynd/Þjóðminjasafnið