Skinfaxi - 01.03.2014, Blaðsíða 12
12 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands
Nafn Hafdísar Sigurðardóttur,
frjálsíþróttakonu í Ungmennafélagi
Akureyrar, hefur ómað í eyrum
íþróttaáhugafólks um nokkra hríð
og kemur til af góðu en árangur
hennar hefur skipað henni á bekk
á meðal bestu frjálsíþróttamanna
landsins. Það hefur verið gaman og
áhugavert að fylgjast með þessari
stúlku, en eljusemi, þrautseigja og
ástundun hafa fleytt henni langt.
Á mín bestu ár eftir
Hafdís, sem er 27 ára gömul, lítur björtum
augum til framtíðarinnar og segist í viðtali
við Skinfaxa eiga bestu árin eftir. Það er
ekkert ókeypis í þessum heimi og því fá
íþróttamenn að kynnast sem þurfa að fara
um langan veg til keppni. Hafdís hefur lengst-
um þurft að standa undir kostnaði af íþrótta-
iðkun sinni sjálf og enn sem komið er hefur
hún ekki fengið styrk til æfinga og keppni úr
Afrekssjóði. Hafdís leggur stund á iðjuþjálf-
unarnám við Háskólann á Akureyri auk þess
sem mikill tími fer í æfingar. Það er ekki að
ástæðulausu sem Hafdís þarf að skipuleggja
tíma sinn vel. Það gengur eftir því að árangur-
inn talar sínu máli.
Íslandsmet í langstökki
Hafdís bætti Íslandsmetið í langstökki
innanhúss á Meistaramóti Íslands í fjölþraut-
um í febrúar þegar hún stökk 6,45 m. Þessi
árangur Hafdísar er betri en utanhússmet
hennar í greininni frá því sl. sumar en þar á
hún lengst 6,36 m.
Ritstjóri Skinfaxa hitti Hafdísi á dögun-
um, en í byrjun mars tók hún sér vikupásu
frá æfingum áður en æfingar fyrir tíma-
bilið hæfust fyrir alvöru.
Eingöngu æft frjálsar
„Áhuginn á íþróttum kviknaði þegar ég
var lítil stelpa. Báðar eldri systur mínar byrj-
uðu líka snemma að æfa frjálsar íþróttir á
Laugum. Við æfðum í upphafi á Bjarmavelli
en síðan fór ég reglulega að fara á Laugar. Ég
fór aldrei í aðrar íþróttir og er því eingöngu
búin að æfa frjálsar íþróttir frá unga aldri eða
í kringum tuttugu ár. Það er varla að maður
trúi því að árin í þessu séu orðin svona mörg.
Þetta er orðinn langur tími en á hinn bóginn
ofsalega skemmtilegur. Ef ég á segja alveg
eins og er tel ég mig eiga mín bestu ár eftir,“
sagði Hafdís.
Þarf vilja, þrautseigju og
allt til að þetta gangi
– Kemur árangur þinn þér sjálfri á óvart?
„Ég ætla ekki að segja já því að ég hef alltaf
stefnt að þessu. Kannski tók það lengri tíma
en ég hefði óskað. Eins og við vitum skapar
æfingin meistarann og ég hef sjálf unnið og
stefnt markvisst að þessu. Það tekur tíma að
ná svona árangri, maður þarf vilja, þrautseigju
og allt til að þetta gangi. Ég held að ég sé búin
að leggja rosalega inn fyrir þessu. Ég heyri
það á fólki að ég hafi verið dugleg að halda
áfram og aldrei viljað gefast upp. Mér finnst
þetta stundum fullmikið því að ég var ekki
brjálæðislega efnileg þegar ég var yngri. Ég
er hins vegar búin að vinna fyrir þessu og það
er það sem þarf. Margir í kringum mig hafa
hætt og gefist upp en ég hef haldið áfram og
stefnt að markmiðum mínum,“ sagði Hafdís.
Íþróttamaður verður að
hafa skap
Þegar Hafdís var spurð hvort hún væri
þrjósk svaraði hún: „Já, svolítið. Það er
þrjóska í mér og ég er með mikið skap. Ég
er líka fljót upp ef mér finnst gengið á rétt
minn. Íþróttamaður verður að hafa skap.“
Stefni á Ólympíuleikana
– Hvað hyggstu fyrir með þann árangur sem
þú hefur náð og gefur hann þér fleiri tækifæri?
„Eins og staðan er nákvæmlega núna sé
ég fyrir mér að ég haldi áfram með mín mark-
mið. Ég stefni að þátttöku á Ólympíuleikun-
um 2016 og ég trúi því að ég geti haldið áfram
að bæta mig. Ég er ekkert stopp. Líkaminn
byrjar ekki að fara niður á við alveg strax, ég
er ekki komin á þann aldur og ég held bara
að ég sé á besta aldri. Maður er alltaf að
þroskast og líkaminn er meðtækilegri og
því sé ég ekkert því til fyrirstöðu að ég haldi
áfram á minni braut, í það minnsta fram yfir
Ólympíuleika. Eftir það sé ég bara til.
Aðstaðan kemur, bara
spurning hvenær
– Hvað með aðstöðuna sem þú býrð við
fyrir norðan?
„Ég er ekkert að fara héðan frá Akureyri
eins og er. Ég er með frábæran þjálfara, Gísla
Sigurðsson, sem hefur þjálfað mig í kringum
tíu ár. Hann veit nákvæmlega hvað hann er
að gera, hann ýtir mér og hvetur mig áfram.
Hann sýnir ennfremur góðan stuðning sem
skiptir miklu máli í mínum huga. Margir hafa
haft á orði að ég búi ekki við nógu góða
aðstöðu fyrir norðan. Hún er greinilega nógu
góð en að sjálfsögðu myndi ég vilja hafa
innanhússaðstöðu eins og í Reykjavík. Það
væri algjör draumur að hafa þannig aðstöðu
og mér finnst að við íþróttafólk norðan heiða
eigum hana fyllilega skilið. Auðvitað snýst
þetta allt um fjármagn og það er ekki fyrir
hendi í dag. Þessi aðstaða kemur, bara
spurning hvenær.“
Vona að fleiri dyr opnist
„Árangur minn að undanförnu hefur opn-
að möguleika til að keppa á stærri mótum
en ég hef áður verið á en það gerist kannski
ekki alveg strax. Ég ætlaði til að mynda á
sænska meistaramótið. Ég fékk ekki inni á
mótinu en miðað við úrslitin þar hefði ég
unnið langstökkið. Ég horfi fram á sumarið
og vonandi fæ ég fleiri tækifæri þar. Mig
vantar 10 sm til að vinna mér keppnisrétt á
Evrópumeistaramótið utanhúss en eins og ég
segi vona ég að fleiri dyr opnist á næstunni.“
Er bjartsýn á sumarið
– Telurðu að þú getir bætt árangur þinn enn
frekar?
„Já, það tel ég. Það var samt slæmt eftir
langstökksmetið innanhúss að fá ekki mót til
að keppa á. Það kom smápása eins og gerist
alltaf á þessum tíma árs. Nú æfir maður
bara á fullu og byggir sig upp fyrir sumarið.
Miðað við hvernig veturinn var er ég mjög
bjartsýn á sumarið og stefnan er að bæta sig
og setja fleiri met,“ sagði Hafdís.
HAFDÍS
SIGURÐARDÓTTIR
„Ég ætlaði að setja Íslandsmet
í langstökki og skrá nafn mitt
í sögubækurnar. Þegar maður
setur sér markmið geta hlutirnir
alveg ræst“.