Morgunblaðið - 07.05.2013, Side 26
26 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. MAÍ 2013
✝ Sjöfn Ólafs-dóttir fæddist
á Ísafirði 2. júní
1942. Hún lést á
heimili sínu, Norð-
urbrú 4 í Garðabæ,
29. apríl 2013.
Foreldrar henn-
ar voru hjónin
Guðrún Rebekka
Sigurðardóttir frá
Ísafirði, f. 15.
ágúst 1921, d. 4.
apríl 1996 og Ólafur J. Ein-
arsson, framkv.stj. frá Ísafirði,
f. 30. ágúst 1920, d. 2. nóv-
ember 2007. Sjöfn átti einn
bróður, Einar Ólafsson fram-
kv.stj., f. 4. júní 1948, d. 22.
júní 2007.
Sjöfn giftist 19. nóvember
1960 Eyjólfi Sigurðssyni fram-
kv.stj., f. 29. nóvember 1938 í
Reykjavík. Foreldrar hans
voru Ragnhildur Sigurjóns-
dóttir, húsmóðir frá Vest-
mannaeyjum, f. 16. júlí 1918, d.
4. júlí 2009 og Sigurður Eyj-
ólfsson, prentari í Reykjavík, f.
21. maí 1911, d. 24. maí 2004.
Sjöfn og Eyjólfur eignuðust
þrjár dætur, Guðrúnu, f. 14.
júlí 1960, hennar börn eru:
Sjöfn og Ólafur, Erlu, f. 30.
nóvember 1961, hennar börn
eru: Eyjólfur, Svavar og Davíð,
maki Erlu er Sig-
urður Svavarsson,
f. 17. janúar 1961,
og Katrínu Björk,
f. 24. september
1966, hennar börn
eru: Linda, Tinna
Soffía og Trausti
Már, maki Katr-
ínar er Ingi Bær-
ingsson, f. 10.
mars 1955. Barna-
börn Sjafnar og
Eyjólfs eru sjö.
Sjöfn ólst upp í miðbæ
Reykjavíkur, gekk í Miðbæj-
arskólann og Gagnfræðaskóla
Vesturbæjar. Sjöfn og Eyjólfur
bjuggu lengst af í Reykjavík
eða þar til þau fluttu til Belgíu
og síðan til Bandaríkjanna
vegna starfa eiginmanns Sjafn-
ar á vegum heimshreyfingar
Kiwanis. Þegar þau fluttu
heim á ný settust þau að í
Garðabæ. Sjöfn tók þátt í
margvíslegu félagsstarfi sem
m.a. tengdist alþjóðastarfi
Kiwanishreyfingarinnar auk
félagsstarfa á innlendum vett-
vangi.
Útför Sjafnar fer fram frá
Vídalínskirkju í Garðabæ í
dag, 7. maí 2013, kl. 15. Jarð-
sett verður að Görðum á Álfta-
nesi.
„Við megum aldrei gleyma því að við
getum fundið tilgang í lífinu, jafnvel
þótt við séum í vonlausri aðstöðu
gagnvart örlögum sem ekki verða
umflúin.“
(Viktor E. Frankl)
Elsku mamma, takk fyrir
kærleikann, fræðsluna og
umönnunina á ferðalagi lífsins.
Megir þú hvíla í friði.
Hinsta kveðja,
Katrín Björk, Erla og
Guðrún.
Hluti af gangi lífsins er að
horfa á eftir nánustu vinum og
ættingjum yfir móðuna miklu en
alltaf er jafn þungbært að þurfa
að kveðja eftir langa samveru á
lífsins vegi.
Mig langar til að minnast
elskulegrar tengdamóður minn-
ar, Sjafnar Ólafsdóttur, sem
fallin er nú frá í blóma lífsins.
Barátta hennar við illvígan
sjúkdóm sem hafði sigur að lok-
um var ekki löng, því verður
enn þungbærara að horfast í
augu við hvað lífskrafturinn get-
ur horfið á skömmum tíma.
Við Sjöfn áttum samleið í yfir
30 ár eða frá því að við Erla
dóttir hennar fórum að vera
saman.
Mér er það í fersku minni
þegar ég kom fyrst inn á heimili
þeirra hjóna á Tungubakkanum
hversu vel mér var tekið.
Tengdamóðir mín var glæsi-
leg og stolt kona með stóran
persónuleika.
Það skipti hana miklu máli að
fá að eyða síðustu stundum lífs-
ins heima með sínum nánustu
sér við hlið og varð henni að
þeirri ósk sinni.
Sjöfn var mikið í mun að
verða ekki eftirbátur annarra
þegar kom að nýjustu tækni og
ekki er hægt að segja annað en
að töluverð tækjadella hafi
blundað í henni, hún varð helst
alltaf að eignast það nýjasta og
flottasta í þeim efnum.
Hún varð þeirrar gæfu að-
njótandi að eiga þess kost að
ferðast um heiminn um margra
ára skeið sökum starfa Eyjólfs
fyrir Kiwanishreyfinguna. Þau
bjuggu um nokkurra ára skeið í
Belgíu og Ameríku, þar fann
hún sig vel við að læra ný
tungumál eins og t.d. flæmsku,
þar var hún á heimavelli.
Einnig koma upp í hugann
skemmtilegar heimsóknir okkar
fjölskyldunnar til þeirra er þau
bjuggu erlendis þar sem þeim
hjónum var mikið í mun að sýna
okkur kosti og kynjar hvors
staðar fyrir sig, þær minningar
gleymast ekki.
Nú er komið að leiðarlokum
og langar mig til að þakka Sjöfn
fyrir góðar stundir.
Stolt kona og mikill persónu-
leiki er fallin frá, blessuð sé
minning hennar.
Sigurður Svavarsson.
Nú er tíminn kominn sem ég
bjóst aldrei við. Tíminn sem ég,
ásamt fjölskyldu minni, kveð
ömmu Sjöfn með sorg í hjarta
en gleði yfir að hún er nú komin
á betri stað og hefur fengið
hvíldina frá veikindunum.
Amma var mögnuð kona.
Hún var sjálfstæð og lét ekkert
stoppa sig, ferðaðist um heim-
inn svo lengi sem hún lifði,
stundaði jóga, golf og sund af
miklum krafti sem var lýsandi
fyrir hennar karakter. Fegurðin
skein af henni og hún fékk hrós
hvar sem hún kom. Því var oft
haldið fram að hún væri á aldur
við yndislegu dætur sínar ef
fólk þekkti ekki til. Engan skal
undra þótt afi hafi fallið fyrir
henni og hún fyrir honum enda
þau með glæsilegri hjónum
landsins. Minningarnar um
ömmu og afa eru óteljandi
margar og flestar frá ferðum
erlendis. Tíminn í Belgíu stend-
ur þó upp úr hjá mér enda fjöldi
ferða sem við stórfjölskyldan
fórum þangað þar sem við héld-
um upp á stórafmæli, ferðuð-
umst um landið og áttum
dásamlegar stundir í höllinni
hjá þeim. Nú í seinni tíð var það
auðvitað hið fallega heimili
þeirra hjóna á Spáni þar sem
amma og afi nutu sín svo vel.
Við fjölskyldan fórum nokkrar
ferðir til þeirra í heimsókn og
fengum einnig heimilið að láni
að vild sem við erum svo óend-
anlega þakklát fyrir, þar sem
langömmustrákarnir hafa nú
kynnst lífinu þar vel og eiga
minningarnar alltaf í sínu
hjarta. Eftir að veikindin komu
upp hjá ömmu vissum við strax
í hvað stefndi, þá þjöppuðum við
fjölskyldan okkur enn betur
saman og eyddum eins miklum
tíma og mögulegt var með
ömmu. Síðustu dagarnir hennar
voru erfiðir en yndislegir.
Mig langar í lokin að þakka
afa, mömmu, móðursystrum
mínum og starfsfólki Karítas
heimahlynningar fyrir ómetan-
lega hjúkrun og stuðning í öllu
ferlinu. Ég veit í hjarta mínu að
hún sofnaði sátt eftir alla þá ást
og umhyggju sem hún fékk.
Nú höldum við áfram að
hugsa vel hvert um annað eins
og hún óskaði sér.
Ég bið góðan Guð að veita
afa, mömmu, Erlu, Kötu og
fjölskyldunni allri styrk í sorg-
inni.
Elska þig alltaf amma mín.
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði
að sér.
Hún heitast þig elskaði’ og
fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur
og hlíf.
Hún er íslenska konan, sem ól þig
og þér helgaði sitt líf.
Með landnemum sigldi’ hún um
svarrandi haf.
Hún sefaði harma. Hún vakti’ er hún
svaf.
Hún þerraði tárin. Hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan, sem allt á
að þakka vor þjóð.
(Ómar Ragnarsson)
Þín
Sjöfn.
Elsku amma Sjöfn. Við vilj-
um þakka þér fyrir allt það ein-
staka sem þú hefur fært okkur
og fyrir að hafa staðið með
okkur í gegnum sætt og súrt.
Þú varst alltaf tilbúin að hlusta
á það sem við höfðum fram að
færa og veita okkur ráð. Hvort
sem tímarnir voru erfiðir eða
góðir. Eitt gat maður þó alltaf
treyst á og það var að fá hrein-
skilin svör sem og góðar hug-
myndir sem komu sér vel. Við
munum þó sérstaklega minnast
tímanna sem við áttum saman í
sextugsafmælinu þínu í Belgíu,
þar stendur upp úr þegar afi
kom akandi inn í garðinn á af-
mælisgjöfinni þinni, nýjum bíl.
Svipurinn sem kom á þig,
gleðin sem skein úr andlitinu
þínu, þetta er stund sem við
munum aldrei gleyma.
Elsku amma, við munum
minnast þín með það góða í
huga, þegar við hugsum til
baka fáum við bros á vör, við
munum aldrei gleyma þér.
Kveðja, þín barnabörn,
Davíð, Ólafur og
Trausti Már.
Þegar ég hitti Sjöfn í fyrsta
sinn mætti mér afar glæsileg
og virðuleg kona. Þá bjuggu
þau Eyjólfur í Bandaríkjunum
en komu reglulega til Íslands.
Ég man hvað hún hafði ein-
staklega rólega og yfirvegaða
nærveru enda búin að stunda
jóga af krafti. Við hittum þau
svo með reglulegu millibili eftir
að þau fluttu heim og ég er
þakklát fyrir þær minningar
sem ég á.
Eftir að við Eyjólfur Daníel
fluttum til Noregs 2007 urðu
„ekki-jólaboðin“ hjá Sjöfn og
Eyjólfi mikilvægur hluti af jól-
unum okkar. Í lok árs 2010
eignuðumst við Hilmi og kom-
um heim til Íslands fyrir
skírnina. Þá kom Sjöfn í auka-
heimsóknir til okkar í Loga-
foldina til að nýta tímann sem
best með þá yngsta barna-
barnabarninu sínu. Eftir að við
fórum aftur út höfðum við
reglulega samband í gegnum
Skype og hún fylgdist með
Hilmi bæði í gegnum Facebook
og heimasíðuna hans.
Þar sem ég sit og skrifa
þessi orð verður mér hugsað til
þess hvernig Sjöfn hóf hvert
samtal með því að segja „sæl
frú Hanna Steinunn“. Ég heyri
kveðjuna hennar í huga mér
með þeim takti og áherslum á
orðin sem ekki verður leikið
eftir. Samtölin okkur náðu oft
yfir klukkustund þar sem við
ræddum hvað á daga fjölskyld-
unnar hefði drifið, hvað væri að
gerast í fréttum bæði innan-
lands og utan og raunverulega
allt á milli himins á jarðar.
Sjöfn sýndi námi mínu einstak-
an áhuga og hvatti mig til dáða.
Mikið afskaplega þykir mér
vænt um þau samtöl sem við
áttum og mikið á ég eftir að
sakna þeirra.
Guðdómlegur geisli blíður
greiðir skuggamyrkan geim;
á undra vængjum andinn líður
inn í bjartan friðarheim.
(Hugrún)
Blessuð sé minning Sjafnar
Ólafsdóttur.
Hanna Steinunn.
Kær vinkona, Sjöfn Ólafs-
dóttir, er látin eftir harða bar-
áttu við alvarleg veikindi.
Við vorum ungar þegar leiðir
okkar lágu saman fyrir tæplega
hálfri öld. Eiginmenn okkar áttu
samleið í stjórnmálum, voru
upptendraðir af pólitískum hug-
sjónum og hugðust breyta heim-
inum í anda jafnaðarstefnunnar.
Við smullum líka saman og
bjuggum í nágrenni hvor við
aðra. Áttum við fjölmargar
ánægjustundir, nánast daglega
ræddum við yfir kaffibolla allt
milli himins og jarðar er varðaði
okkur, lífið og tilveruna. Þannig
tvinnaðist líf okkar saman í all-
mörg ár. Síðan fór eins og
stundum gerist, samverustund-
unum fækkaði þegar við vorum
ekki lengur nágrannar og urðu
fátíðari með árunum.
Þetta breyttist aftur fyrir 5-6
árum þegar við báðar eignuð-
umst okkar annað heimili á
Spáni. Vinskapurinn sem hafði
blundað var vakinn á ný, rétt
eins og aðeins fáeinir dagar en
ekki ár hefðu skilið okkur að.
Við vorum aftur sömu gömlu
vinkonurnar. Sameiginlegt
áhugamál okkar hjóna, golfið,
leiddi okkur saman a.m.k. viku-
lega þegar við dvöldumst syðra.
Jafnframt fórum við reglubund-
ið í heimsókn hvor til annarrar.
Gestrisni Sjafnar var einstök,
það var ekki bara að okkur
hjónum væri boðið í heimsóknir
suðurfrá heldur einnig gestum
sem dvöldu með okkur úr
frændgarði eða vinahópi. Ávallt
sama gestrisnin og hlýjan og
vináttan. Allt þetta geymist í
hjartanu og gerir minninguna
um Sjöfn svo elskulega og
ánægjulega.
Sjafnar vinkonu minnar mun
ég sakna, en er jafnframt þakk-
lát fyrir að hafa fengið að kynn-
ast henni, skoðunum hennar,
skapfestu, æðruleysi og hlýju.
Kæri Eyjólfur, við Örlygur
sendum þér, dætrum ykkar og
fjölskyldum þeirra okkar inni-
legustu samúðarkveðjur. Okkur
þykir miður að geta ekki verið
með ykkur á kveðjustund, en
hugur okkar er hjá ykkur.
Blessuð sé minning minnar
kæru vinkonu Sjafnar Ólafsdótt-
ur.
Sigurbjörg Jóhannesdóttir.
Æskuvinkona mín Sjöfn
Ólafsdóttir hefur kvatt þennan
heim allt of fljótt. Ég man eins
og það hafi gerst í gær. Það var
haustið 1949 og ég nýbyrjuð í
sjö ára bekk Miðbæjarskólans.
Sjöfn bekkjarsystir mín kom
heim og spurði hvort ég vildi
leika. Hvort ég vildi. Ég var
himinlifandi. Þannig hófst vin-
skapur okkar Sjafnar sem hefur
staðið alla tíð síðan. Þau eru
ótrúlega ljúf í minningunni
þessi þroskaár okkar vinkvenn-
anna. Í fyrstu leikandi að dúkk-
um en Sjöfn átti ótrúlegt safn af
dúkkufötum sem mamma henn-
ar saumaði. Einu sinni reyndi
ég að stela dúkkuvagninum
hennar, þegar Sjöfn lá veik og
gat ekki leikið. Mamma hennar
stöðvaði mig þegar ég var að
reyna að drösla vagninum niður
alla stigana í Austurstræti 7.
Mikið skammaðist ég mín. Og
þá var það skautaparadísin
Tjörnin. Þar undum við okkur
tímunum saman. Sjöfn var mikil
skautakona, átti alltaf hockey-
skauta og brunaði um tjörnina á
miklum hraða. Það var útilokað
fyrir mig að ná henni í eltinga-
leik því ég var á listskautum,
sem mér fannst reyndar mjög
flott. Það var á Tjörninni sem
við lofuðum að skíra í höfuðið
hvor á annarri ef við eignuð-
umst dætur. Sjöfn efndi loforð-
ið, eignaðist þrjár dætur og
skírði þá yngstu í höfuðið á mér.
Ég eignaðist tvær dætur og mig
vantaði því eina dóttur til að
efna loforðið, því miður. Eftir
alla barnaleikina tóku við ung-
lingsárin með öllu því tilfinn-
ingaróti sem þeim fylgdi, yfir
okkur ástfangnar af stjörnum
eins og Elvis Presley, James
Dean og Sal Mino. Sjöfn varð
strax mjög ákveðin í skoðunum
og hreinskiptin. Hún barðist
fyrir mig þegar henni fannst
móðir mín of ströng. Lét þá frú
Þóru heyra það, sem hafði í
aðra röndina gaman af, en slak-
aði þó hvergi á umvöndunum.
Og svo var það rúnturinn, þetta
ótrúlega menningarfyrirbæri,
þar sem við mældum göturnar
kvöld eftir kvöld til að sýna okk-
ur og sjá aðra. Og svo gerðist
það. Eyjólfur birtist á rúntinum
og þar með voru örlög vinkonu
minnar ráðin. Og síðan hafa þau
gengið saman „götuna fram eft-
ir veg“ allt til síðasta dags, þeg-
ar forlögin hrifu hana vinkonu
mína burt úr þessum heimi
langt fyrir aldur fram. Sjöfn átti
viðburðaríka og gjöfula ævi.
Þau voru mörg verkefnin sem
þau hjón tóku að sér, en við-
burðaríkust voru árin þegar
Eyjólfur gegndi starfi alheims-
forseta Kiwanis. Sjöfn kynntist
því menningu margra þjóða, var
listelsk, öguð og glæsileg kona.
Sjöfn var gæfumanneskja í
einkalífi, þau hjónin eignuðust
þrjár dætur, barnabörnin eru
sjö og langömmubörnin sjö.
Þrátt fyrir að við gengjum ólík-
ar götur á lífsleiðinni rofnuðu
tengslin aldrei og alltaf hittumst
við annað slagið og símtölin
urðu mörg. Ég ætlaði þó að eiga
eina stund í viðbót með henni
Sjöfn áður en kallið kæmi, en
það kom fyrr en ég vænti. Sú
stund hvarf mér, Sjöfn var horf-
in og söknuðurinn situr eftir.
Ég verð því að ylja mér við
minningarnar einar og þessi fá-
tæklegu minningabrot verða
kveðja mín til æskuvinkonu
minnar sem ég hef alltaf metið
mikils.
Við Gísli vottum Eyjólfi og
allri fjölskyldunni okkar dýpstu
samúð vegna fráfalls Sjafnar.
Katrín Eymundsdóttir.
Hún var falleg, ung, með
djúpa seiðandi rödd og bros
hennar var stórt og bjart. Þann-
ig var hún þegar ég man eftir
henni fyrst fyrir nær fimmtíu
árum og þannig var hún þegar
við kvöddumst í hinsta sinn um
páskana.
Sem barn man ég vel eftir
ferðalögum fjölskyldunnar til
Reykjavíkur, bílveiki, nesti úti í
móum og svo ljósahafið sem
birtist eftir að hafa hossast á
malarvegum í marga klukku-
tíma. Hápunktur þessara ferða
var alltaf að heimsækja Sjöfn og
Eyjólf og frænkur mínar þrjár á
Leirubakkanum. Stundum fékk
ég að verða eftir og stundum
fékk ég að gista. Þá var nú
gaman.
Þegar ég fór í Íþróttakenn-
araskólann á Laugarvatni var
heimili þeirra á Tungubakkan-
um mitt annað heimili. Ég var
alltaf velkomin um helgar og
það var aldrei spurning um að
koma mér í og úr rútu eða flugi.
Oft sátum við stelpurnar, að
Sjöfn meðtalinni, í kringum eld-
húsborðið og ræddum um alla
heima og geima. Þetta voru góð-
ar stundir og nú var Sjöfn orðin
meira eins og stóra systir, held-
ur en mamman, þrátt fyrir að
vera þá þegar orðin amma.
Samband okkar rofnaði ekki
þegar ég flutti til Bretlands og
hún heimsótti mig bæði til Car-
diff og Birmingham og hún var
á leið til okkar í Bath þegar hún
veiktist. Við hjónin áttum
ánægjulegan tíma hjá þeim
hjónum bæði í Belgíu og á
Spáni og svo var alltaf reynt að
hittast þegar við komum heim
ef þau voru á landinu.
Nú vorum við Sjöfn orðnar
jafnöldrur og vinkonur og sím-
tölin urðu fleiri og lengri og
kröfðust hægindastóls meðan á
þeim stóð. Sjöfn sagði mér frá
ævintýralegum ferðum þeirra
hjóna um heiminn, en líka mikið
frá fjölskyldunni heima sem
stækkaði ört og var henni svo
kær. Við ræddum líka um
heilsu, sund, jóga, kvenréttinda-
mál, tónlist, leiklist, BBC-sjón-
varpsefni og bókmenntir svo
fátt eitt sé nefnt. Hún var svo
vel lesin og hafði komið svo víða
við að samtölin voru alltaf bæði
örvandi og skemmtileg. Fyrir
nokkrum vikum sendi hún mér
bókina „Leitin að tilgangi lífs-
ins“ sem vekur mann til um-
hugsunar, einmitt það sem hún
vildi.
Sjöfn var hreinskilin, hún gaf
mér mörg góð ráð í gegnum tíð-
ina og lét mig vita ef henni
fannst eitthvað fara miður.
Stuttu eftir að ég flutti út, sagði
hún mér að ég þyrfti ekki að
verða hallærisleg þó ég hefði
flutt til Bretlands. Ég fór og
endurskoðaði fataskápinn minn!
Sjöfn var mér góð og trygg
og fyrirmynd í gegnum allt mitt
líf. Ég er glöð að hafa getað
þakkað henni fyrir það í lifanda
lífi og ég á eftir að sakna henn-
ar óskaplega mikið.
Elsku Eyjólfur, Guðrún,
Erla, Kata og fjölskyldur ykk-
ar. Ég og mín fjölskylda send-
um ykkur okkar innilegustu
samúðarkveðjur með þessu ljóði
eftir Huldu.
Svo líða tregar sem tíðir.
Til eru harmar svo stríðir,
að allra þeir kraftanna krefjast.
Í kraftinum sálirnar hefjast.
Edda Hermannsdóttir.
Kynni mín af Sjöfn hófust
fyrir 43 árum er hún gekk til
liðs við saumaklúbbinn minn
sem var orðinn fáliðaður eftir
að tvær úr hópnum höfðu flust
úr landi. Það var mikill fengur
að þessum liðsauka, þarna fór
kona sem sópaði að. Hún var
vel að sér um flest málefni;
menningu, listir, stjórnmál og
hvaðeina sem bar á góma,
hvergi var komið að tómum kof-
unum hjá Sjöfn, hún hafði líka
mjög ákveðnar skoðanir á mál-
um og það var engin lognmolla í
kringum hana.
Margt var brallað í þessum
saumaklúbbi og þegar börnin
voru orðin stálpuð fórum við að
nota ferðasjóðinn til utanlands-
ferða og fórum í þónokkrar
slíkar og þá var ekki slæmt að
hafa heimskonuna Sjöfn með í
för, en hún hafði ferðast mjög
víða með Eyjólfi eiginmanni
sínum vegna starfa hans sem
alheimsforseti Kiwanishreyfing-
arinnar.
Það kom líka að því að við
misstum Sjöfn úr landi er hún
fluttist með Eyjólfi vegna starfa
hans fyrir Kiwanis, fyrst til
Belgíu og síðar til Bandaríkj-
anna. Ein af utanlandsferðum
klúbbsins var einmitt til að
heimsækja þau hjónin til Gent í
Belgíu þar sem tekið var á móti
okkur af miklum rausnarskap.
Eftir að þau fluttust aftur heim
var þráðurinn tekinn upp að
nýju og hittumst við reglulega í
saumaklúbb.
Þau hjónin settust að í
Garðabæ eftir heimkomuna og
fljótlega gerðist Sjöfn meðlimur
í sundkvennahóp þeim er ég
hafði tilheyrt í allmörg ár og
þannig urðu okkar kynni enn
nánari, nú hittumst við alla
morgna í sundi ef báðar voru á
landinu. Ég hef því fylgst allná-
ið með baráttu hennar við sjúk-
dóminn illvíga sem hún greind-
ist með fyrir tæpu ári og hefur
nú lagt hana að velli. Það var
Sjöfn Ólafsdóttir