Morgunblaðið - 03.09.2013, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 03.09.2013, Blaðsíða 23
23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. SEPTEMBER 2013 Ég er efasemdarmanneskja um Evrópusambandið, telst til þeirra á Bretlandi sem kallast Euroscep- tics. Ég er ekki fædd sem slík, en reynslan hefur kennt mér að draga í efa ágæti elítunnar í Brussel. Árið 2001 sótti ég um starf sem aðalendurskoðandi framkvæmdastjórnar ESB. Mínar hugmyndir um Evrópusambandið voru aðrar þá en nú. Ég var þeirr- ar trúar að ríkjabandalagið stuðl- aði að samvinnu ríkja Evrópu. Ég hélt að það yrði vettvangur um góða siði og stuðlaði að vexti og viðgangi Evrópu og um leið friði á þeim grunni sem Nato hafði lagt. Ég er viss um að margir Evrópubúar deildu þessum skoðunum með mér, það er þangað til fjármálakreppan opnaði augu þeirra. Augu mín hins vegar opnuðust strax eftir að ég hafði haf- ið störf fyrir framkvæmdastjórnina. Ég varð furðu lostin á skorti á gagnsæi og eftirliti með eyðslu á skattfé almennings en þó enn meir á staðföstum ásetningi kerfiskarla um að koma í veg fyrir umbætur. Ég lagði hart að mér til að koma á umbótum og eftirliti með útgjöldum en uppskar áreiti og vaxandi þrýsting um að undirrita reikninga og útgjöld sem ég taldi ólöglega til stofnað. Það er ekkert leyndarmál að ég var rekin fyrir að neita að undirrita reikninga og útgjöld fram- kvæmdastjórnar ESB. Ég hygg að þessi niðurstaða hafi verið þeim ógleymanleg, ekki síður en mér. Hvernig gat það gerst að embættismaður stefndi starfi sínu í hættu og byði voldugri elítunni byrginn? Tími minn í starfi fyrir framkvæmdastjórnina var lærdómsríkur, ekki aðeins er lýtur að fjár- málum ESB heldur líka vegna linnulítillar við- leitni kerfiskarla til að koma á fót Bandaríkjum Evrópu. Skattfé skiptimynt fyrir völd Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins freistar að ná til sín eins miklu skattfé íbúa Evrópu og kostur er vegna þess að fjármagn er lykilþáttur í að afla stuðnings vítt og breitt um álfuna. Framkvæmdastjórnina varðar lítt um hvernig skattfé er eytt á meðan henni er sýnd tryggð fyrir „gjafmildina“. Brussel hefur orðið að nokkurs konar griðastað misheppnaðra stjórnmálamanna sem hafa haldið til Brussel og fengið feit embætti eða sæti á Evrópuþing- inu. Það er engin tilviljun að mikill fjöldi fyrr- verandi ráðherra alls staðar að úr Evrópu er í Brussel. Þar eru fjölmargir fyrrverandi for- sætisráðherrar sem hafa orðið meðvirkir í óráðsíunni. Í Brussel hefur orðið til evrópsk yf- irstétt – ný nomenklatura sem deilir ekki kjör- um með almenningi. Evrópuþingið meðvirkt Fjárframlög höfðu aukist ár frá ári þar til snemma á þessu ári að David Cameron for- sætisráðherra náði að stöðva þensluna. Þrátt fyrir staðfest dæmi um að skattfé almennings hafi verið kastað á glæ, jafnvel misfarið með það, höfðu framlögin aukist jafnt og þétt. Evrópuþingið, sem á að teljast fulltrúi íbúa Evrópu, samþykkir fjárlög framkvæmdastjórn- arinnar um leið og þingmenn líta framhjá þeirri staðreynd að end- urskoðendur neita að skrifa und- ir reikningana. Í stað þess að veita aðhald bíta þingmenn höf- uðið af skömminni með því að fara fram á hækkun fjárlaga ár frá ári. Fjárframlög ESB eiga að stuðla að hagvexti aðildarríkja. En hvað gerðist í Grikklandi, svo dæmi sé tek- ið? Grikkir fengu 60 milljarða evra í uppbygg- ingu innviða samfélagsins á árunum 1998 til 2008. Hvert fóru þessir peningar? Svarið er að það veit enginn. Þeir fóru í botnlausa hít. Hvert fóru 70 milljarðar evra sem voru eyrnamerktir Portúgal? Hvert fóru 80 milljarðar evra sem voru eyrnamerktir Ítalíu? Hvert fóru 120 millj- arðar sem eyrnamerktir voru Spáni? Öll eiga þessi ríki í djúpstæðum vanda þrátt fyrir að fé hafi verið mokað inn í þau. Þrátt fyrir efasemdir um réttmæti þess að heimila Grikkjum upptöku evru var þeim hleypt inn á afar vafasömum forsendum. Efna- hagslíf þeirra uppfyllti ekki lágmarkskröfur en framkvæmdastjórnin virti viðvaranir að vett- ugi. Menn lokuðu augum því markmiðið er að koma á fót evrópsku stórríki. Nú gjalda Grikk- ir dýru verði, allir íbúar Evrópu gjalda þessi mistök dýru verði. Sjávarútvegsstefnan dragbítur á sjávarútveg í Evrópu Eitt af því sem ég komst að í starfi mínu sem aðalbókari framkvæmdastjórnarinnar var að stefnuna mótar fólk með litla faglega þekkingu og reynslu. Ég kom að stefnumótun og setn- ingu reglugerða. Mig rak í rogastans að sjá hve litla þekkingu búrókratar höfðu á viðskiptum og iðnaði sem þeir þó voru að móta reglur um. Ætla má að fólk geri kröfu til Evrópuþing- manna um að þeir leiti sérfræðiráðgjafar frem- ur en láta undan lobbyistum áður en þeir greiða atkvæði en staðreyndin er sú að þingið er bara stimpilpúði fyrir framkvæmdastjórn- ina. Ég vil nefna sem dæmi sameiginlega fisk- veiðistefnu ESB, sem ég efast ekki um að Ís- lendingar eru lítt hrifnir af. Raunar lýsti fisk- veiðikommissarinn sjálf því yfir á síðastliðnu ári að stefnan væri misheppnuð. Skömmu áður en Maria Damanaki gaf út yfirlýsingu sína, hafði ég tekið þátt í að gefa álit á tillögum um afleiðingar sjávarútvegsstefnunnar þar sem fram kom að 1,7 milljörðum evra hafði verið kastað á glæ í úreldingu skipa með engum sjá- anlegum árangri, að 90% fiskistofna eru of- veidd og 100 þúsund störf hafa glatast í sjávar- útvegi. Óháðir sérfræðingar vörpuðu sökinni fyrir þessari sóun að mestu á framkvæmdastjórn ESB. Þeir gagnrýndu hana fyrir slakleg vinnu- brögð og óskýrar reglur um fiskveiðar. Í þings- áliti komst ég að þeirri niðurstöðu að fisk- veiðistefnan stuðlaði ekki að verðmætasköpun, heldur sóun. Hún væri dragbítur á fiskiðnað í Evrópu. Hana ætti að leggja niður af því hún væri sóun á almannafé. En hvað haldið þið? Í stað þess að kasta ónýtri stefnu á haugana þá segjast þeir ætla að endurbæta hana. End- urbætur sem samþykktar voru í vor eru kall- aðar „hámarks sjálfbær arðsemi“. Ekki er tek- ið á vandanum og línur óskýrar um hvað teljast muni „hámarks sjálfbær arðsemi“. Þetta er dæmi um slakleg vinnubrögð. Sama ógagnsæ- ið, skortur á ábyrgð og skýrleika þar sem hver höndin er upp á móti annarri er áfram við lýði í reglugerðarfarganinu. Það hefur ekkert gerst, engar umbætur. Kreppan af sama meiði Efnahagskreppan sem hrjáir Evrópu er, að mínu áliti, af sama meiði. Fólk skammar banka blóðugum skömmum, með réttu, en að mínu áliti þá ber fram- kvæmdastjórnin ríka ábyrgð á kreppunni. Ríkjum, sem ekkert erindi áttu í evrusam- starfið, var fyrirhyggjulaust ýtt inn. Þau voru allt of skuldsett. Menn lokuðu augum í þeirri von að ESB-peningaaustur myndi leysa vanda. Ekkert eftirlit var með ráðstöfun fjármuna. Ekkert eftirlit var með peningaaustrinum. Framkvæmdastjórnin lagði upp með að skapa „stærsta þjónustumarkað veraldar“ á meðan hún ráðstafar fyrst og fremst fjár- munum inn í evrópskan landbúnaðar- og sjáv- arútveg. Lítt eða ekki var hirt um nýsköpun og rannsóknir, uppbyggingu iðnaðar og frum- kvöðlastarf. Niðurstaðan blasir við: evrópskur iðnaður er í sárum og hinir miklu þjónustumarkaðir kom- ust aldrei á flug. Bönkum er kennt um en í stað þess að loka hefur gjaldþrota bönkum verið bjargað án skil- greindra markmiða eða skilyrða. Ekki er hirt um að skattfé renni í arðsamar fjárfestingar. Getum við vænst þess að þeir sem hafa skap- að glundroðann séu með lausnir? Nei, alls ekki! Brussel hefur, líkt og ávallt, komið fram með patent-lausnir – „one size fits all“ – til þess að takast á við vanda og þar með litið fram hjá rót- um vandamála sem mismunandi ríki áttu við að glíma. Öll hafa ríkin verið sett í spennitreyju evrunnar. Í Grikklandi voru opinberar skuldir afar há- ar, jafnvel þegar þjóðin gekk til evrusamstarfs- ins. 50% af vinnandi fólki störfuðu fyrir ríkið og 25% höfðu ríkið sem helstu tekjulind. Aðhalds- aðgerðir gáfu Grikkjum enga valkosti. Þar er iðnaður vanþróaður og eina leið þeirra út úr kreppunni var ferðaþjónusta en með evrunni eru þær dyr lokaðar. Ekkert bólar á raunveru- legum umbótum. Á Spáni, þar sem opinberar skuldir eru ekki miklar, 36%, og fjárlagahalli 4,5%, er fast- eignabólan rót vandans. Lágir vextir mögnuðu vandann. Fjölmargir hafa misst eignir sínar og lamaðir bankar eru uppfullir af eignum á upp- sprengdu verði. Í stað þess að taka á vandanum var ákveðið að bjarga bönkunum í stað þess að loka þeim sem engin von er til að bjarga. Þjóð- arskuldir hafa vaxið og lítið fjármagn fer til uppbyggingar iðnaðar. Bólan er sprungin en vandinn óleystur, atvinnuleysi er yfir 25% og yfir 50% meðal ungs fólks. Svipaður vandi er í Portúgal, Ítalíu og Írlandi þar sem allt of hægt miðar að endurreisn. Íslendingar hefðu verið settir í patentpakka Lítum til Íslands þegar kreppan skall á. Hefðu íslensk stjórnvöld getað gripið til þeirra ráðstafana sem þau gerðu ef þjóðin hefði verið með evru og innan ESB? Auðvitað ekki. Ykkur hefði verið skóflað í sama patentpakkann og öðrum þjóðum: „one size fits all.“ Íslendingar hafa farið í gegn um þrengingar en þið sjáið ljósið fyrir enda ganganna. Þið haf- ið þraukað og eruð ykkar eigin herrar. Sem betur fer hefur ríkisstjórn ykkar ákveð- ið að hætta aðlögunarviðræðum. Það er rétt ákvörðun að mínu mati. Ég vona að Alþingi staðfesti þessa ákvörðun og ef þarf þjóð- aratkvæðagreiðslu. Ég hef ekki komið til Ís- lands til að prédika, heldur til þess að láta í ljósi vonir mínar og væntingar um að þið standið ut- an ESB. Það er auðvelt að ganga í ESB en erfitt að komast út Að fenginni reynslu þá verð ég að vara ykkur við Brussel-maskínunni. ESB mun ekki leggja árar í bát og þeir munu reyna að ýta aðlög- unarferlinu inn um bakdyrnar. Þeir hafa þegar skrúfað fyrir aðlögunarfé. Þeir hóta við- skiptaþvingunum vegna makrílsins og fleira verður tínt til. Ég er efasemdarmanneskja um ESB, svo- kallaður Eurosceptic og hef undanfarinn ára- tug barist fyrir því að Bretland yfirgefi ESB. Það er ekki einfalt verk að ganga á dyr en ég trúi að Íhaldsflokkurinn í Bretlandi sé á réttri leið í átt að fullveldi. David Cameron freistar þess að ná betri samningi fyrir Bretland. Hann stefnir að því að breska þjóðin gangi til þjóð- aratkvæðagreiðslu um ESB. Ég styð viðleitni forsætisráðherra og vonast til að Evrópusam- bandið verði vettvangur samvinnu líkt og mörg okkar dreymdi um. Mér sýnist Angela Merkel líka vera með efasemdir. Í ræðu nýlega komst hún svo að orði að leiðtogar Evrópu þyrftu að koma saman til þess að taka á vanda álfunnar: „inter-governmental talks.“ Er verið að opna möguleika á nýrri nálgun? Íslendingar, munið að það er auðvelt að ganga í Evrópusambandið en afar erfitt að komast út! Eftir Mörtu Andreasen »Ég varð furðu lostin á skorti á gagnsæi og eftirliti með eyðslu á skattfé almennings en þó enn meir á staðföstum ásetningi kerfiskarla um að koma í veg fyrir umbætur. Marta Andreasen Reynslan hefur kennt mér að efast um elítuna í Brussel Höfundur er Evrópuþingmaður fyrir breska Íhaldsflokkinn. Nýnemadagar Margt var um manninn á Háskólatorgi í gær, á fyrsta degi nýnema- og stúdentadaga í Háskóla Íslands. Um 3.500 nemendur hefja nám í skólanum nú í upphafi skólaárs. Kristinn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.