Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.12.2013, Qupperneq 15
29.12. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
„Í fyrsta lagi er 1.000 manna
þorp á Íslandi allt annað en í
Danmörku. Hér eru búðir og bar
og sundlaug, stór og flott kirkja
og tónlistarhús og meiri afþreying
en í jafnstóru samfélagi úti.
Tengslin eru líka sterkari; hér
þekkist fólk miklu meira, ná-
grannarnir vita hver maður er og
hver passar upp á annan. Og hér
er kyrrð; þegar ég var með börnin
á leikvelli í Kaupmannahöfn voru
allir með símann á lofti meðan
þeir ýttu krökkunum í rólunni;
voru á Facebook eða Instagram,
strætisvagnar keyrðu framhjá og
heyrðist í lest. Ég hugsaði með
mér að svona mikið áreiti gæti
ekki verið gott, sérstaklega ekki
fyrir börn. Á þessum tíma fann ég
líka mun sterkar en áður að ég
saknaði heimahaganna og foreldra
minna rosalega mikið. Það var
alltaf gott að koma heim til Eski-
fjarðar en líka alltaf gott að koma
aftur heim í útlöndum. Ég held að
rótleysið í mér hafi stillst af þegar
ég eignaðist börnin. Það er ekki
gott fyrir börn ef foreldrarnir eru
rótlausir.“
Talandi um rótleysi. Þú hefur
farið býsna víða.
„Það er kannski frekar vegna
forvitni eða löngunar til að læra
eitthvað nýtt. Frá því ég var
krakki hef ég verið tilbúin að láta
kasta mér út í djúpu laugina; ég
hef gripið öll þau tækifæri sem
mér hafa gefist til að búa erlendis
og hef haft mjög gott af því. Ég
var til dæmis au pair og aðstoð-
arkona hjá ljósmyndara í Sviss,
kunni ekki að elda en tók samt
starfið og var einu sinni nærri því
búin að gefa krökkunum hráan
kjúkling. Þau fengu líka dálítið oft
pylsur en ég held þau hafi bara
haft gott af því, foreldrarnir voru
svo mikil heilsufrík!“
Þú ætlaðir að sigra heiminn þeg-
ar þú varst yngri. Er stærsti sig-
urinn ef til vill að vera aftur komin
heim?
„Stærsti sigurinn fyrir mig er að
hafa fundið jarðtenginguna sem ég
leitaði í mörg ár. Allt í einu er ég
sátt. Jesper sagði mér að í Dan-
mörku hefði ég aldrei getað lesið
bók í sófanum eða slappað af á ein-
hvern annan hátt; ég þurfti alltaf
að vera með eitthvað í gangi, að
skipuleggja eitthvað eða hitta ein-
hvern. Þetta er ekki lengur svona.
Nú er nóg að fara út með börn-
unum. Mér fannst ég alltaf vera að
missa af einhverju en nú get ég
brosað yfir því á kvöldin að hafa
átt góðan og rólegan dag í hjart-
anu. Nú finn ég loksins að ég er
ekki að missa af neinu.
Hér getur maður auðveldlega
farið út með börnin án þess að það
séu einhver læti. Við getum hjólað
eða skoðað lækinn án þess að vera
skíthrædd um að verða keyrð nið-
ur. Við getum farið í heitan pott og
útisundlaug. Fámennið er yndislegt
þegar allt kemur til alls. Það er
frábært að vera þar sem maður er
sáttur í vinnu og getur verið með
fjölskyldunni. En við getum líka
farið til Danmerkur, þar er frábær
tengdafjölskylda sem erfitt var að
kveðja, en ég er viss um að sam-
bandið við hana á eftir að styrkjast
vegna þess að þegar við förum út
eða þau koma til okkur getum við
verið mikið saman. Hægleiki, eins
og ég kalla slow living, hentar mér
miklu betur en lífsstíllinn sem ég
hélt áður að hentaði.
Nú þarf ég bara að læra að elda.
Það er næsta skref. En ég hef
tíma; endalausan tíma. Í Dan-
mörku var langt að fara í vinnuna
og heim aftur, en nú er ég alltaf
komin heim kortér yfir fjögur með
börnin og það er yndislegt.“
Kom Klovn á kortið!
Því var hvíslað að mér að það væri
þér að þakka að dönsku grínþætt-
irnir Klovn hefðu verið sýndir utan
Danmerkur. Segðu mér aðeins frá
því ævintýri.
„Þegar ég var að klára bachelor-
próf í viðskiptafræði nennti ég ekki
að fjalla um innflutning teppa frá
Kína eða eitthvað álíka, eins og
margir ætluðu sér að skrifa um,
heldur vildi ég finna eitthvað sem
mér þætti skemmtilegt og áhuga-
vert.
Mér þótti skrýtið að þessir frá-
bæru þættir væru ekki sýndir á Ís-
landi og hafði einmitt sagt við
pabba og mömmu að þau yrðu
hreinlega að læra dönsku til að
geta horft á þættina og skilið þá.
Verkefnið mitt í skólanum sner-
ist um að markaðssetja Klovn á Ís-
landi og á meðan ég vann að verk-
efninu var ég miklu sambandi við
RÚV, TV 2 í Danmörku og fram-
leiðendurna og bað um að taka við-
töl við Frank og Kasper sem hluta
af ritgerðinni. Ég vildi komast að
því hvort þeir hefðu trú á því að
hægt væri að selja þættina erlend-
is og þá kom í ljós að enginn hafði
spáð í það. Fulltrúar RÚV voru yf-
ir sig hrifnir af þáttunum og eftir
að þeir dásömuðu þá á einhverri
ráðstefnu voru þeir seldir til Nor-
egs, Finnlands og Þýskalands og
fóru svo miklu víðar.
Kasper og Frank spurðu sölufyr-
irtækið sitt: Hvers vegna datt ykk-
ur ekki í hug að hægt yrði að selja
þættina til útlanda? Þarf íslenskan
nemanda til að koma með þá hug-
mynd? Þeir höfðu aldrei hugsað út
í þetta sjálfir en skiptu um sölufyr-
irtæki og gerðu svo bíómynd sem
sýnd var út um allt. Svona góð
vara eins og Klovn virkar auðvitað
annars staðar en bara í heimaland-
inu.
Ég rúllaði verkefninu upp og það
var mikið hlegið þegar ég varði rit-
gerðina.“
Þú varst fljót að koma Klovn á
alþjóðlega kortið. Hvað með Aust-
urland?
„Ég vil að Austurland verði ný
fluggátt inn í landið; að fólk geti
byrjaði ferðalagið hér eða lokið því,
ef það vill. Að við hér fyrir austan
fáum stærri hluta af ferðamanna-
kökunni og fleiri fái að njóta land-
hlutans. Þetta er stórt svæði og
fjölbreytt; hér er hálendið, Hall-
ormsstaðarskógur, firðir, flottir
göngustaðir og hreindýr, sem sjást
hvergi annars staðar á Íslandi. Mig
dreymir um að gera Austurland að
slowtravel-stað, þar sem fólk gefur
sér lengri tíma en venjulega, slak-
ar vel á í eyðifirði þar sem er ekki
símasamband, njóti þokunnar, birt-
unnar daginn eftir eða norðurljós-
anna. Ég ætla mér að breyta því
hvernig fólk ferðast, ekki bara um
Austurland heldur allt Ísland.
Of margir eru að flýta sér. Það
er ekki hollt og alls fyrir börn. Þau
verða ómöguleg. Það er reyndar
merkilegt að aðeins 19% þeirra
sem heimsækja Austurland eru
fjölskyldufólk og því vil ég breyta.“
Þarf einhverja sérstaka upp-
byggingu til þess eða hvað þarf að
gera?
„Það þarf ekkert sérstakt. Hér
er sundlaug í hverjum bæ, sem er
mjög sérstakt, fólk getur farið í
fjöruferð, labbað upp í fjall, tínt
ber, farið á sveitabæ og skoðað
dýr. Það getur lagst í laut undir
risastóru fjalli. Ég vil að fólk komi
hingað og bremsi sig af. Ég efast
um að betri staður finnist til þess.“
María Hjálmarsdóttir,
Jesper Sand Paulsen og tví-
burarnir, Ellý og Hjálmar, í
austfirskri haustkyrrð.
Hjá Parka færðu flottar innréttingar
í hæsta gæðaflokki. Mikið úrval.
Bjóðum aðeins það besta fyrir þig!
Dalvegi 10-14 • Kópavogi
Vandaðar
innréttingar