Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.01.2014, Qupperneq 27
Á
líflegu heimili í Vesturbænum býr fimm manna
fjölskylda og kann vel við sig enda hefur húsið
fallega sögu. Margrét, sem er arkitekt og
heilsumarkþjálfi og starfar bæði sjálfstætt og
sem heilsumarkþjálfi á mannauðsskrifstofu umhverfis- og
skipulagssviðs Reykjavíkur, segir mikið ævintýri að búa í
húsinu sem afi hennar teiknaði og bjó í ásamt ömmu
Margrétar og Leifi föður hennar. „Fjölskyldan bjó hér
alla tíð, en þegar afi var 93 ára og amma var dáin vildi
hann flytja í minna húsnæði. Þá bauðst mér og minni
fjölskyldu að kaupa húsið. Afa þótti vænt um að húsið
skyldi haldast í fjölskyldunni. Við gerðum mjög litlar
breytingar á húsinu þegar við fluttum inn, en þurftum þó
að endurnýja baðið og eldhúsið. Við gátum slípað upp
parketið, en þetta parket er með því elsta sem lagt var í
íslensk híbýli. Þetta eru skipaplankar sem voru sagaðir í
Völundi og lagðir þegar húsið var byggt árið 1953,“ segir
Margrét og bætir við að húsið hafi verið byggt á tímum
Fjárhagsráðs og á miklum þrengingatímum.
Húsið er fallega staðsett við hafið og segir Margrét
dásamlegt að geta setið við eldhúsborðið og horft út á
sjóinn. „Heimilið allt er minn griðastaður og þar líður
mér mjög vel. Íbúðin er mjög vel skipulögð, hver fer-
metri nýtist mjög vel og herbergin eru af mjög passlegri
stærð og í góðum hlutföllum sem eru til þess fallin að
manni líði vel,“ segir Margrét og segir mikilvægt við
hönnun heimila að herbergja- og rýmisskipan hvetji til
samveru fjölskyldunnar. „Ég vil að litir og ljós skapi hlý-
legt andrúmsloft, það sé einfalt að þrífa og pláss til að
dansa.“ Aðspurð hvað sé á óskalistanum inn á heimilið
langar Margréti mikið í hægindastól í bókahornið og nýja
borðstofustóla. Margrét ber mikla virðingu fyrir húsinu og
munum þess. „Það er mjög góður andi í húsinu.“
Morgunblaðið/Kristinn Mikið af húsgögnum er frá afa Margrétar, Gísla Halldórssyni, sem teiknaði húsið.
Fallegur arinn. Margrét leggur áherslu á að leyfa
gömlum húsgögnum og innréttingum að njóta sín.
Ævintýri að fá að búa í húsinu
MARGRÉT LEIFSDÓTTIR, ARKITEKT OG HEILSUMARKÞJÁLFI, BÝR ÁSAMT FJÖLSKYLDU SINNI Á
TÓMASARHAGA, Í FALLEGU HÚSI SEM AFI HENNAR, GÍSLI HALLDÓRSSON ARKITEKT, HANNAÐI.
Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is
MIKILVÆGT AÐ HAFA PLÁSS TIL AÐ DANSA
5.1. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27