Morgunblaðið - 04.03.2014, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 04.03.2014, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 4. MARS 2014 VIÐTAL Kristján Jónsson kjon@mbl.is „Hægt er að segja nemanda að hann standi sig vel, jafnvel þótt hann geri það ekki. Þetta gerist oft á Íslandi. En síðan fer nemandinn út á vinnu- markaðinn og kemst fljótt að því að sannleikurinn er allt annar. Það er betra að segja þeim sannleikann fyr- irfram,“ segir Þjóðverjinn Andreas Schleicher sem er tölfræðingur hjá Efnahags- og samvinnustofnuninni, OECD og stundar rannsóknir á sviði menntamála. Hann hefur yfirumsjón með PISA, alþjóðlegri samanburð- arkönnun OECD á þriggja ára fresti á árangri 15 ára nemenda í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Samtök atvinnulífsins og aðild- arfélög þeirra fengu Schleicher til að flytja fyrirlestur í gær á Menntadegi atvinnulífsins. Schleicher segir aðspurður að nið- urstöður PISA fái að sjálfsögðu ekki alltaf góðar móttökur, við séum ekki alltaf ánægð með það sem við sjáum í speglinum. Stundum líki okkur myndin, stundum ekki. „En ég held að ef við berum okkar hugmyndir saman við hugmyndir og framtíðarsýn annarra, getum við séð hver gæðin gætu verið, árangur nemenda, jafnræði til náms, nýting fjármuna,“ segir Schleicher. „Þjóðirnar hafa verið að gaum- gæfa þessar niðurstöður. Alþjóð- legur samanburður er aldrei full- kominn en ég held að almennt sé vaxandi áhugi á því að skoða mál hnattrænt. Allir kennarar fá laun eftir sama launastiga á Íslandi. Hvað myndi breytast ef laun hækkuðu? Svona mál er hægt að rannsaka með hliðsjón af PISA-niðurstöðunum.“ Bruðlað með hrós? – En hversu sambærileg eru gögn- in? Og segja þau okkur sannleikann, er sums staðar verið að fegra tölur? „Gögnin eru sambærileg, notast er við algerlega sambærileg þýði og við veljum öll þýðin sjálf hjá OECD. En við samanburðinn þarf að hafa í huga samhengið á hverjum stað. Efna- hagsaðstæður í t.d. Mexíkó eru allt aðrar en í Japan. Við búum í hnatt- rænni veröld. Góður árangur snýst ekki lengur um að vera aðeins betri en ég var í fyrra. Miklu fremur er spurningin núna hvort hann er jafn góður og þau ríki sem standa sig best hafa sýnt að er gerlegt. Hvort verið er að segja okkur sannleikann [um getu nemenda], þá verður að hafa í huga að oft veit fólk ekki hver hann er. Kennari vinnur oft í ákveðinni einangrun. Hann er kannski með 20-25 nemendur í bekknum, hann leggur sig mjög fram. En hver segir honum að hann standi sig vel eða illa og þá í hvaða atriðum? Hann fær ákaflega litla endurgjöf, samstarf milli kennara er yfirleitt lítið í reynd, lítið milli skóla.“ – Er bruðlað með hrósið hér? „Gögn PISA benda til þess. Það er miklu betra að sýna strangt aðhald frá upphafi, átta sig á því hver styrk- ur nemendans er og hvar veikleik- arnir eru, grípa inn og aðstoða nem- endur í basli við að bæta sig í staðinn fyrir að hleypa öllum í gegn sem virðist gerast hér í talsverðum mæli.“ – Ættu skólastjórar að geta hygl- að góðum kennurum og refsað hin- um? „Ég held það. Þeir ættu að ráða yfir alls konar meðulum og valdi til að laða til sín góða kennara og halda þeim. Það sjáum við gerast í skóla- kerfum sem standa sig vel. Faglegt samstarf í skólum byggist mjög á því að snjallir skólastjórar séu á staðn- um. Þeir hafa eftirlit með þróuninni, skapa framtíðarsýnina, bera ábyrgð á því að meta árangur. Mikilvægi skólastjórnenda er aldrei hægt að of- meta.“ Góður árangur í Shanghai Hann segir að góður árangur skól- anna í Shanghai í Kína í PISA- könnunum sé athyglisverður. „Við ættum að huga miklu betur að því sem þeir eru að gera í skól- unum í stað þess að vísa þessu á bug, eingöngu vegna þess að niðurstöð- urnar eru öðruvísi en hjá okkur. Ég hef líka komið í eitt fátækasta hérað Kína, Yunnan, sem er í suður- hlutanum. Efnahagslega er það á svipuðu stigi og sum Afríkulönd. En árangurinn þar var álíka góður og í auðugu ríki eins og Íslandi.“ – Borga þeir kennurum tiltölulega hærri laun en gert er t.d. á Íslandi? „Já, en þótt laun séu einn þáttur er félagsleg staða kennarastéttarinnar miklu ofar en á Íslandi. Þeir velja mjög skynsamlega. Þeir hafa ekki mikið af peningum en setja gæði kennara og kennslu ofar í forgangs- röðina en bekkjarstærð. Íslenskir kennarar fá fremur léleg laun en bekkirnir eru tiltölulega fámennir. Í Kína segja menn: Við viljum fá besta fólkið í kennarastéttina, viljum geta umbunað því vel. Við viljum geta veitt þeim atvinnuumhverfi sem veit- ir þeim í reynd tækifæri til að klífa upp metorðastigann. Í staðinn biðj- um við þá um að kenna stórum bekkjum. Þetta er ekki dýrara, bara önnur aðferð við að nýta peningana. En á Íslandi, svo að dæmi sé tekið, er bara ein fær leið fyrir kennara sem vill komast áfram og/eða fá hærri laun: Hann verður að eldast. Í Kína er hvatinn miklu meiri, þar er auðveldara að sækja fram.“ – Hvað með samkeppni milli skóla og einkarekstur í skólakerfinu? „Hugmyndin er spennandi, fræði- lega séð. En við höfum ekki séð vís- bendingar í gögnunum um að ríki þar sem samkeppni í skólakerfinu er meiri en annars staðar eða meira um einkarekna skóla standi sig almennt betur en hin. Frammistaða nemenda í einkareknum skólum er álíka góð og í opinberum skólum þegar búið er að taka tillit til munarins á fé- lagslegum bakgrunni nemenda. Það sem skiptir máli er sjálfstæði skólans í öflugu menntakerfi. Á Ís- landi er sjálfstæði skólanna við- unandi en kerfið er tiltölulega veikt. Ef eitthvað gengur illa í ákveðnum skóla er ekki sagt frá því og enginn grípur inn. Fátt gerist þótt nemend- urnir dragist aftur úr, einnig vill það gerast að ekki sé tekið eftir því þegar eitthvað gengur vel. Upplýs- ingastreymið er ekki nógu gott. Stuðningskerfið er mjög veikt og faglegt stuðningskerfi fyrir kenn- arana er ekki mjög sterkt.“ Skynsamleg notkun á peningum „En einnig ber að nefna að hér virðist vera mikið rými fyrir fólk til að laga sig að sérstökum aðstæðum. Tengslin milli mótunar mennta- stefnu og þess hvernig kennarar þróa starf sitt eru þó ekki mjög sterk hér. Þar sem þessi mál ganga vel er það yfirleitt svo að nám kennara er hluti af stefnumótun, hún fer ekki bara fram í háskólunum. Framlag starfandi kennara er mun stærra og þeir kenna verðandi kennurum. Best er alltaf að læra af þeim sem eru sjálfir í faginu í staðinn fyrir að fylla höfuð kennaranema af fræðikenn- ingum. Gögn PISA sýna okkur að það sem skiptir mestu er samþætting þess annars vegar að í skólastofunni sé tekin mikil og sjálfstæð ábyrgð á starfinu og hins vegar sé hugarfar samvinnu ríkjandi, einnig að kerfið ráði yfir mikilli getu til að greina við- fangsefni og stuðningsgetan sé mikil. Þetta er uppskriftin. Skólakerfi sem standa sig vel for- gangsraða vel og borga kennurum góð laun en þau verja ekki endilega meira fé í menntamál en Ísland, framlög hér eru í meðallagi. En þau nota peningana skynsamlega.“ Góðum kennurum umbunað?  Yfirmaður PISA-kannana segir aldrei hægt að ofmeta mikilvægi góðra skólastjórnenda  Starfandi kennarar annist nám kennaranema í stað þess að lögð sé áhersla á fræðikenningar Morgunblaðið/Golli Skólarannsóknir Andreas Schleicher, yfirmaður PISA-kannana á námsárangri grunnskólanema í 74 löndum, segir að menn skyldu ekki hunsa góðan árangur Kínverja. Þeir nýti oft skynsamlega þá peninga sem veitt sé til menntamála. Ein af deildum OECD hefur frá upphafi séð um gerð PISA-kannananna á námsárangri 15 ára nemenda en niðurstöður þeirra vekja ávallt mikla at- hygli og stundum harðar deilur. Málið er viðkvæmt og öðru hverju hafa niðurstöður PISA verið rengdar. Athygli vekur hve góðum árangri ýmis Austur-Asíuríki, Kína, Singapúr og fleiri, hafa náð í stærðfræði á síðari árum. Finnar hafa árum saman komið mjög vel út en í síðustu könnun 2012 höfðu þeir misst flugið. Og Svíar hafa einnig hrapað. Á Íslandi hefur valdið vonbrigðum hvað árangur í lesskilningi er lélegur hjá drengjum. PISA stendur fyrir Program for International Student Assessment [Al- þjóðlegt mat á árangri nemenda] í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum um það leyti sem þeir ljúka skyldunámi. Á þessu ári verða einnig birtar niðurstöður könnunar á hæfni nemenda til að leysa vandamál og fjár- málalæsi þeirra. Fyrsta PISA-skýrslan birtist 2001 og voru þátttökuríkin þá 41, nú eru þau 74, þar af tvö í Afríku, Túnis og Marokkó. Andreas Schleicher segir að laga þurfi aðferðir PISA að aðstæðum í Afríku til að gera marktækar kannanir þar. PISA-könnun oft verið umdeild HÆGT AÐ BERA SAMAN ÁRANGUR Í 74 RÍKJUM

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.