Morgunblaðið - 15.11.2014, Page 33
33
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 2014
Sólarglenna Skuggarnir voru langir og sólin átti það til að blinda fólkið í miðborg Reykjavíkur í gær þegar hún glennti sig, eins og til að minna á að hún er ekki alfarin þótt hún sé lágt á lofti.
Golli
Þegar fréttir berast
af utanvegaakstri og
róti á viðkvæmum
slóðum, þar sem vél-
hjólum og jafnvel
þungum trukkum er
beitt utan vega á há-
lendinu, þar sem engin
slík tæki eiga að fara,
þá reiðumst við rétti-
lega og krefjumst þess
að hinir brotlegu séu
fundnir og dæmdir sekir. Þeir níð-
ast á því landi sem okkur ber að
gæta, fyrir okkur, afkomendur okk-
ar og aðra íbúa jarðar, og við köll-
um þá réttilega landníðinga. En
hvað eigum við að kalla þá öfga-
menn sem hafa nú dúkkað upp (enn
einu sinni) með forneskjulegar hug-
myndir um að róta upp hálendinu,
hjarta landsins, á margfalt stór-
karlalegri og fullkomlega óaft-
urkræfan hátt, með raflínum og
uppbyggðum vegum?
Nú þegar við erum komin vel inn
í 21. öldina skyldi maður halda að
menntun og víðsýni hefði slökkt í
síðustu glæðum hugmynda ýmissa
framtakssamra manna af fyrstu
kynslóðum lýðveldisins, sem töldu
það merki um framfarir, þor og
mátt að grafa skurði hvar sem það
væri hægt, að þurrka upp mýrar og
brjóta land; að beita tækjum til að
marka landið og merkja þannig eig-
endum sínum.
Sífellt fleiri Íslendingar fara utan
til náms eða mennta sig með því að
ferðast um ólík lönd heimsálfanna,
fara um ólíka menn-
ingarheima, og skilja
þá um leið sífellt betur
sérstöðu Íslands. Með
samanburðinum kenn-
ir slík reynsla okkur
sitthvað um íslenskt
samfélag, um réttu
skrefin jafnt og mistök
forfeðra okkar, og við
sjáum þá líka hvað við
eigum ekki að gera og
hvað okkur ber að
gera.
Gamall samstarfs-
maður kallaði þá kjánaprik sem
hann taldi vera að gera eitthvað
sem þeir réðu ekki við eða höfðu
ekki vit á. Ég get ekki annað en
kallað þá kjánaprik sem láta sér
detta í hug að nú á 21. öldinni vilji
þjóðin, og umheimurinn sem hefur
vitaskuld líka sitthvað um þessa
hluti að segja, sjá uppbyggðan veg
og raflínur á hálendi Íslands. Hvar
hafa náttröllin haldið sig? Þau stíga
nú fram úr skuggunum og kynna
þessa gamaldags og í raun gölnu
hugmyndir sem lesa má um í
skýrslu á vef Vegagerðarinnar um
framkvæmdir á Sprengisandi. Vita
þau ekki að milljón erlendir gestir
sækja nú Ísland heim, og flestir
vegna náttúrunnar, og að spurning-
arnar sem við stöndum frammi fyrir
snúast um það hvernig við höldum
sérstöðu og gæðum náttúru lands-
ins eins lítið snortnum og unnt er
um ókomin ár, fyrir okkur Íslend-
inga vissulega, en líka fyrir heims-
byggðina, fyrir ókomna gesti og
ófæddar kynslóðir.
Heimskt er heimaalið barn, segir
máltækið, og það getur ekki verið
að fólk sem kemur fram með hug-
myndir sem þessar, að kljúfa há-
lendið og þar með minnka það gríð-
arlega, draga úr áhrifamætti þess,
þekki heiminn í dag. Íslendingar
voru fátækir langt fram á vélaöld og
þess vanmegnugir að brjóta landið
undir sig á meðan menn kepptust
annars staðar við að temja hálendi
og öræfi sinna landa. Nú skunda af-
komendur þeirra til Íslands, sífellt
fleiri ár hvert, til að upplifa þau
verðmæti sem felast í ósnortnu
landi, landi án uppbyggðra vega og
raflína, með stórum lítt snortnum
svæðum án bensínstöðva, án mal-
biks, án þjóðvegasjoppa. Í því felast
verðmætin.
Það kemur svo sannarlega á
óvart þegar við erum komin þetta
vel inn á 21. öldina, þegar heimurin
heldur áfram að skreppa saman og
verður sífellt einsleitari, að ein-
hverjum Íslendingum skuli detta
það í hug að halda innrásinni á há-
lendið áfram. Og láta sér detta í hug
að tala um að slík flónska geti talist
til hagsbóta fyrir þau okkar sem lif-
um í dag. Þegar hugsað er um þann
hluta hálendisins sem enn er lítt
snortinn mega menn ekki voga sér
að hugsa í árum, kjörtímabilum eða
þeim áratugum sem við nú lifum.
Tími náttúrunnar er annar en tími
mannanna. Tveir fornritafræðingar
unnu í 35 ár að nýrri útgáfu Eddu-
kvæðanna. Þegar haft var á orði við
þann sem lifði að sjá verkið koma
út, að það væri langur tími, þá svar-
aði hann neitandi; í samhengi kvæð-
anna sem hafa varðveist þetta lengi
væru 35 ár stuttur tími. Einhverjir,
sem þykir hugmyndir um að eyði-
leggja hálendið álitlegar, hafa sagt í
fjölmiðlum að þetta sé ekkert að
fara að gerast fyrr en eftir tólf til
fimmtán ár; í samhengi ósnortinna
óbyggða er það sama og að segja á
morgun.
Undanfarin ár hef ég unnið að
verkefni þar sem ég ljósmynda fólk
og mannvirki á hálendinu. Enn hef
ég ekki hitt fólk þar, á göngu, ak-
andi, í gróðurvinjum, á örfoka mel-
um eða í fjallaskálum, sem vill sjá
þar uppbyggða vegi eða raflínur.
Fólk vill kyrrð, ævintýrin sem felast
í opnu landinu og fjölbreytilegri og
á köflum óblíðri náttúrunni, æv-
intýrið sem felst í því að sjá ekki
mannvirki og vita að þau eru ekki
nærri, ævintýrið sem felst í því að
komast inn í þennan heim – og stór
hluti af því er að vegirnir séu aðeins
opnir í tvo til þrjá mánuði á ári, veg-
irnir hastir og aðeins fyrir sér-
útbúna bíla og jafnvel þarf að fara
yfir ár til að komast í ævintýrið.
Þetta vitum við öll í dag, hélt ég, en
nátttröllin greinilega ekki. Við vit-
um líka að hálendi Íslands er höf-
uðstóll sem heldur áfram að skila
frábærri ávöxtun ef ekki er á hann
gengið; hálendið sem á að girða af
og varðveita eins og það er, alls ekki
bara fyrir okkur hér og nú, heldur
fyrst og fremst fyrir þau sem á eftir
okkur koma. Svona svæði finnast
ekki annars staðar og þau ber að
vernda ekki síður en handritin. Á
myrkum öldum hungurs og fávisku
skáru landar okkar skinnhandritin
upp og notuðu þau í skæði og sitt-
hvað annað. Við vorkennum þeim í
dag fyrir fátækt og að skilja ekki
hvað þau voru með í höndunum, en
hörmum vitaskuld meðferðina á
menningararfinum, þjóðargersem-
unum. Hvað mun framtíðin segja
um flónsku þeirra öfgamanna sem
eiga að vita betur en ráðast á
ósnortin víðerni, ómetanlega fjár-
sjóði framtíðarinnar?
Ef fólk vill uppbyggða vegi, þá á
það að drífa sig og aka um önnur
lönd, nóg er af uppbyggðum vegum
þar. Við hin sem höfum erft þetta
einstaka og ómetanlega land, tökum
ábyrgð okkar alvarlega og okkur
ber að gæta þess fyrir heimsbyggð-
ina og framtíðina. Þótt það þurfi að
aka á óuppbyggðum malarslóðum á
hálendinu á sumrin og leggja raflín-
ur lengri leið, niðurgrafnar. Land-
níðingar viljum við ekki vera. Eru
þeir nokkuð annað en landníðingar
sem ásælast það að eyða töfra-
heimum hálendisins fyrir afkom-
endum okkar og íbúum jarðar?
Eftir Einar Fal
Ingólfsson » Þegar hugsað er um
þann hluta hálend-
isins sem enn er lítt
snortinn mega menn
ekki voga sér að hugsa í
árum, kjörtímabilum
eða þeim áratugum sem
við nú lifum. Tími nátt-
úrunnar er annar en
tími mannanna. Einar Falur Ingólfsson
Höfundur er ljósmyndari og
blaðamaður.
Enn skal herjað á hálendið