Morgunblaðið - 15.11.2014, Síða 34
34 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 2014
Hvað þýðir að vera frændi! Það var sex ára sonarsonur minn semlagði þessa spurningu fyrir mig að gefnu tilefni. Það er erfitt aðgefa litlu barni viðhlítandi svar við svona stórri spurningu svoað ég leysti málið með því að taka dæmi úr fjölskyldu okkar.
Ég sagði honum að hann og yngsti drengurinn í fjölskyldunni ættu sömu
ömmu og þess vegna væru þeir frændur. Hann virtist ekki fyllilega ánægð-
ur með þetta svar og spurði hvort frændi væri þá ekki bara sama og vinur
og ég sagði honum að þannig væri það stundum en kannski ekki alltaf.
Sennilega er orðið vinur miklu skiljanlegra litlu barni en orðið frændi.
Krakkar eiga jafnan marga skólafélaga og kunningja en þeir eru ekki allir
vinir. Það vita þeir manna best. Og þetta þurfa ekki alltaf að vera jafn-
aldrar því að ég þekki fjögurra ára stúlku sem kallar þrælfullorðinn mann,
sem henni er alls óskyldur, besta vin sinn. Ástæðan er sú að hann sinnir
henni vel, leikur við hana og
sýnir henni áhuga. Þannig
eru vinir. Frændur geta aft-
ur á móti verið mjög fjar-
lægir, áhugalitlir og jafnvel
leiðinlegir. – Frændur eru
frændum verstir, segir gam-
alt máltæki. Eitthvað svipað
má segja um frænkur en það orð er eiginlega stytting úr frændkona. Sumir
kannast ugglaust við að eiga hvimleiðar frænkur sem þeir þurfa að sinna af
hálfgerðri skyldurækni en slíkt á auðvitað síður við um vinkonur. Ef son-
arsonur minn hefði verið nokkrum árum eldri hefði ég trúlega svarað
spurningu hans þannig að orðið frændi merkti ættingi, sumir væru ná-
skyldir honum eins og Bjartur litli en aðrir fjarskyldari. Ég hefði jafnvel
getað teiknað upp fyrir hann dálítið ættartré þar sem langalangamma
hans, sem eignaðist 10 börn, hefði trónað á toppinum, og síðan hefðu af-
komendurnir kvíslast út frá henni. En slíkar langlokur eru langt fyrir ofan
skilning 6 ára barns sem metur vináttu stundum meira en frændsemi. Í
rauninni eru orðin frændi og frænka einkar hentug og þægileg. Þau ná
jafnt yfir mikinn skyldleika sem lítinn og eiga sér ekki samsvaranir í öðrum
norrænum málum sem flækja málið með töntum, kúsínum, ónklum og ne-
vöum, sem öll eru ættuð sunnan úr Evrópu. Það er líka eitthvað hlýlegt við
íslensk orð um frændsemi enda höfðu þau í árdaga víðari merkingu og
náðu yfir margvísleg tryggðarbönd. Frændi er til dæmis vinsælt ávarpsorð
í Íslendingasögum, jafnvel þegar í hlut eiga feðgar eða nánir vinir. Síðasta
merkingin er ekki alveg úr sér gengin því að þaðan er stutt í ensku orðin
friend og friendship sem komin eru langt aftan úr öldum eins og mörg önn-
ur germönsk orð í heimsmálinu.
Um frændsemi
og vináttu
Tungutak
Guðrún Egilson
gudrun@verslo.is
Vinátta „Sennilega er orðið vinur miklu skiljanlegra litlu barni en orðið frændi.“
Teikning/Eoghan O’Reilly
Um síðustu helgi birtist í Sunnudagsblaði Morg-unblaðsins stórmerkilegt viðtal, sem JúlíaMargrét Alexandersdóttir, blaðamaður hér áblaðinu, átti við unga stúlku, Silju Björk
Björnsdóttur, um þunglyndi unglinga, sem Silja Björk
þekkir af eigin raun. Það er ekki ofsagt að foreldrar þurfa
að lesa þetta viðtal, unglingar þurfa að lesa það og kenn-
arar þurfa að lesa það.
Unglingsárin reynast mörgum erfið en þeir erfiðleikar
gætu verið auðveldari viðureignar, ef rétt væri á haldið.
Silja Björk er frumkvöðull í því að ræða þessi sérstöku
vandamál þessa aldurshóps en það hefur hún gert nú á
annað ár með heimsóknum í grunnskóla og menntaskóla.
Það eitt og sér er afrek hjá þessari ungu stúlku, sem nú
er tuttugu og tveggja ára gömul.
Í samtali þeirra Júlíu Margrétar segir Silja Björk:
„Ég var lengi svekkt yfir því að hafa farið í gegnum
menntaskólaárin án þess að njóta þeirra. Ég vildi óska að
einhver hefði getað sagt mér að það hvernig mér leið í
menntaskóla var ekki mér að kenna heldur sjúkdómi, sem
var ekki verið að meðhöndla…Auðvitað kom manni á
óvart að fullorðna fólkið, kennarar og
skólayfirvöld, og líka fjölskylda, skyldu
ekki átta sig á að ég væri einfaldlega veik
en ekki ómöguleg og erfið. En það er
bara staðreynd að þunglyndi og geð-
sjúkdóma er svo oft reynt að skrifa á eitt-
hvað annað og það má líka segja að ég
hafi verið dugleg að fela það eftir bestu getu.“
Hún lýsir tilfinningum sínum og líðan með þessum
hætti:
„Tilfinningarnar sem fóru að gera vart við sig voru
djúpstæðar og sterkar. Ég upplifði sjálfshatur og von-
brigði yfir það heila með allt og sjálfa mig líka. Á alla
kanta fór mér að finnast ég misheppnuð. Ég festist í hugs-
unum – fór að hugsa það sama aftur og aftur og ef fólk
sagði eitthvað við mig sem heilbrigð manneskja hefði ekk-
ert spáð í tók ég því eins og árás og smám saman missti ég
tökin á hugsunum mínum.“
Hér lýsir Silja Björk í hnotskurn tilfinningum, sem
margir munu kannast við og ekki bara þeir, sem hafa átt
við geðveiki að stríða. Það er ómetanlegt fyrir þá sem nú
eru á unglingsaldri að hlusta á unga manneskju tala á
þennan veg vegna þess að þeir munu, margir hverjir
þekkja sjálfa sig í þessum orðum. Og um leið eru þau lær-
dómsrík og raunar vegvísir fyrir bæði foreldra og kenn-
ara.
Svo vill til að nú liggur fyrir Alþingi þingsályktun-
artillaga frá Karli Garðarssyni, alþingismanni Framsókn-
arflokks (og fyrrum útgáfustjóra prentmiðla Árvakurs
hf.), og fleiri þingmönnum um „aðgerðaráætlun um geð-
heilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur
þeirra“.
Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:
„Flutningsmenn vilja bregðast við þeirri staðreynd að
of mörg börn kljást við alvarlega vanlíðan, sem hefur
ómæld áhrif á lífshlaup þeirra. Geðrænn vandi fullorðinna
hefst oft í barnæsku og þeim vanda hefði mögulega mátt
afstýra með góðri og markvissri geðheilbrigðisþjónustu á
þeim tíma…Ómeðhöndlaður kvíði, þunglyndi og annar til-
finingavandi er líklegur til þess að valda hverjum þeim
sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélaginu öllu,
sársauka og byrði…Ómeðhöndlaður geðrænn vandi veld-
ur samfélaginu öllu fjárhagslegu tjóni á ári hverju sem
nemur tugum milljarða króna af skattfé almennings…“
Allt er þetta rétt hjá flutningsmönnum tillögunnar og
ástæða til að minna á í þessu sambandi að nýlega er komin
út í Bretlandi skýrsla, sem hinn merki skóli London Scho-
ol of Economics kemur m.a. að, þar sem sýnt er fram á hið
sama, þ.e. hvað kostnaður framtíðarinnar verður gíf-
urlegur, ef ekki er tekið á vandanum strax í æsku.
Hér á þessum vettvangi hefur áður
verið fjallað um Miðstöð foreldra og
barna, sem vinnur að því að taka á vanda-
málum, sem upp koma í bernsku vegna
geðveiki foreldris eða annarra vandamála
í fjölskyldum, sem geta haft mótandi
áhrif á líf einstaklings.
Í raun má segja að það sama geti átt við, þegar áfeng-
issýki er á ferð, ofbeldi á heimilum eða foreldri situr í
fangelsi, svo dæmi séu nefnd.
Í Breiðholti er verið að gera athyglisverða tilraun með
skimun á tilfinningalegum vandamálum unglinga, sem
hefur það að markmiði að leiða fram þau vandamál, sem
Silja Björk lýsir í viðtalinu hér í Morgunblaðinu. Að skim-
un meðal grunnskólanemenda er vikið í fyrrnefndri þings-
ályktunartillögu en sálfræðingarnir Kristbjörg Þórisdótt-
ir og Hákon Sigursteinsson hafa unnið að þeim málum.
Alþingi verður að tryggja framgang þingsályktun-
artillögu Karls Garðarssonar og samþingsmanna hans. Og
Alþingi verður að tryggja að fjármunir verði til staðar til
þess að vinna að þessum verkefnum.
Þurfi einhverjir þingmenn að öðlast meiri vitneskju um
mikilvægi þessara málefna liggur beint við að sú þing-
nefnd sem fjalla mun um tillöguna bjóði Silju Björk
Björnsdóttur til fundar við sig og hlýði beint og milliliða-
laust á málflutning hennar.
Málflutningur Silju Bjarkar og tillaga Karls Garð-
arssonar og félaga falla vel að því starfi, sem nú er í gangi í
heilbrigðisráðuneyti á vegum Kristjáns Þórs Júlíussonar,
heilbrigðisráðherra í framhaldi af samþykkt þingsins fyrr
á þessu ári á tillögu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þing-
manns Samfylkingar, og fleiri þingmanna.
Nú þarf að fella allt þetta starf í einn og sama farveg.
Viðtalið við þá ungu og kjarkmiklu stúlku, sem hér hefur
verið vísað til, á að verða öllum þeim sem að þessum mál-
um koma hvatning til þess.
Frumkvæði Silju
Bjarkar Björnsdóttur
„Geðrænn vandi
fullorðinna hefst
oft í barnæsku…“
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Maður var nefndur SteinólfurLárusson og bjó í Fagradal á
Skarðsströnd í Dölum. Hann fæddist
26. júní 1928 og hóf snemma búskap
þar vestra með foreldrum sínum.
Steinólfur varð snemma þjóðsagna-
hetja í sveitum, og hefur raunar verið
skrifað um hann bókarkver. Hann
var mikill að vexti og burðum, orð-
heppinn, málskrafsmikill og hlát-
urmildur, og voru hlátrar hans stórir
eins og maðurinn sjálfur. Kvaðst
hann vera af galdramönnum kominn.
Eitt sinn á sínum yngri árum var
Steinólfur á ferð í Reykjavík með
fleira fólki, og varð honum gengið
niður Bankastræti. Þá sá hann í
fyrsta skipti á ævinni dverg, sem
gekk beint í flasið á honum. Stein-
ólfur varð svo hissa, að hann þreif
dverginn upp, svo að hann gæti horft
í andlit honum. Fyrst varð honum
orðfall, en síðan taldi hann sig þurfa
að ávarpa dverginn, og hið eina, sem
honum datt í hug að segja, var: „Hvað
er klukkan?“ Síðan setti hann dverg-
inn niður, og tók sá á rás út í buskann
sem vonlegt var. (Minnir þetta á ann-
að atvik, þegar maður var spurður:
„Eruð þér kvæntir?“ — og hann svar-
aði: „Nei, en ég hef verið í Hrísey.“)
Þrátt fyrir skamma skólagöngu
var Steinólfur í Fagradal prýðilega
að sér og áhugamaður um umbætur í
búskap. Fylgdu jörð hans dúntekja
og selveiðar, og einnig hafði hann
áhuga á fiskeldi, nýtingu vetnis, vind-
orku, jarðhita, graskögglagerð og
þurrkun á þangi. Skrifaði hann ráða-
mönnum fræg bréf um ýmis mál. Eitt
þeirra var 1984 til sýslumannsins í
Dalasýslu um það, hvernig nýta
mætti hið furðulega dýr trjónu-
krabba. Kvað hann það hafa „augu á
stilkum svo sem Marsbúar hafa, og
getur dýrið horft aftur fyrir sig og
fram og haft yfirsýn fyrir báða sína
enda jafntímis; leikur framsókn-
armönnum mjög öfund til þessa hæfi-
leika dýrsins.“ Birtist þetta bréf í
Morgunblaðinu 1992. Annað bréf
skrifaði Steinólfur 1990 samgöngu-
ráðherra, „gullkreistara ríkisins,“ um
það, hversu brýnt væri að smíða brú
yfir Gilsfjörð, og var það bréf kallað
„Gilsfjarðarrollan“. Þegar heilsan bil-
aði, fluttist Steinólfur árið 2004 á
dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal.
Þegar hann var nýkominn þangað,
ávarpaði hann einu sinni sem oftar
ráðskonuna hressilega og spurði,
hvað yrði nú í matinn í hádeginu.
„Snitsel,“ svaraði hún. Þá sagði Stein-
ólfur öldungis hlessa: „Snitsel? Snit-
sel! Ég hef étið landsel og útsel. En
snitsel, – það kvikindi hef ég aldrei
heyrt um, hvað þá étið.“ Steinólfur
lést 15. júlí 2012.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Steinólfur í FagradalKOLAPORTIÐ
kolaportid.is
Einstök stemning í 25 ár
Opið laugardaga og sunnu
daga
frá kl. 11-17