Fréttablaðið - 26.11.2013, Blaðsíða 37
Til fjölda ára hefur verið bent á það álag sem
er á sjúkraliðastéttinni. Undirmönnun, eilífar
breytingar og neikvæð umræða kemur í æ ríkara
mæli niður á heilsufari stéttarinnar. Sjúkraliðar
þjást m.a. af stoðkerfisvandamálum, streitu
og streituröskun sem oft á tíðum breytast úr
vandamálum og kvillum í sjúkdóma sem valda
langvarandi veikindum eða örorku.
Álag eykst
Álag eykst á heilbrigðiskerfið og um leið á ein-
staklinginn sjálfan og fjölskyldu hans.
Áður var lögð ofuráhersla á að sjúkraliðar ynnu
tveir og tveir saman við hjúkrun. Í dag er sjúkra-
liðinn oftast einn við vinnu sína, eða hefur með sér
starfsmann sem enga þjálfun hefur í réttri líkams-
beitingu. Þetta veldur ójafnvægi sem kemur niður
á baki, öxlum, herðum og hnjám. Sjúkraliðum
er ætlað að koma mikið veikum einstaklingum
í og úr rúmi, snúa og sinna, allt upp í 200 kílóa
sjúklingum. Sjúkraliðastéttin er í 99% tilfella
konur sem sumar eru ekki meira en 50 kíló. Það
sjá það allir sem ekki loka augunum að um ófram-
kvæmanlegt verkefni er að ræða, án þess að skaði
hljótist af. Þetta hefur leitt til þess í ríkara mæli að
Sjúkratryggingar Íslands neita að viðurkenna áverka
sem vinnuslys þ.s. ekki var rétt staðið að vinnu.
Aukin veikindi
Upplýsingar Styrktarsjóðs BSRB sýna að sjúkra-
liðar sem fá sjúkradagpeninga úr sjóðnum eru
nánast undantekningarlaust með sjúkdóma sem
rekja má til líkamlegs og/eða andlegs álags við
vinnu. Vaxandi þróun er frá hlutaveikindum til
fullra veikinda.
Sjúkraliðar eru 10% félagsmanna í styrktar-
sjóðnum, en nota þjónustu sjóðsins mun meira en
aðrir félagsmenn. Fyrstu 9 mánuði ársins 2012 voru
sjúkraliðar 21% þeirra sem fengu sjúkradagpeninga
og eru nú á sama tíma 2013 komnir upp í 28%.
Af þeim sem fengu niðurgreidda sálfræðiaðstoð á
fyrstu 9 mánuðum ársins 2012 voru 23% sjúkraliðar
og hefur ekki fækkað á sama tíma 2013.
Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2012 voru 25%
styrkþega sjúkraliðar sem fengu styrk vegna sjúkra-
þjálfunar og eru á sama tíma 2013 í 21%.
Virk starfsendurhæfing sinnir einnig þeim sem
reyna að halda sér á vinnumarkaði eftir langvarandi
veikindi og er þar einnig hátt hlutfall sjúkraliða.
Það dylst ekki að um er að ræða gríðarlegt og
vaxandi heilsuleysi stéttarinnar. Það er því erfið
upplifun að hvergi sé hægt að leita stuðnings í
formi vinnuverndar vegna undirmönnunar og
annarra þátta sem hafa áhrif á heilsufar.
Engin ber ábyrgð
Vinnueftirlitið vísar á Embætti landlæknis, sem
hafi það hlutverk að fylgjast með heilbrigðisstétt-
um. Ekki eingöngu hvort þær stéttir séu í stakk
búnar til að sinna störfum sínum, en ekki síður
að meta þá aðstöðu sem unnið er við og þann
mannafla og mannauð sem vinnur verkin.
Landlæknisembættið vísar jafnvel til baka á
Vinnueftirlitið og niðurstaðan er að engin ber
ábyrgð á starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna.
Það gerist þó að Embætti landlæknis taki út
stofnanir og skili skýrslu varðandi úrbætur. Oftar
en ekki er þess krafist að fjölga þurfi hjúkrunar-
fræðingum, en ekki sjúkraliðum þó svo að vitað sé
að það dragi ekki úr vinnuálagi á sjúkraliða.
Lýðheilsustöð sem var innlimuð í landlæknis-
embættið hefur ekki beitt sér fyrir því að þessu
heilsuspillandi starfsumhverfi sjúkraliða sé breytt
til batnaðar.
Fá ekki fullt starf
Í ráðningarviðtölum sjúkraliða kemur fram að
ekki sé í boði fullt starf, því engin standi undir því
álagi lengur.
Sjúkraliðafélag Íslands minnir á að viðvarandi
álag veldur veikindum og vinnuslysum með
gríðarlegum erfiðleikum og tilkostnaði.
Fyrir hönd sjúkraliðastéttarinnar
Kristín Á. Guðmundsdóttir,
formaður Sjúkraliðafélags Íslands
Evrópudagur sjúkraliða 26. nóvember 2013
STÖÐUGT VINNUÁLAG
VELDUR VEIKINDUM
OG VINNUSLYSUM
Sjúkraliðafélag Íslands
Grensásvegi 16,108 Reykjavík
Sími 553 9493 / 553 9494
Fax 553 9492
slfi@slfi.is