Skessuhorn - 29.05.2013, Page 30
30 MIÐVIKUDAGUR 29. MAÍ 2013
Sjómannadagurinn
Starf varðstjóra á Stjórnstöð
Landhelgisgæslunnar er
margþætt og oft erilssamt.
Grundfirðingurinn Gísli Valur
Arnarson hefur starfað hjá
gæslunni í rúm þrjú ár og
fengist við mörg fjölbreytt
verkefni. Ásamt því að sitja
vaktir í Stjórnstöðinni að
Skógarhlíð hefur hann sinnt
erlendum verkefnum bæði á
Spáni og Ítalíu og farið túra sem
stýrimaður á varðskipunum. Í
sumarfríinu fór hann hins vegar
vestur á strandveiðar en hér
gagnrýnir hann meðal annars
kerfið sem hann segir geta
verið gáfulegra. Blaðamaður
Skessuhorns settist niður með
Gísla Val í blíðviðri föstudaginn
17. maí síðastliðinn, þegar
enginn strandveiðibátur mátti
róa.
Gísli hóf störf hjá Landhelgis
gæslunni fyrir rúmum þremur
árum og sinnti því samhliða námi
við Skipstjórnarskólann fyrst um
sinn. „Ég sótti um hásetapláss hjá
þeim um sumarið en stuttu síðar
fæ ég símhringingu og mér boðið
þetta starf. Eftir stutta umhugsun
sá ég að starfið átti mun betur
við á þessum tímapunkti. Það gaf
mér tækifæri til þess að kynnast
stofnuninni mun betur, út frá
öllum hliðum, og ég gat unnið
með skólanum." Gísli hefur verið í
fullu starfi frá því hann útskrifaðist
úr Skipstjórnarskólanum vorið
2011 en hann skráði sig einnig
í svokallaða varðskipadeild að
útskrift lokinni sem er dreifnám í
samstarfi við Landhelgisgæsluna
og veitir honum séríslensk
skipherraréttindi á varðskip.
„Við sinnum meðal annars
tilkynningarskyldu skipa í
landhelginni. Flest skip þurfa til
dæmis að gefa upp staðsetningu
á klukkustundar fresti en þeir
minnstu gera það á fimmtán
mínútna fresti. Á góðum
strandveiðidegi eru yfir þúsund
bátar á sjó í landhelginni svo þú
getur rétt ímyndað þér hvað þessi
þáttur getur verið yfirgripsmikill.
Ef sendingarnar berast ekki höfum
við hálftíma til þess að hafa uppi á
bátnum. Við reynum þá að hringja
í skipstjórana, kalla í talstöðina og
höfum samband við nærtæka báta.
Ef við brennum inni á þessum
hálftíma þurfum við að ræsa út
björgunarsveitirnar, þyrluna og
okkar einingar, og hefja leit," segir
Gísli en þrír til fimm menn eru á
vakt hverju sinni í Stjórnstöðinni
dagsdaglega. „Þá fylgjumst við
einnig með reglugerðarhólfum,
skyndilokunum og öðrum
bannsvæðum en ákveðnar bjöllur
fara af stað hjá okkur ef fiskiskip
rata inn í þessi hólf." Að auki
er Stjórnstöðin fjarskiptastöð
fyrir varðskip og gæsluloftför,
björgunarstjórnstöð og hlekkur í
hinu almenna öryggiskerfi landsins.
„Um leið og það er útkall þá fer allt
annað nánast á bið," segir Gísli.
Var í eftirliti á Flæmska
hattinum
Í því skyni að afla tekna til reksturs
Landhelgis gæslunnar hefur
stofn unin frá árinu 2010 sinnt
verkefnum erlendis. Í skýrslu
Ríkisendurskoðunar kemur fram
að framlög ríkisins til Landhelgis
gæslunnar hafi verið nánast þau
sömu að krónutölu árin 2007 og
2011 þrátt fyrir að gengisþróun
hafi verið stofnuninni óhagstæð á
þessu tímabili en um fjórðungur
af rekstrarkostnaði hennar var
þá í erlendri mynt. „Vegna þessa
fjársveltis sem gæslan lenti í
urðum við að leita eftir verkefnum
erlendis," segir Gísli sem hefur
sjálfur tekið þátt í nokkrum. Meðal
verkefna sem Landhelgisgæslan
hefur sinnt er landamæraeftirlit
í Miðjarðarhafinu fyrir
Frontex, landamæra eftirlits
stofnun Evrópusambandsins og
fiskveiðieftirlit í Miðjarðarhafinu,
Flæmska hattinum og
Síldarsmugunni fyrir CFCA
sem er fiskveiðieftirlitsstofnun
Evrópusambandsins. „Ég kláraði
hásetatímann minn til dæmis við
fiskveiðieftirlit á Flæmska hattinum
í nóvember 2011 og febrúar og
mars 2012. Það var skítaveður allan
tímann enda Flæmski hatturinn
þekktur fyrir að vera algjört
veðravíti."
Fulltrúi Íslands í
Madrid
Í október síðastliðnum fór
Gísli til Madridar, höfuðborgar
Spánar, til þess að vinna í
stjórnstöð landamæraeftirlits
á vegum Frontex. Þá hafði
Landhelgisgæslan sent eina flugvél
og eitt skip í landamæraeftirlit í
Miðjarðarhafi. „Þetta er fyrst og
fremst flótta manna eftirlit," segir
Gísli, „en flóttamannastraumur
frá Afríku til Evrópu er gífurlegt
vandamál. Eins er töluvert um
smygl á þessum slóðum. Ég var
í Madrid sem fulltrúi Íslands í
stjórnstöðinni, eða national official,
og var tengiliður fyrir áhafnir
flugvélarinnar, bar á milli skilaboð
frá áhöfnunum í stjórnstöðina og
vaktaði flugvélina þegar hún var í
loftinu. Ef áhöfn flugvélarinnar sá
eitthvað grunsamlegt sem dæmi þá
lét hún mig vita og ég kom þeim
skilaboðum áleiðis til Spánverjanna
sem sendu af stað einingar á sjó sem
tóku á móti viðkomandi skipi."
Í frítímanum gafst Gísla hins
vegar tækifæri til þess að rölta
um og skoða borgina. „Madrid er
mjög sérstök borg og alls ekki það
sem hinn hefðbundni ferðamaður
upplifir yfirleitt á Spáni. Þar tala
mjög fáir ensku og þar sem borgin
er inn til landsins eru auðvitað
engar strandir. Því miður komst ég
ekki á leik með Real Madrid en ég
fór og skoðaði leikvöllinn, Santiago
Bernabéu, sem var mikil upplifun,"
segir hann og brosir.
Skemmtilegt tækifæri
til að ferðast
Þegar þetta samtal átti sér stað var
Gísli nýkominn heim frá Róm á Ítalíu
þar sem hann sat fund varðandi
næsta verkefni í landamæraeftirliti
sem Landhelgisgæslan tekur að
sér. „Þarna voru fulltrúar frá öllum
aðildarlöndum Evrópusambandsins
og löndum sem taka þátt í
Schengensamstarfinu. Við munum
senda flugvél í þetta verkefni, TF
SIF, en Landhelgisgæslan á eina
bestu flugvélina í Evrópu til þess
fallna að sinna svona verkefnum.
Það er ástæðan fyrir því að við fáum
þessi verkefni aftur og aftur. Ég mun
því fara aftur út til Rómar í þrjár
vikur í júlí og vinna í stjórnstöðinni
sem fyrr, verð tengiliður milli
áhafnar flugvélarinnar og annarra."
Gísli segir Róm vera allt öðruvísi
borg en Madrid og hann hlakkar
til að skoða hana í sumar. „Róm er
hins vegar mikil ferðamannaborg
svo ég má gera ráð fyrir að rekast
á þó nokkra túrista þarna um
hásumarið. Þetta eru allt sögulegar
borgir og gaman að fá tækifæri til
þess að starfa þar og kynnast þeim í
frítímanum. Svo lengi sem þörf er á
starfsmanni úr Stjórnstöðinni sem
talar góða ensku og hefur reynslu
á samskiptum við flugáhafnirnar þá
er ég reiðubúinn," segir Gísli sem
segist búast við að gæslan taki að
sér enn fleiri verkefni þegar líður
á haustið.
Landhelgisgæslan hefur fengið
verulegar sértekjur af þessum
erlendu verkefnum sem hafa
vegið upp niðurskurð almennra
fjárveitinga. Hægt hefur verið að
halda í þjálfaðan mannskap og
þá hafa starfsmenn fengið mikla
þjálfun og reynslu í alþjóðlegum
verkefnum og eru þannig enn
hæfari og betri starfsmenn en
áður. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar
kemur fram að ávinningurinn af
þessum verkefnum sé því bæði
faglegur og fjárhagslegur.
Vill breytingu á kerfi
strandveiða
Í sumarfríinu frá Landhelgis
gæslunni notaði Gísli tækifærið og
fór vestur á strandveiðar með pabba
sínum. Saman eiga þeir bátinn Val
SH sem þeir gera út á strandveiðar.
„Okkur hefur ekki gengið vel
hingað til enda verið ömurleg tíð og
leiðinda fiskirí. Eins skemmtilegar
og strandveiðarnar geta verið þegar
vel gengur og gott er í sjóinn þá eru
þær jafn leiðinlegar þegar veður er
vont og illa gengur," segir Gísli.
Hann er einn þeirra sem gagnrýnir
kerfi strandveiðanna harðlega.
„Það er ekkert leyndarmál að það
er heilmikið kapp í þessum veiðum.
Ef einn fer út þá fylgja hinir í
kjölfarið, sama hvernig viðrar.
Strandveiðimenn eru jafn misjafnir
og þeir eru margir og bátarnir í afar
misjöfnu standi. Ég er ekki að segja
að kerfið sjálft sé heimskulegt, bara
að það væri hægt að gera það mun
gáfulegra. Svæðaskipanin gæti
haldist óbreytt og tonnafjöldinn
sem útdeilt er á hvert svæði gæti
einnig haldist óbreyttur. Hins vegar
mætti deila þessum tonnafjölda
niður á þá báta sem sótt hafa um
leyfi til strandveiða. Þá fengi hver
bátur fimm eða sex daga, misjafnt
eftir tonnafjölda, til að sækja sinn
skammt og strandveiðimenn
valið sér þá daga sem þeir sækja
skammtinn. Þessi skammtur yrði
þá hvorki framseljanlegur á milli
báta né mánaða. Þetta myndi til
dæmis minnka álagið á alla þá
sem að veiðunum standa í eftirliti
og umsjón, fiskverð myndi hækka
og vera jafnara yfir mánuðinn
og veiðarnar yrðu með öllu
skynsamari."
Stefnir á fastráðningu
á varðskip
Aðspurður um framtíðardrauma
sína segist Gísli helst vilja verða
fastráðinn stýrimaður á einhverju
varðskipinu. Hann hafi þegar
fengið tækifæri til þess að spreyta
sig sem stýrimaður í afleysingum
og líkað mjög vel. „Fyrsti
túrinn minn sem stýrimaður var
dráttarverkefni frá Kanada til
Danmerkur á varðskipinu Tý. Það
var eitthvað lítið að sjá á leiðinni
yfir hafið, við sáum hvorki önnur
skip né fugla í þrjár vikur, það var
frekar skrýtið. Túrinn tók alls 46
daga, frá Reykjavík til Reykjavíkur,
og þótti mér alveg ótrúlega gaman,
þó að hinir um borð hafi nánast
verið orðnir geðveikir," segir
Gísli og hlær. „Ég er þakklátur
fyrir að hafa fengið jafn krefjandi
verkefni í fyrsta túr og þetta var
rosalega góð reynsla. Síðan hef
ég fengið að vera stýrimaður á
Þór, nýja varðskipinu, og kom
einmitt hingað til Grundarfjarðar
á Grundarfjarðardagana í mínum
fyrsta túr. Ég var feginn að missa ekki
algjörlega af bæjarhátíðinni," sagði
Gísli Valur Arnarson varðstjóri í
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar
að lokum.
ákj
Starfsmenn stjórnstöðvarinnar í Madrid. Ljósm. Árni Sæberg.
Kerfi strandveiða gæti verið gáfulegra
Rætt við Gísla Val Arnarson varðstjóra í Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar
Gísli Valur við strandveiðibátinn Val SH sem hann á með föður sínum.
Um borð í varðskipinu Tý.
Ljósm. Árni Sæberg.