Skessuhorn


Skessuhorn - 23.07.2014, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 23.07.2014, Blaðsíða 26
26 MIÐVIKUDAGUR 23. JÚLÍ 2014 Um næstu helgi verður Sturluhátíð í Dölum, en nú eru 800 ár liðin frá fæðingu sagnaritarans mikla Sturlu Þórðarsonar. Hátíðin verður hald- in sunnudaginn 27. júlí að Tjarnar- lundi í Saurbæ. Heiðursgestur há- tíðarinnar verður Vigdís Finnboga- dóttir fyrrverandi forseti Íslands. Samkoman hefst klukkan 13.30 með setningarávarpi Sveins Páls- sonar sveitarstjóra Dalabyggðar. Einar K. Guðfinnson, forseti Al- þingis og Olemic Tommessen for- seti norska stórþingsins munu flytja ávörp. Guðrún Nordal forstöðu- maður stofnunar Árna Magnússon- ar flytur erindi um arfleifð Sturlu Þórðarsonar og Einar Kárason rit- höfundur flytur efni um Sturlu sem hann kallar „Hann vissi ég al- vitrastan og hófsamastan.“ Elísa- bet Haraldsdóttir menningarráðu- nautur fjallar um Sturluþing barna sem efnt verður til í samvinnu við barnaskóla á Vesturlandi næsta vet- ur. Þá gera Halla Steinólfsdóttir bóndi og Sumarliði Ísleifs- son sagnfræðingur grein fyrir efninu: Dalirnir og Sturla, fram- tíðarsýn. Loks munu Stein- dór Andersen og Hilmar Örn Hilmars- son flytja rímur. Samkomunni í Tjarnarlundi lýkur upp úr klukkan þrjú með lokaorðum Sigurðar Þór- ólfssonar bónda í Innri-Fagradal. Eftir það verður farið að Staðarhóli þar sem Sturla bjó og þar fjallar Magnús A. Sigurðsson fornleifa- fræðingur um hugsanlegar rann- sóknir á Staðarhóli. Upplýsingar um gistimöguleika í Dölum má finna á vefsíðunni Visi t Dalir.is eða á upplýsingamið- stöð Dalabyggðar í síma 434 1441. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni http://sturla800.wix. com/sturlathordarson eða hjá Svav- ari Gestssyni gestsson.svavar@gma- il.com - Þórunni Maríu Örnólfs- dóttur tho27@hi.is gsm. 845 6676 – eða á skrifstofu Dalabyggðar. -fréttatilkynning Ef vesælar sýnast þér veislurnar - vertu þá ekkert að flækjast þar! Vísnahorn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóa- firði sem nú er nýlátinn, átti sæti á Alþingi árin 1951 til 1956 ásamt Andrési Eyjólfssyni í Síðumúla. Þeir áttu báðir sæti í efri deild. Það var venja fjárveitinganefnda að leyfa þeim þingmönnum sem ekki áttu þar sæti að senda svonefndan óskalista eða beiðnir um smærri fjárframlög til ýmissa menningarmála í sínum heimahéruðum. Á óskalista Andrésar var smá fjárveiting til Skallagrímsgarðsins í Borgar- nesi sem hlaut náð fyrir augum fjárveitinga- valdsins en Vilhjálmur henti óspart gaman að. Vorið 1956 var aftur kosið til Alþingis. Þá var Andrés ekki í framboði en Vilhjálm vantaði 8 atkvæði til að ná kjöri sem annar þingmaður síns kjördæmis. Þegar Andrés hitti Vilhjálm næst stakk hann að honum þessari vísu: Ei til frægðar förin varð, fataðist Villa mínum af því hann á engan garð á óskalista sínum. Eitt sinn meðan þeir sátu saman á þingi og bjuggu báðir á Hótel Borg kom kona Vil- hjálms til Reykjavíkur að austan og meðan hún dvaldist í höfuðstaðnum gistu þau hjón hjá vinafólki sínu sem bjó við Sundlaugaveg. Þá orti Andrés: Einn Austfirðing ungan ég þekki sem eflist í dyggðinni. Hann syndir en syndgar ekki og sefur hjá konunni. Þegar Vilhjálmur síðar varð ráðherra varð það hans fyrsta verk að lýsa því yfir að í hans veislum yrði ekki veitt áfengi þótt ráðherra- veislur hefðu þá um skeið og eru kannske enn rómaðar fyrir rausnarlegar veitingar sem auðvitað þurfa þó ekki nauðsynlega að vera áfengi. Þegar Andrés heyrði þetta varð hon- um að orði: Valdaferill verði þinn vorri þjóð til nytja en veislur þínar Villi minn vildi ég ekki sitja. Nú gerðist það að Vilhjálmur fær í jólagjöf frá rússneska sendiherranum tvær flöskur af eðalvíni. Þar sem Vilhjálmur var eins og fram hefur komið stakur reglumaður féll þessi gjöf ekki beint í frjóan jarðveg og munaði litlu að þær færu í vaskinn í bókstaflegri merkingu. Svo fór þó ekki heldur tók Villi blað og skrif- aði á það eftirfarandi línur vitandi að Andrés kynni að meta sendinguna en þó líklegur til að meðhöndla hana af fullri virðingu: Jan 1975 Góði gamli þing- og flokksbróðir. Ef vesælar sýnast þér veislurnar vertu þá ekkert að flækjast þar en þessar flöskur þiggðu snar og þurrar vættu kverkarnar. Þetta er komið austan að -óvart lenti á röngum stað. En einmitt þér (fyrir utan hrað) óhætt mun að senda það. Heill þér Andrés elskan mín. Allri firrtur sút og pín lifðu sæll uns dagur dvín og Drottinn kemur að vitja þín. Þinn Villi (sem átti engan garð). Næst gerist það svo að Andrés sest við skriftir í febrúarmánuði sama ár og ritar Vil- hjálmi bréf. Er endir þess á þennan veg: Kynni okkar glöð og góð geymast enn í minnissjóð. -Er þó kulnuð æskuglóð og andlaust föndur mitt við ljóð. Ellihrumur einn ég sat engar veislur þegið gat -Eðla Vodka og Ararat afbragðs vinargjöf ég mat. Ef það leyfir ellin há að ég megi bragð mér fá hrifinn mun ég hrópa þá heill sé Villa og Rússíá. Óska gömlum vini og góðum dreng allra heilla Þinn gamli Drési (Með einn garð að baki, annan framundan). Lengi var símstöð í Síðumúla og gat orð- ið töluvert flókið mál að ná sambandi (eða að minnsta kosti þætti einhverjum unglingnum það nú á dögum) þegar stöðvarnar voru að- eins opnar á ákveðnum tímum og allir ná- grannarnir gátu hlustað á símtalið með minni fyrirhöfn og aukabúnaði en CIA notar nú á dögum. Það var heldur ekki öruggt að all- ir væru staddir nærri símtæki þegar þurfti að heyra í þeim. Afgreiðslustúlka á nálægri sím- stöð sem Andrés þurfti stundum að eiga sam- skipti við fékk eitt sinn þessa vísu frá honum: Þessi bið er þung sem blý, þjakar huga mínum. Það er stundum eilífð í augnablikum þínum. Andrés var lengi umboðsmaður Samvinnu- trygginga og þegar Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli byggði sér nýtt íbúðarhús sendi hann Andrési tryggingarbeiðni sem hófst á þessum orðum: Hérna kemur hússins lýsing handa þér minn kæri vin. -Þetta er meira en meðalhýsing og meira en almennt húsakyn. Svar barst fljótlega enda þurfti að ganga tryggilega frá að allt væri tryggt sem tryggj- anlegt var: Öll eru tæki eldtryggð þar íbúum í haginn, en eru komnar yrkingar upp í gamla bæinn? Ingibjörg Bergþórsdóttir í Fljótstungu lést nýverið og var jarðsungin síðastliðinn laugar- dag. Hún var um hríð organisti í Gilsbakka- kirkju og eitt sinn varð blessuðum prestinum það á að minnast á hana Evu formóður okk- ar með þeim orðum að hún hefði verið: ,,Ein- föld og saklaus eins og kona á að vera.“ Ekki er ég viss um að klerkur hafi fengið mjög já- kvæð viðbrögð við ræðunni. Allavega fékk hann ekki prik hjá organistanum og tæplega hjá eiginkonunni heldur. Minnsta kosti orti Ingibjörg: Upp tókst Guði einmitt svona Evu að gera. Ímynd karlsins æðstu vona, -einnig séra. Hún var einföld eins og kona á að vera. Stundum fer það svo að þeir sem hafa al- menna samúð og velvild fólks hegða sér með þeim hætti að þau hugrenningatengsl glatast að fullu. Skiptir þá ekki öllu hvort um er að ræða stjórnmálaflokka, einstaklinga eða stór- þjóðir. Um líkt leyti og þingmaður nokkur sem fram til þess hafði verið frekar vel liðinn varð uppvís að óþarfri hirðusemi og afsakaði sig með því að um tæknileg mistök hefði ver- ið að ræða gerðu Ísraelsmenn einnig tækni- leg mistök sem kostuðu nokkur mannslíf að nauðsynjalausu. Þá varð Georg á Kjörseyri að orði: Líkt er með Árna og Ísraelsher einkum það sem að miður fer. Á mikilli ferð um Mammons veg og mistök þeirra eru tæknileg. Og eftir blóðbað mikið í Beirút kvað Jón Þ. Björnsson: Í Beirút liggja nú líkin í hrönnum og Líbanon stynur af hryggð. Vor einlæga samúð með Ísraelsmönnum er orðin að viðurstyggð. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Sumarlesari vikunnar Helga Rós er sumarlesari vik- unnar á Bókasafni Akraness. Nafn: Helga Rós Ingimarsdóttir Aldur: 7 ára Hvenær lestu? Bæði á daginn og á kvöldin Áttu uppáhalds bók? Kvöld- sögur handa börnum: Þrettán bestu ævintýri allra tíma Áttu einhvern uppáhalds höf- und? Nei Hvaða bók lastu síðast? Hefð- arköttur í ævintýrum Viltu mæla með einhverri bók fyrir aðra krakka að lesa? Já, Kvöldsögur. Í hvaða skóla ertu ? Grunda- skóla. Áttu einhver önnur áhuga- mál? Sund og klifur. Harmónikkutónar á Varmalandi um verslunarmannahelgina Sturluhátíð um næstu helgi í Dölum Félag Harmónikkuunnenda í Reykjavík heldur um verslunar- mannahelgina sitt árlega harmón- ikkumót „Nú er lag á Varmalandi.“ Er þetta í fjórða sinn sem hátíðin er haldin. Mótið er hefðbundið harm- ónikkumót þar sem gestir stilla sam- an strengi sína og skemmta hverjir öðrum í nokkra daga og dansa svo á kvöldin. Fjölmargar harmónikkuhljóm- sveitir félagsins munu leika fyr- ir dansi og jafnvel er von á gesta- spilurum úr nágrenninu. Félagið á von á norska harmónikusnillingn- um Emil Johansen sem ætlar að taka þátt í hátíðinni, ásamt fjöl- skyldu sinni. Emil Johansen er 37 ára gamall Norðmaður sem undaf- arin ár hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegan tónlistarflutning. Hljómsveit Emils mun leika á tón- leikum kl. 14:00 á laugardeginum, en tvær dætur hans, 14 og 11 ára, munu taka þátt í þessum tónleik- um. Þessir tónleikar verða örugg- lega þess virði að fylgjast með. Auk þess mun hljómsveitin leika fyr- ir dansi á laugardags- og sunnu- dagskvöld. Þá verður sölusýning á harmonikkum á vegum EG tóna. Stjórn og skemmtinefnd FHUR hvetur Vestlendinga til að mæta á Varmaland og njóta skemmtilegra viðburða á harmonikkumóti. mm

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.