Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Qupperneq 14

Vísbending - 24.12.2012, Qupperneq 14
14 afviknum stöðum og ræna þá, ekki síst kaupmenn á leið með varning á milli sveita. Þó skjalfest dæmi séu í sjálfu sér ekki mörg nægja fáir slíkir atburðir til að skapa ótta og beyg meðal fólks; „oft verður ein fjöður að fimm hænum,“ segir íslenskur málsháttur. Á átjándu öld koma fram á sjónarsviðið frægustu útilegumenn Íslandssögunnar, annars vegar Eyvindur Jónsson, jafnan nefndur Fjalla-Eyvindur, (f. 1714) með fylgikonu sinni Höllu Jónsdóttur (f. um 1700) og hins vegar Arnes Pálsson (f. um 1728). Þessi þrjú öllum öðrum fremur urðu til að magna útilegumannatrú almennings. Um þau skapaðist fjöldinn allur af þjóðsögum á átjándu og nítjándu öld; í byrjun hinnar tuttugustu naut leikrit um Eyvind og Höllu eftir skáldið Jóhann Sigurjónsson fádæma vinsælda og varð uppspretta fyrstu kvikmyndarinnar um íslenskt efni, Berg-Ejvind í leikstjórn Svíans Victors Sjöström. Dvalarstaðir útilegumanna Samkvæmt þjóðtrúnni var útilegumenn einkum að finna lengst uppi á öræfum, á hinu óþekkta miðhálendi Íslands. Þar áttu að vera grösugir huldudalir með fjölmennri byggð, svo sem Þórisdalur í Geitlandsjökli sem nefndur er í Grettissögu. Í Ferðabók náttúrufræðinganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem gefin var út 1772, er forvitnileg klausa um þennan dal: „Geitlandsjökull er mjög kunnur meðal landsmanna. Ekki á hann þó frægð sína að þakka fannbreiðunum né því, að hann er langhæstur allra fjalla um þessar slóðir, heldur stafar frægð hans af munnmælasögnum, að í honum sé dalur, mikill og grösugur. Dalur þessi er sagður byggður. Íbúar hans, sem lifa af sauðfjárrækt, eru niðjar útlægra illvirkja og útilegumanna, sem í fornöld kölluðust skógarmenn. Grettissaga gefur tilefni sagna þessara, enda þótt hún sé ekki laus við þjóðsögur. [...] Dalurinn var grösugur og víða skógi vaxinn, og margt var þar sauðfjár., sem var óvenjulega vænt. Í sögunni er það þakkað jarðhita og einkum mörgum og stórum hverum, að jökull lagðist ekki yfir dalinn. Síðan hafa menn haft óljósar fregnir af dal þessum og þeim, er þar búa. Einkum er skýrt frá stórvöxnum, ómörkuðum kindum, sem fundist hafa í Geitlöndum, og taldar voru komnar úr Áradal, en svo er salurinn almennt nefndur nú. Þá er einnig getið um nokkra fífldjarfa menn, sem hafi komist þangað og dvalist þar í vinnumennsku um hríð, en komið síðan til byggða á ný.“ Í Ferðabókinni er nefnt að tveir prestar hafi árið 1664 fundið hinn forna Þórisdal eða Áradal, en ekki getað kannað hann til hlítar vegna veðurs. Frásögn prestanna af þessari ferð hefur varðveist og þar kemur fram að þeir ætluðu sér að kristna útilegumennina í dalnum, ef sögurnar um byggð þeirra þar reyndust réttar. Svo mjög kvað að frægð dalsins til forna að hann er merktur, að vísu ónákvæmt, inn á Íslandskort Orteliusar frá 1590, en það er elsta landakort sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af lögun landsins. Fyrstur manna til að kanna Þórisdal og kortleggja af nákvæmni var Björn Gunnlaugsson. Það gerði hann í tveimur ferðum, sumrin 1834 og 1835. Hann fann enga hveri eða aðrar heitar uppsprettur. Og engir útilegumenn voru sjáanlegir. Dalurinn reyndist jökli þakinn niður í botn. En af því að Björn var örlátur maður og vildi ekki rengja hina fornu Grettissögu tók hann fram að ekki væri útilokað, að á dögum söguhetjunnar á elleftu öld hefði dalurinn verið grænn og grösugur en jökullinn síðan vaxið og þakið hann. Því er ekki að neita að sums staðar á hálendi Íslands voru til forna og eru enn gróðurvinjar. Á þeim slóðum finnast sums staðar ummmerki um mannavist, samfallin hreysi, hleðslur í hellum og grjótbyrgi. Ekki er víst að þær séu allar eftir útilegumenn eða skógarmenn. Og flestar þeirra sem gætu tengst útilegu til lengri tíma virðist hægt að setja í samband við einn mann eða tvo, oftast garpinn Fjalla-Eyvind. Ekki er með vissu vitað um nokkurn annan útilegumann sem gerði öræfin að heimkynnum sínum og bauð óblíðu vetrarveðrinu birginn upp við hájökla árum saman vetur eftir vetur. Sé hugað að dvalarstöðum þeirra útilegumanna, sem áreiðanleg vitneskja er um á tímabilinu frá sautjándu öld til hinnar nítjándu, kemur í ljós að þær eru yfirleitt í grennd við byggð, þótt uppi í fjöllum séu, í hraunflákum eða annars staðar utan alfaraleiðar. Útilegumenn treystu oft á velvilja byggðarmanna sem stundum höfðu samúð með þessum sakamönnum, enda glæpir þeirra ekki alltaf stórvægilegir þótt hegningarlögin væru ströng. Mörg dæmi eru um að útilegumenn hafi fengið að leynast í útihúsum, seljum eða hellisskútum stutt frá bæjarhúsum. Þjóðsögur og skáldverk Munnmælasagnir af skógarmönnum og útilegumönnum hafa gengið á Íslandi frá fyrstu tíð. Sögurnar af Gretti, Gísla Súrssyni, Hólmverjum og Hellismönnum eiga að gerast mörgum öldum áður en þær eru skráðar og hafa vafalaust lengi lifað í mismunandi myndum í munnmælum. Munnmælahefðin er svo sterk að sagnir um útilegumenn áttu áfram blómaskeið þótt skráðar samtímaheimildir, svo sem annálar og dómsskjöl, væru komnar til sögu. Þær héldu einnig áfram að myndast og breiðast út eftir að farið var að safna þjóðsögum skipulega og gefa þær út á prenti á nitjándu öld. Fyrsta prentaða ritið þar sem er að finna sögur af íslenskum útilegumönnum, Íslenskar þjóðsögur og Ævintýri í ritstjórn Jóns Árnasonar bókavarðar, kom út á árunum 1862-1864. Síðan hafa nokkur þjóðsagnasöfn verið gefin út og eru útilegumannasögurnar orðnar æði margar. Fræðimenn hafa flokkað þær með ýmsum hætti, svo sem eftir efni og uppbyggingu. Jón Árnason skipti sögunum í þrjá flokka: a) Margvísleg skipti við útilegumenn; b) Útilegumenn ræna byggðarmönnum; c) Byggðarmenn flýja í óbyggðir. Fylgdi hann hverjum flokki úr hlaði með útlistun. Skýringar sínar við fyrsta flokkinn hefur Jón á þessum orðum: „Sú trú hefur verið mjög almenn hér á landi og er naumlega enn útkulnuð með öllu, að útilegumenn væru til, og er það ekki aðeins alþýðumanna trú, heldur einnig skynugra manna skoðun og greindra. Því verður ekki heldur neitað að nokkrar líkur eru til þessa, t.d. þar sem örnefni eru gefin eftir þeim mönnum sem sagt er að verið hafi í útilegu og annað illar heimtur á haustin.“ Jón Árnason taldi með öðrum orðum ekki ástæðu til að vísa öllum útilegumannasögum á bug eins og hverri og annarri hégilju, og taldi ýmsar sagnanna í fyrsta flokknum, þar sem meðal annars er lagt út af örnefnum, ekki „mjög ótrúlegar eða skreyttar“. Frásagnir í öðrum flokknum um blómlegar útilegumannabyggðir á öræfum taldi Jón aftur á móti ýkjukenndari og bera meiri svip af ævintýrum. Þar segir frá því þegar útilegumenn ræna konum og körlum úr byggð og beita stundum til þess göldrum. „Í ekki fáum af þessum sögum koma fyrir heil og reglubundin sveitarfélög í óbyggðum [...] og skipaðir yfir þau sýslumenn og sumstaðar prestar og helgihöld höfð eins og í sveitum, og þessir hættir útilegumanna gera sögurnar um þá [...] líkar álfasögum.“ Þriðji flokkurinn fjallar um útilegu sem fótur er stundum fyrir. Þarna eru meðal annars sögur af Fjalla-Eyvindi, en þær eru litríkari og ævintýralegri en hin opinberu gögn sem til eru um hann. Flestar eru sögurnar í þessum flokki greinilega ávöxtur frjós ímyndunarafls, svo sem þegar sakamenn sem flýja á fjöll hitta fyrir byggðir útilegumanna þar sem boðið er upp í mannakjöt í hádegismat. Hermt er að útilegumannasögurnar hafi verið einna vinsælastar allra þjóðsagna. Þær urðu kveikjan að mörgum skáldverkum næstu áratugina eftir að þær byrjuðu að koma á prent. Þegar veturinn

x

Vísbending

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.