Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Side 22

Vísbending - 24.12.2012, Side 22
22 á ný þegar fjármagnsviðskipti á milli landa urðu frjáls samfara inngöngu landsins í evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar var skammt að bíða næstu kollsteypu, bankahruns og fjármagnshafta, sem reið yfir þjóðina árið 2008. Sú óþægilega hugsun hlýtur því að leita á hugann að sagan hafi endurtekið sig og hin frjálslynda hugmyndafræði hafi aftur siglt í strand. Sú spurning hlýtur að vakna hvort eftirleikurinn verði sá sami og hvort dyrum verði aftur lokað á umheiminn. Það er nefnilega svo með Íslendinga, eins og Jón nefnir í grein sinni „Um verslun á Íslandi“, að „mörgum hættir við að taka Ísland eitt sér í allri veröldinni og vilja neita að reynsla annarra landa eigi þar við“. Alþjóðavæðing hin fyrri Í grein sinni um verzlun frá árinu 1843, sem áður er vitnað til, sýnir Jón forseti fram á að Danmörk var ekki náttúrulegt viðskiptaland fyrir Ísland. Báðar þjóðir voru bændaþjóðir, matvælaútflytjendur sem fluttu inn iðnvarning á móti. Danir áttu líkt og Íslendingar eftir að komast til bjargálna með því að flytja út mat; hin danska leið var að flytja út flesk og smjör. Danir þurftu því ekki á íslenskum framleiðsluvörum að halda nema til þess að endurselja til annarra þjóða sunnar í álfunni. Þeir höfðu ekki margt að bjóða Íslendingum af iðnvarningi nema það sem þeir höfðu sjálfir keypt af Þjóðverjum og endurseldu hingað til lands. Þeir voru því í raun óþarfir milliliðir fyrir íslenska verslun. Frjáls heimsviðskipti hlutu því að færa þessar þjóðir í sundur í viðskiptalegu tilliti. Þannig var sjálfstæðiskrafa gagnvart Dönum ekki aðeins spurning um þjóðerni heldur bein nauðsyn til þess að bæta viðskiptakjör landsins að áliti Jóns. Það varð líka að efndum. Íslendingar sigldu inn í sjálfstæði og efnalega velsæld með beggja skauta byr frá frjálsum heimsviðskiptum. Tímabilið frá 1860–1914 er yfirleitt nefnt alþjóðavæðing hin fyrri, þegar viðskipti með vörur og fjármagn voru frjáls um nær allan heim og um 90% heimsbúa tóku þátt í myntsamstarfi sem byggt var á gulltryggingu. Samhliða viðskiptafrelsi uxu utanríkisviðskipti hröðum skrefum í kjölfar framfara í samgöngum (járnbrautum og gufuskipum) og fjarskiptum (ritsíma og samræmdum póstsendingum). Á þessum tíma var viðskiptaumhverfið á Íslandi algerlega opið fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingum sem hluti af danska ríkinu. Hins vegar voru aðrir kraftar byrjaðir að færa löndin aftur saman í efnahagslegu tilliti í upphafi tuttugustu aldar þegar danskir fjárfestar fóru að fá áhuga á Íslandi. Ísland þurfti ekki aðeins verslun heldur einnig fjárfestingu. Þá töf sem varð á iðnvæðingu Íslands má líklega að mestu rekja til þess hve Danir sjálfur voru seinir til að iðnvæðast. Það var ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar sem danskt fjármála- og efnahagslíf var orðið nægjanlega þroskað til þess að færa út kvíarnar til Íslands. Staðreyndin er því sú að grunnurinn að íslensku atvinnulífi var lagður með erlendu áhættufjármagni og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var stór hluti íslenskra fyrirtækja í hinum aðskiljanlegustu greinum í eigu erlendra aðila. Að vísu getur leikið á tvennu hver teljist vera útlendingur og hver ekki. Ísland var þrátt fyrir allt hluti af Danmörku og því heimamarkaður þeirra. Í Lítilli varningsbók varaði Jón einnig sterklega við því að nokkrar hömlur væru settar á verslunina að frumkvæði landsmanna sjálfra og nefnir þar sérstaklega til sögunnar hugmyndir um að banna þeim kaupmönnum að versla hérlendis sem ekki eigi lögheimili á Íslandi. En slíkar hugmyndir flögruðu töluvert um á Alþingi á síðari hluta nítjándu aldar. Það var því kannski ekki að ófyrirsynju að Thomsens Magasin birti stóra auglýsingu í blöðum í tengslum við verslunarfrelsis-afmælið árið 1904 með feitletruðum stöfum „Thomsens verzlun er innlend, ágóðinn verður kyr í landinu.“ Var síðan talið hvað verslunin hefði greitt í laun, viðhald og svo framvegis. Hugmyndafræði hafta Það hefur stundum verið haft á orði að trúin á frelsi og framfarir hafi liðið undir lok í skotgröfum fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Vesturveldin beindu öllum sínum mætti og tækni að því að murka lífið úr æskublóma þjóðanna – án þess að barist væri fyrir hugsjónum. Víst er að heimur alþjóðavæðingar hinnar fyrri hrundi eftir að styrjöld braust út árið 1914. Bretar höfðu upphaflega verið helstu verndarar heimsviðskipta, bæði hvað varðaði hugmyndafræði en einnig í því að leiða efnahagssamvinnu á alþjóðavísu. Þeir glötuðu þó forystu sinni er leið á tuttugustu öld. Þegar veruleg efnahagsvandræði steðjuðu síðan að eftir verðfall á hlutabréfamarkaði á Wall Street 1929, skorti tilfinnanlega samhæfingu á alþjóðavettvangi til þess að bregðast við vandanum. Bandaríkjamenn voru eina þjóðin sem hefði getað tekið við forystu af Bretum en þeir drógu sig inn í skelina. Þegar kreppan herti tökin þar vestra var landamærunum lokað með tollum og önnur lönd svöruðu í sömu mynt. Alþjóðaviðskipti drógust gríðarhratt saman á skömmum tíma er tollamúrar risu á milli landa. Allt í einu snerist rás tímans við og einangrunarhyggja varð allsráðandi. Í kreppunni voru utanríkisviðskipti fest niður við tvíhliða jafnkeypissamninga á milli landa er komu ákaflega illa við Íslendinga sem fluttu út fisk til Suðurlanda en keyptu iðnvarning af norðlægari slóðum. Hægt er að halda því fram að heimurinn hafi þá lokast Íslendingum en andstaðan hérlendis gegn viðskiptafrelsi var hins mun harðari og einarðari en hjá til að mynda frændþjóðum á Norðurlöndum. Hvað var það sem sneri hugum Íslendinga frá viðskiptafrelsi og alþjóðahyggju í efnahagsmálum umfram það sem gerðist í öðrum vestrænum löndum? Að hluta til má rekja þetta til minnimáttarkenndar átjándu aldar, forpokunarinnar og kotungsháttarins sem Jón amaðist stöðugt við um sína daga en hefur ávallt gengið í endurnýjun lífdaga með hverri kynslóð. Hún birtist þá oft sem hagsmunagæsla, verndarstefna, þjóðremba, lýðskrum eða eitthvert það afbrigði af hugmyndafræði sem hampar jafnrétti og bræðralagi í því skyni að réttlæta frelsissviptingu til athafna. Þeim sem hér ritar býður í grun að hnúar Jóns forseta hefðu hvítnað hefði hann mátt hlýða á margar þær ræður sem voru fluttar honum til heiðurs en gegn hugmyndafræði hans á 200 ára afmælinu árið 2011. Þegar kom fram á tuttugustu öld varð æ ljósara að alþjóðavæðingin leiddi til margvíslegra Íslendingar fylktu oft liði undir hvítbláa fánanum á fyrsta áratug aldarinnar.

x

Vísbending

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.