Vísbending - 24.12.2012, Side 23
23
þjóðfélagsbreytinga sem lögðust illa í landsmenn. Þar mætti nefna
þéttbýlismyndun, byggðaröskun og fleiri sviptingar sem fylgdu
breyttum atvinnuháttum.
Í bók sinni Iðnbylting hugarfarsins heldur Ólafur Ásgeirsson
sagnfræðingur því fram með góðum rökum að deilur um byggðamál
fremur en stéttabaráttu hafi verið helsta hreyfiaflið í stjórnmálaátökum
tuttugustu aldar. Árangur Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni
fólst í því að gera íslenska bændur að fríverslunarsinnum og um
leið að sjálfstæðissinnum. Með hæfilegri einföldun má líta svo á
að íslensk bændastétt undir forystu Jóns forseta hafi gert uppreisn
gegn forpokaðri og dansklundaðri embættismannastétt en með
viðskiptafrelsi að markmiði. Aftur er með hæfilegri einföldun hægt
að halda því fram að önnur „bændauppreisn“ hafi orðið undir forystu
Jónasar Jónssonar frá Hriflu gegn dansklundaðri embættismannastétt
í Reykjavík en í það sinn gegn fríverslun.
Þetta er þó líklega aðeins hluti af sögunni. Engum blöðum er um
það að fletta að þeir Jónas frá Hriflu og Jón forseti voru algerlega á
öndverðum meiði í efnahagsmálum þó að báðir hafi þeir sótt fylgi til
sama þjóðfélagshóps, íslenskra bænda, hverra afstaða til fríverslunar
hefur án efa ráðist af samkeppnisstöðu þeirra sjálfra á alþjóðavettvangi.
Minning Jónasar lifir í núverandi landbúnaðarstefnu sem enn skýlir
býlum landsins fyrir alþjóðlegri samkeppni, en sá vandi Íslands að
reka opið markaðshagkerfi á sér þó dýpri rætur.
Íslenska krónan – Akkilesarhæll fullveldis?
Líklega hafa fáar vestrænar þjóðir snúist jafnhratt og afdráttarlaust
gegn markaðsbúskap og Íslendingar, með höftum og bönnum eftir
að fullveldi var fengið, og átt í jafnmiklum brösum síðan við að
reka opið markaðshagkerfi á eigin ábyrgð, þó að slíkt sé vel þekkt
í þriðja heiminum. Það hlýtur að teljast umhugsunarefni af hverju
hin frjálslynda lína Jóns í efnahagsmálum varð svo endaslepp á
sjálfstæðu Íslandi. Sá sem þetta ritar vill rekja það til þeirrar hörðu
glímu sem Ísland hefur háð við að varðveita stöðugleika í efnahagslífi
samhliða því að halda landinu opnu gagnvart umheiminum. Í þessari
glímu hafa landsmenn mjög farið halloka og viðbrögðin hafa gjarnan
verið þau að draga sig út úr alþjóðasamfélaginu til þess að tryggja
stöðugleika.
Stóran hluta af þessum óstöðugleika má rekja til íslensku
krónunnar sem varð að sjálfstæðum gjaldmiðli við stofnun
fullveldis árið 1918 og það á sama tíma og alþjóðlegt myntstarf
um gullfót steytti á skerjum. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða
og verðbólgu sem staðið hefur óslitið fram á okkar daga. Þessi
óstöðugleiki sést vel á þeirri staðreynd að við fullveldi var íslenska
krónan jafngild þeirri dönsku en nú þarf 2000 íslenskar krónur (ef
myntbreytingin 1980 er tekin með í reikninginn) til þess að kaupa
eina danska. Íslendingar voru því aldeilis óviðbúnir að reka eigin
mynt og stunda sjálfstæða efnahagsstjórn þegar til átti að taka, nýr
grundvöllur að peningamálastjórn í sjálfstæðu myntkerfi var aldrei
lagður og árangurinn er eftir því. Sá rauði þráður gengur í gegnum
sögu landsins eftir fullveldi að sveiflur í gengi krónunnar hafa truflað
utanríkisviðskipti og valdið því að útflutningur er ýmist rekinn með
ofsagróða eða miklu tapi. Öllu afdrifaríkara er þó að vandræði í
gjaldeyrismarkaði hafa oftlega kallað fram haftaaðgerðir af ýmsum
toga og ýtt undir einangrunarhyggju.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort Ísland sé of lítið efnahagssvæði
til þess að gefa út sína eigin mynt. Það má sem best sjá Jón forseta
fyrir sér þar sem hann tekur það mál fyrir í stíl Nýrra félagsrita og
leiða til þeirrar óhrekjanlegu niðurstöðu að alþjóðleg myntsamvinna
henti landsmönnum mun betur en sjálfstæð mynt. Í huga hinna
klassísku hagfræðinga, sem Jón sótti sína þekkingu til, hafði sjálfstæði
í peningamálum takmarkaða þýðingu og átti alls ekki að misnota
með því að gengisfella gjaldmiðla. Mestu máli skipti að peningar
héldu föstu verðgildi, að þeir trufluðu ekki viðskipti og að verðbólga
yrði ekki til að færa peninga úr einum vasa í annan. Ísland tók upp
gulltryggingu árið 1873 sem hluti af danska myntkerfinu og varð
síðan hluti af Norræna myntbandalaginu tveimur árum síðar. Hvorki
Jón Sigurðsson né nokkur annar af leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar
leit á sjálfstæða mynt og/eða sjálfstæða peningamálastjórnun sem
fullveldismarkmið í sjálfu sér. Ekki verður annað séð en að landsmenn
hafi verið ákaflega sáttir við aðild sína að þessu myntbandalagi og hafi
ætlað sér að vera þar áfram sem fullvalda þjóð. Jafnvel má álíta að
andvaraleysi þeirra í peningamálum eftir fullveldi megi rekja til þess
að þeir hafi tekið myntbandalagið sem gefið. En hið skandinavíska
myntbandalag leystist upp eftir stríðið 1918 og uppbrot þess skildu
landsmenn eftir veglausa í myntmálum. Og veglausir eru þeir enn.
Frá fundi við Miðbæjarskólann í Reykjavík í upphafi 20. aldarinnar. Íslendingar börðust harkalega fyrir frelsi þjóðarinnar en
óttinn við viðskiptafrelsi kemur upp aftur og aftur, og birtist þá sem hagsmunagæsla, verndarstefna, þjóðremba, lýðskrum eða
eitthvert afbrigði af hugmyndafræði sem hampar jafnrétti og bræðralagi í því skyni að réttlæta frelsissviptingu til athafna.
V