Vísbending - 24.12.2012, Síða 26
26
Túngatan er handaverk heimamanna
Fyrir röð tilviljana var aldrei byggt á túninu umhverfis sjúkrahúsið
og þess vegna nýtur það sín eins vel og raun ber vitni og stendur í
sínu nærumhverfi nákvæmlega eins og það gerði í upphafi. Að
neðan liggur kirkjugarðurinn að túninu en að ofan Túngatan sem
er enn ein bæjarprýðin. Þar er ein fegursta götumynd sem finnst í
íslensku þéttbýli með reisulegum íbúðarhúsum sem flest eru byggð
á fyrri helmingi 20. aldar. Margir sem koma til Ísafjarðar halda að
það sé snillingurinn Guðjón Samúelsson sem á heiðurinn af þessari
smekklegu götumynd en svo er ekki.
Þetta er handaverk heimamanna og eru tveir smiðir sem áttu stærstan
þátt í því. Annar er Jón H. Sigmundsson og hinn er Páll Kristjánsson
frá Stapadal. Þess má þó geta að þegar Guðjón Samúelsson teiknaði
sjúkrahúsið rissaði hann upp götumynd Túngötunnar sem ber þann
svip sem sést í dag. Þannig má segja að smiðirnir góðu hafi verið trúir
hugmyndum Guðjóns.
Síðast en ekki síst mætti nefna húsin við Hafnarstræti 2 sem vekja
athygli og aðdáun allra sem um Silfurtorgið fara en þessi hús eru í
svokölluðum Jugend-stíl og setja afar sterkan svip á miðbæ þessa
forna verslunarstaðar. Ásamt stórhýsinu sem áður hýsti Kaupfélag
Ísfirðinga, Landsbankahúsinu og Gamla apótekinu mynda þessi
hús götumynd við Hafnarstræti sem gefur Ísafirði yfirbragð lítillar
heimsborgar.
Við þessa upptalningu mætti svo bæta nokkrum húsum frá
ofanverðri tuttugustu öld sem byggð voru til opinberra nota, s.s.
Alþýðuhúsið við Austurveg, Húsmæðraskólinn og Sundhöllin við
sömu götu. Áratugum saman setti stórhýsi Kaupfélags Ísfirðinga
sterkan svip á kaupstaðinn og kaupfélagshornið réttnefnt hjarta
bæjarins. Kaupfélag Ísfirðinga heyrir sögunni til en á jarðhæð
hússins eru enn reknar verslanir og efri hæðunum mun verða breytt
í hótelrými.
gamla fjósið fær líf
Inni í Firði, á hinu gamla Seljalandi, hefur
gamalt fjós verið gert upp og breytt í íbúðarhús
og vinnustofur listamanna. Þetta gamla fjós er
merkilegur minnisvarði um samfélagið á Ísafirði
fyrr á tíð því það var í eigu Ísafjarðarbæjar en á
þriðja áratug aldarinnar stofnuðu jafnaðarmenn sem
þá réðu lögum og lofum á Ísafirði kúabú svo allir
bæjarbúar gætu fengið mjólk.
Fyrir vikið á mjólkurvinnsla á Ísafirði afar
langa sögu en fyrir kaldhæðni örlaganna hefur
hagræðingarárátta nútímans leitt til þess að
Mjólkurstöðinni á Ísafirði var lokað fyrir skömmu.
Mjólk sem bændur í Djúpi, Súgandafirði og
Önundarfirði framleiða er nú flutt með bílum suður
á land. Hún er unnin á Selfossi og svo ferðast
fernurnar og dollurnar aftur landveg vestur á Ísafjörð
og aðra staði vestra sem þurfa.
Nýjasta viðbótin í hóp gamalla og vel uppgerðra
húsa sem setja fallegan svip á bæinn er Hrannargata
2 þar sem veitingastaðinn Húsið er að finna. Viðgerð
þess var lokið sumarið 2012 og er öllum bæjarbúum
gleðiefni því þessi gamli sýslumannsbústaður var
farinn að grotna svolítið niður en umrætt hús er afar
áberandi í bæjarmyndinni og blasir við þeim sem
koma akandi eftir Skutulsfjarðarbraut.
Í helgum stein við Engjaveg
Jón Páll Halldórsson býr við Engjaveg á
Ísafirði og hefur gert í rúmlega hálfa öld. Engjavegur liggur samsíða
Seljalandsvegi uppi í hlíðinni fyrir ofan eyrina og þaðan er gott útsýni
yfir hinn forna verslunarstað á Eyri við Skutulsfjörð.
Jón Páll starfaði í áratugi sem forstjóri Norðurtangans sem var
annar af tveimur stærstu vinnustöðum á Ísafirði seinni hluta síðustu
aldar. Nokkuð er liðið á annan tug ára síðan Jón Páll settist í helgan
stein og hætti daglaunavinnu. Ekki hefur hann samt setið auðum
höndum því ritstörf og sagnagrúsk hafa alla tíð verið hans annað líf
og eftir að starfsferli lauk hafa fjórar bækur um atvinnusögu Ísafjarðar
bæst í safn titla eftir hann. Ein fjallar um togaraútgerð Ísfirðinga,
önnur um fiskvinnslu, sú þriðja um verslunarsögu bæjarins og hin
fjórða og nýjasta um flugsögu Ísafjarðar.
Jón Páll er fæddur 1929 og því 83 ára gamall þegar samtal okkar
fer fram. Hann er samt enn beinn í baki og kvikur í hreyfingum.
Ég barðist gegnum skafla og hríð neðan af Eyri upp á Engjaveg
og settist hjá Jóni Páli einn dag í nóvember þegar birtan átti erfitt
uppdráttar og tæplega sást þvert yfir Engjaveginn fyrir skafrenningi
og bað hann að rifja upp aðdraganda þess að uppbygging gamalla
húsa á Ísafirði hófst.
„Þegar okkur loksins tókst að fá bæjarstjórnina á Ísafirði til þess
að friðlýsa húsin og setja á fót sérstaka húsafriðunarnefnd hafði
þessi hugmynd átt sér nokkurn aðdraganda,“ sagði Jón Páll hægt og
virðulega.
„Innan vébanda Rotaryklúbbsins hér á Ísafirði hafa oft verið flutt
erindi sem hafa orðið kveikjan að ýmsum framfaramálum í bænum.
Jóhann Gunnar Ólafsson starfaði hér sem bæjarfógeti í 25 ár en
varðveisla sögulegra minja var mikið áhugamál hans. Þegar hann
kvaddi okkur félaga sína í Rotaryklúbbnum þá lét hann svo um mælt
að eina ósk hans til samborgara sinna á Ísafirði væri að bæjarrústum
Helga Hrólfssonar á Eyri og verslunarhúsunum í Neðstakaupstað yrði
hlíft við útrýmingu. Fram að þeim tíma voru þessi hús að drabbast
Jón Páll Halldórsson átti ríkan þátt í endurreisn gömlu húsanna í Neðstakaupstað ásamt
félögum sínum í húsfriðunarnefnd Ísafjarðar í röska tvö áratugi.