Vísbending - 24.12.2012, Síða 30
30
Í
rigningunni gekk maður á miðjum aldri íklæddur gráum
spæjarafrakka. Hann kallaði sig alltaf James Bond. Hefði
kannski líkst honum í fjarlægð ef hann hefði ekki haldið
á þessari skærgulu og neongrænu regnhlíf og sleppt
bomsunum. En útlitið var ekki efst í huga hans. Í dag var hann að
vinna. Seinna myndi hann svo fá sér hrærðan martini.
Já, fyrsta björgunin mín, tuldraði maðurinn við sjálfan sig um
leið og hann settist á bekk og tók upp eldgamalt dagblað. Hann
brosti er hann horfði á myndina af sjálfum sér á blaðsíðu þrjú.
Fyrirsögnin: Óbreyttur borgari elti uppi þjóf. Hann las greinina
eins og hann væri að sjá hana í fyrsta skipti. Færði sig ögn til á
bekknum, ekki vegna bleytunnar heldur til að koma sér betur fyrir.
Það er nú ekkert að fá smá bleytu á sitjandann, þegar maður hefur
drýgt svona dáð að elta uppi þjóf, hugsaði hann og las áfram. Síðan
leit hann á myndina við hliðina, þar sem gömul kona faðmaði hann
og sýndi töskuna sína brosandi út að eyrum.
Eftir að hafa lesið þetta oft yfir hélt hann af stað. Gekk í gegnum
skuggahverfi sem var samblanda af iðnaðarhverfi og fátæklegum
íbúðarhúsum inn á milli.
– Aha, muldraði James, þegar hann sá ljóstýru í einum
glugganum. Hann gekk nær því húsi og datt aldeilis í lukkupottinn,
glugginn var opinn. James lagði við hlustir. Heyrði kvennamanns-
og karlmannsrödd. – Peninga já, ætlar þú að redda því, heyrði hann
konuröddina segja, sem hló og skammaðist um leið. Ætli verði ekki
erfitt fyrir þig að útvega peninga? Þú sem ert nýsloppinn úr fangelsi
og ferð þangað örugglega fljótlega aftur miðað við þína heppni.
Drengurinn reyndi að malda í móinn. Þú reynir sjálf að svindla á
þínum eigin syni. Ætlaðir ekki að borga það sem þú skuldaðir mér.
En sjáðu mig núna, sagði hann kampakátur. Þú segir að ég vinni
aldrei. Ég er að vinna núna. Þér er velkomið að gista hjá mér, en
þú skalt ekki ætlast til að þú getir vaðið inn á mitt svæði ókeypis.
Nú var Bond kominn í feitt. Hvaða launráð voru þau að brugga?
James Bond spenntist upp, búlduleitt andlit hans var orðið rautt af
æsingi. Hann sá fyrir sér forsíðufrétt: Bjargvætturinn kemur aftur í
veg fyrir stórfellt rán. Hendur hans titruðu við tilhugsunina. Hann
var ekki smeykur við að stöðva þetta glæpahyski. Hann heyrði
fótatak nálgast gluggann. Nú lá á að vera snöggur að hugsa og
koma sér í felur. Hver þremillinn, hugsaði hann þegar hann heyrði
glugganum skellt aftur. Nú gat hann ekki heyrt orð. Ekki þýddi að
deyja ráðalaus og það gerði James Bond að sjálfsögðu ekki.
Nú var kominn tími til að líta aðeins inn um gluggann. Þarna
sat spikfeit kerling með götótta svuntu og á móti henni tvítugur
piltur í blettóttum hlýrabol. Hann sá ekki betur en þau sætu við
eldhúsborð, birtan var ekki mikil því nokkur flöktandi kerti lýstu
upp þetta fátækrahreysi. Eftir dálítinn tíma vandist James Bond
birtunni. Augun skutust til og frá, nú var komið að því að nota
tækið sem hann var með í frakkavasanum til aðstoðar. Íbúarnir
voru uppteknir við að tala svo að hann mat aðstæður þannig að þau
myndu ekki taka eftir honum. Spenningurinn jókst, hann teygði sig
í jakkavasann og tók upp njósnatækið sitt. – Aha, tuldraði hann,
þetta er miklu betra.
Þetta var góð fjárfesting. Græjan var orðin svolítið rispuð enda
mikið notuð. Gamalt og gott stækkunargler.
Hann sá auðvitað óskýrar í gegnum stækkunarglerið. Fólkið
sat hvort á móti öðru og tjáði sig með miklu handapati og látum.
Kannski öskrum, nú heyrði hann ekki lengur í þeim. Hann varð að
sjá hvað var á milli þeirra á borðinu. Loksins stóð kerlingin upp
til að ná sér í kaffi og sígarettu. Hann sá ekki betur en að þar væri
bunki af peningum. Í þann mund var tekið harkalega í hönd hans
og hann dreginn í burt frá glugganum. –Hvern andskotann ertu að
gera? Nú var James Bond ekki harði naglinn sem hann hélt að hann
væri. Hann var lengi að herða upp hugann til að líta um öxl.
Hann komst í fréttirnar, útvarpið, sjónvarpið og forsíður
dagblaðnna. Undir myndinni af honum stóð: Gluggagægir gisti
fangageymslur lögreglunnar eina nótt. Eyddi kvöldi í að horfa á
saklaust fólk spila Matador.
**
*
* **
*
*
* *
**
* *
*
*** *
*
**
* ** *
*
*** *
*
**
* *
Bestu óskir um gleðileg jól
og farsæld á nýju ári.
Þökkum samskiptin á liðnu ári.
gLuggAgægIR
V
AuðuR A.
HAFSTEINSDÓTTIR