Frjáls verslun - 01.03.2013, Page 6
6 FRJÁLS VERSLUN 3. 2013
M
örgum finnst sem 2007-yfir-
bragð sé að færast yfir
atvinnu lífið. Að hluta til
er þetta rétt; að stærstum
hluta rangt. Það eru fréttir
af launum forstjóra, bank a-
manna, hlutabréfabólu og falskri eftirspurn í hluta -
fjárútboðum þar sem gerð eru hærri tilboð vegna
fyrirsjáanlegra skerðinga sem minna á 2007 – sem
og að bankarnir séu byrjaðir að lána stjórnendum og
fjárfestum aftur fyrir kaupum á hlutabréfum. Í sjálfu
sér er lítið hægt að segja við slíku – ef tryggingar
eru nægar og lántakinn traustur. Þorri manna spyr
sig hins vegar hvort forráðamenn bankanna sakni
bóluáranna og hvort stórfelld hlutabréfakaup for -
stjóranna séu ekki svolítið ögrandi. Eftir banka -
hrun ið varð „ríkisvæðing“ þar sem mörg af stærstu
fyrirtækjum landsins fóru í fangið á nýjum bönkum
og kröfuhöfum og um leið voru ráðnir nýir forstjórar
og lagt í fjárhagslega endurskipulagningu. En það
fennir fljótt í sporin. Það mætti halda að bankar og
önnur endurreist fyrirtæki ættu sér enga fortíð.
Margir urðu hugsi eftir að Björgólfur Thor Björg -
ólfsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann
léti ekki plata sig tvisvar í að fjárfesta í íslenskum
banka. „Fool me once, shame on you, fool me
twice, shame on me“ er haft eftir Björgólfi. Ekki veit
ég hvers vegna blaðið spurði Björgólf Thor hvort
hann ætlaði að kaupa íslenskan banka aftur. Ef til
vill verða fyrrverandi eigendur föllnu bankanna
spurðir að því sama – enda eftirspurn eftir þeim ef
marka má spurninguna. Og hver plataði Björgólf
Thor? Hvers vegna var hann ekki spurður að því?
Sennilega klóra 55 þúsund hluthafar í föllnu bönk -
unum sér í kollinum og spyrja hver hafi platað
hvern. Þeir fylgja Björgólfi Thor örugglega að málum
og láta ekki plata sig tvisvar.
Þrátt fyrir 2007-fréttir af falskri eftirspurn á hluta -
bréfamarkaði er tilveran önnur á flestum heim ilum
og hjá þorra fyrirtækja. Þegar maðurinn á götunni
var spurður fyrir kosningar um hvað þær snerust
svaraði hann að bragði: Að byggja upp öflugt
atvinnulíf til að sem flestir hafi vinnu og svo hægt
sé að standa undir velferðarkerfinu. Þetta var ekki
flókið svar en þetta var besta svarið.
Nýlega var ég spurður hvort ég vildi 2007 aftur.
Ég hváði og spurði hvað átt væri við með 2007 í
þessu tilfelli. Nú, þessi loforð um lækkun skatta
og niðurfellingu skulda heimila. Ég svaraði því til
að 2007 væri í huga fólks alþjóðlegu bóluárin 2004
til 2008 þegar bankarnir voru hreyfiaflið og tóku
lánasnúning á flestum fyrirtækjum og heimilum.
Þess vegna væri skuldavandinn enn að þvælast fyrir
endurreisninni bæði hér heima og erlendis.
Viljum við 2007 aftur? Já, auðvitað viljum að
lands framleiðslan nái fyrri stigum og fari upp fyrir
það sem hún var árið 2007, og gott betur, með
eldmóði, vinnu, auknum fjárfestingum og hag -
kvæmni. Hún er ennþá fimm prósentustigum lægri
en hún var 2007 og fólk svarar því í könnunum að
kreppan sé ekki búin. Það að ná upp framleiðslu
ársins 2007 er hins vegar ekki það sama og „vera
svo mikið 2007“ þegar eina breytan í formúlunni var
erlent lánsfé og fé var ausið í allar áttir.
Núna eru allt aðrar aðstæður. Illviðráðanlegur
halli á ríkissjóði, sáralítill hagvöxtur, snjóhengja,
ónógar fjárfestingar atvinnulífsins, mjög háir vextir,
krafa um launahækkanir þegar ekki er innistæða
fyrir þeim, verðbólga og of mikið atvinnuleysi.
Endurfjármögnun heimila og fyrirtækja er ekki
leyst þótt búið sé að afskrifa um eitt þúsund mill -
jarða. Fólksflótti er enn til Noregs. Bankakerfið er
of dýrt og stuðlar að krónískum háum vöxtum.
Flókið skattakerfi og háir skattar hamla hagvexti.
Verðtryggingin er núna jafnslæm fyrir lántakendur
og óðaverðbólgan var fyrir lánveitendur fyrir tíma
verðryggingarinnar.
B
ankahrunið skipti þjóðinni í tvennt; þá
sem eiga og þá sem skulda. Þá sem seldu
fyrirtæki og hoppuðu út úr bólunni á
réttum tíma og hina sem keyptu af þeim.
Um 30% framteljenda skulda meira en þeir eiga.
Stór hluti þeirra er barnafólk sem hugsanlega getur
staðið í skilum áfram þótt ekki sjái högg á vatni
og illmögulegt sé fyrir það að skipta yfir í stærra
húsnæði. Það spyr sig hvort það vilji vera áfram eins
og hamstur í hjóli í vinnu fyrir bankana á meðan
þeir sem voru með gengisbundin lán hafa fengið
afskriftir. Verðbólgan frá febrúar árið 2007 er orðin
53% og undrar engan þótt skuldug heimilin gefi
lítið fyrir speki um að verðbólgan sé meinið en ekki
verðtryggingin. Skuldir heimila eru núna um 1.900
milljarðar, þar af eru verðtryggð íbúðalán um 1.200
milljarðar.
Það kann að vera að yfirbragðið í heimi banka
og forstjóra stærstu fyrirtækjanna líkist 2007. En
raunveruleikinn er sá að ekki er öfundsvert fyrir
nýja ríkisstjórn að taka við, svo mikið verk þarf að
vinna. Þorri fólks og fyrirtækja hefur enn ekki náð
þeirri fjárhagsstöðu að geta látið plata sig tvisvar í
fjárfestingum.
Læt ekki plata mig tvisvar
Jón G. Hauksson
„Mörgum
finnst sem
2007-yfirbragð
sé að færast yfir
atvinnulífið.
Að hluta til er
þetta rétt; að
stærstum hluta
rangt.“
Leiðari