Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.04.2008, Blaðsíða 7

Neytendablaðið - 01.04.2008, Blaðsíða 7
En til þess að standa undir lífinu þurfa/vilja báðir foreldrar vinna. Ég kem þessu ekki heim og saman. Mörg börn virðast vera í gæslu fyrir og eftir skóla en það dugar ekki til. Til að brúa bilið þangað til foreldrarnir koma heim eru ráðnar barnapíur. Við þetta bætist að Madríd er stór borg. Það getur tekið klukkutíma að keyra í vinnuna. Mengun er vandamál og nú er svo komið að heilbrigðisyfirvöld hafa latt fólk til þess að stunda íþróttir utandyra í miðbæ Madrídar. Ekki furða að Spánverjar séu nánast hættir að eignast börn. Frjálst nesti alla daga Ég er nokkuð sáttur við hið hefðbundna nám sem fram fer í skólanum. Sæmilegur vinnufriður virðist ríkja og góður skriður virðist vera á á stærðfræðinni, móðurmálinu, enskunni og þessu klassíska. En um þessar mundir er einkum tvennt sem ríður á að kenna börnum; að borða þokkalega og hreyfa sig. Það besta og hollasta á Íslandi er fiskurinn. Það besta og hollasta á Spáni eru ávextirnir. Fiskneysla er á undanhaldi á Íslandi og það sama á við um ávextina á Spáni. Samkvæmt frétt í El País frá 10. janúar hafa 15% spænskra skólabarna á aldrinum 8-11 ára aldrei borðað appelsínu. Á Íslandi er ekki allt leyfilegt í nestisefnum og svei mér þá ef kennarar hafa ekki auga með því. Hér er því ekki að skipta. Vinsælt skólanesti hér virðist vera sæt drykkjarjógurt í handhægum umbúðum og margir taka einfaldlega með sér sælgæti. Hér þykir flott að halda bekkjarafmæli á McDonald‘s eða Burger King. Leikfimistímar eru ekki hressilegri en svo að ekki er boðið upp á sturtu í kjölfar þeirra. Fæstir skólar bjóða upp á sundtíma. Ágætis framboð er á íþróttum eftir skóla en ansi er dagurinn orðinn langur hjá fjögurra ára gaur ef fótboltanum lýkur klukkan hálf sex. Hvað er hægt að gera eftir skóla? Skóladeginum lýkur að jafnaði klukkan hálf fimm og þá eru að jafnaði eftir þrír tímar af dagsbirtu. En eins og áður sagði er lítið um græn svæði og engir krakkar sjást úti á stétt við blokkina. Ég rakst á malbikaðan fótboltavöll um daginn við hliðina á McDonald‘s, en við erum 10 mínútur að keyra þangað. Þegar útilaugunum var lokað síðsumars hóf ég leit og gladdist mjög er ég fann nýja og fullkomna innilaug. Þetta var þá eitthvað sem hægt væri að gera með krökkunum eftir skóla. Síðan komst ég að því að þessi laug væri eiginlega ekki fyrir krakka; barnalaugin var bara fyrir ungbarnasund. Allt sem lýtur að börnum hefur verið greypt í kerfi; leikur, nám og útivera. Nám fer fram í skólanum, íþróttir fara fram í skólum eða eru á vegum íþróttafélaga og leikir og útivist fara fram í sumarbúðum. Til að bæta upp fyrir leiðindi vikunnar og langan vinnudag er tekið vel á því um helgar; farið út að borða, í skemmtigarð, dýragarð o.s.frv. Í einni verslunarmiðstöðinni er hægt að fara á skíði. Ég sé liðna tíð ekki í hillingum. Ég hef engan áhuga á því að vita af krökkunum í stillönsum, hnífaparís og túttubyssustríði. En nú erum við lent á hinum öfgapólnum. Nú er það stanslaus innivera; tölvuleikir og sjónvarp. Ég fullyrði að hér um slóðir eru börn sem hreyfa sig aldrei nema í leikfimi í skólanum. Einmitt hér er þetta svo grátlegt. Veðráttan árið um kring er með þeim hætti að minnsta mál væri að hjóla eða ganga með krakkana í skólann en skipulagið gerir ekki ráð fyrir því. Og víða eru húsaportin svo fín, með laglegri stétt og vel snyrtum beðum, að trampólín færu alveg með heildarmyndina. Gott fólk á villigötum Ég er enginn Kristinn R. í málefnum Spánar. En mér sýnist Spánverjar vera prýðisfólk sem hugsar vel um börnin sín. Fjölskyldan stendur þétt saman; börn fylgja foreldrum sínum út að borða og á barinn, enda þykir ekki fínt að vera rallandi fullur hér. Það er sérstaklega ánægjulegt að fara með börn á veitingastaði hér um slóðir; þau eru meira en velkomin. Og börnin hér eru upp til hópa kurteis, sjálfsörugg og allt að því skemmtileg. Skólinn heldur þeim vel við efnið; það þarf að læra töluvert mikið heima. Spánverjar (kannski réttara að tala um Madrídbúa hér) og Íslendingar eru líkir að mörgu leyti; þjóðir sem bjuggu lengi við hálfgerða einangrun (einræði á Spáni til 1975), síðan opnuðust flóðgáttirnar og fylleríið hófst; og þá vildu allir eignast hluti og skemmta sér, hafa börnin í íþróttum og tónlistarskóla og leyfa þeim að læra tungumál og og og... og allir keyrðir út um allt upp að dyrum. Afleiðingarnar eru öllum ljósar. Spánn 1- Ísland 1 Síðast þegar ég vissi léku íslensk börn sér úti í öllum veðrum fram á kvöld og maður reyndi allavega stundum að ganga með þeim í skólann. Vonandi er ég ekki að ljúga að kunningjum mínum þegar ég segi þeim frá því skásta sem Ísland hefur upp á að bjóða; frelsi til að vera krakki; að geta skrölt úti, farið í sund og hjólað um bæinn. Og öryggið er líklega þau lífsgæði sem hvað mögnuðust eru á Íslandi. Eitt-núll fyrir Ísland; skalli frá Emil Hallfreðssyni sem svaf úti í vagni á veturna, lék sér úti í fótbolta í snjónum, borðaði fisk og örugglega appelsínur. Við virðumst ætla að hafa betur en undir lok leiks jafnar Andrés Iniesta metin. Honum var skutlað daglega á fótboltaæfingu þar sem hann bar af, síðan beint heim að læra. Andrés lærði ekki að hjóla fyrr en 8 ára og foreldrum hans brá mjög þegar hann kom heim með sár á hnénu 12 ára. Unnur leikur sér nærri heimili sínu. Veðrið er gott en spænsku börnin sjást hvergi. Emil sýndi góð tilþrif á móti Spáni. 7 NEYTENDABLA‹I‹ 1. TBL. 2008

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.