Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 28

Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 28
28 Litli-Bergþór búskap og rekur mig minni til þess, er ég, átta ára gamall patti, hjálpaði honum til við að reka fjárstofn hans frá Kjarnholtum, að það hafi verið milli 60 og 70 fjár bæði fullorðið og lambfé, sem honum hafði áskotnast, ýmist keypt eða eignast sem kaupgjald í sinni kaupamennsku. Þá man ég líka vel eftir því er Haukur fékk mig eitthvað til hjálpar við að innrétta sinn fyrsta íverustað í hesthúsinu á Bergstöðum. Þar voru hvorki flatskjáir, pluss eða annað nútíma prjál. Árið 1967 selur svo Sigurfinnur Bergstaðina til Hestamanna úr Reykjavík. Í samningum við þá heldur Haukur áfram ábúðarrétti sínum og gegnir til viðbótar eftirlits og þjónustuskyldum við þá nýju eigendur og er þar búsettur fram til ársins 1990 er hann flytur sig fram í Reykholt. Er hann bjó á Bergstöðum tók hann að sér ýmis verk hér í sveit og þá eins og fyrr verður margs ógetið í þessari samantekt. Þó skal þess minnst að einn vetur brá Haraldur í Einiholti sér á vetrarvertíð og sá Haukur um vetrargegningar þar. Annan vetur sá hann um fjósið á Vatnsleysu hjá Sigga og Jónu er Siggi sótti sér lækninga vegna bakskurðar. Margar vertíðir sótti Haukur sjóinn samhliða veru sinni hér í Tungunum sem óðs manns æði væri að tilgreina hér. Mér er þó einkum tvennt minnisstætt tengt sjómennskunni. Annars vegar var það fiskur og þ.h. sjávarnýmeti er barst af og til, í strigapoka, á brúsapallinn í Kjarnholtum og hinsvegar allar sögustundirnar sem allir sátu hljóðir og dolfallnir undir að vori, er Haukur kom af vertíðinni. Þær voru marg- ar og auðvitað allar sannar og skemmtilegar. Svo kom hann með fullt af nýyrðum sem aldrei höfðu heyrst áður, man ég til dæmis eftir orðum eins og „bölvaður soðlókur“ og „spraðurbassi“, þau voru gasalega flott og heilmikið notuð. Af samtölum mínum við Hauk hef ég fundið að hann ber þakklæti í huga, til alls þess fólks og bæja er hann dvaldi á hér í sveit. Það var allsstaðar gott að vera. Hann veit líka og langar að koma á framfæri að hann geti ekki hallað á neinn með því að þakka Vatnsleysuhjónunum Sigga og Jónu sérstaklega, ásamt þeirra börnum öllum, þar sem heimilisfólkið allt, jafnt ungir sem aldnir, hafi sýnt honum einstaka alúð öll þau ár frá því hann átti þar vetursetu. Ekki vill hann missa af því að vera viðstaddur ef verið er að ragast í fé eða hrossum í Kjarnholtum eða á Vatnsleysu. Hefur mér þótt miklum undrum sæta, hversu glöggur hann er á skepnur og þekkir vel og man allt um allar ættir, nöfn og tölur á þessu öllu saman og þótt hann sé orðin hálf blindur á sjón, þá hefur hann eitthvert undra skilningarvit að þekkja skepnur úr órafjarlægð. Hef oft hugsað hversu gott það væri þótt maður hefði ekki nema þriðjung af höfðinu sem hann Haukur hefur 87 ára gamall. Af áðurnefndri upptalningu kemur fram að lengst af var Haukur með heimilisfesti í Kjarnholtum. Það veit ég að margir deila með mér og voru margra forréttindi að vera börn og alast upp með Hauki. Þess nutu föðursystkini mín og þess naut ég og mín systkini. Þrátt fyrir smá stríðni og einn og einn hrekk, þá var hann manni alltaf góður. Alltaf gat ég treyst því að aktygin héldu og vel væri gyrt á Ægi gamla, þegar Haukur lagði á fyrir mig. Hann passaði líka vel uppá að pattinn fengi að fylgja með í útreiðatúrinn og leit vel eftir að allt væri í lagi hjá snáða. Þótt árin hafi liðið og pattinn, ég, hafi bæði gránað og þyngst, hefur trygglyndi Hauks í engu breyzt. Það er óvenjulegur dagur ef ekki kemur að minnsta kosti eitt símtal frá Hauki, þar sem hann fylgist með að allt sé í lagi með skepnur og menn. Flytur fréttir úr sveitinni og gefur t.d. föðurleg ráð um fengitíma, eins og það að gæta nú vel að því að hleypa ekki hrútnum á dætur sínar eða mæður. Haukur er einn af fjölskyldunni í Kjarnholtum og jafnframt höfuð hennar. Þar komum við ekki saman, hvort sem er í gleði eða sorg, öðru vísi en svo að Haukur sé fyrst til kallaður. Haukur! Hafðu þökk fyrir og hjartans hamingju- óskir með þessi skemmtilegu tímamót. Einar Gíslason Ungmennafélag Biskupstungna sendir lesendum sínum bestu óskir um gott og gjöfult sumar

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.