Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 34

Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 34
34 Litli-Bergþór Var umsamið kaupverð upphaflega 1.700 krónur en einhverra hluta vegna breyttist það í 1.500 kr. og fyrir söluna í lok júlí lét Helgi fara fram skoðun á bílnum og greiddi vátryggingu hans. Helgi kveðst hafa vitað að þeir, sem áttu að taka við bílnum voru óvanir akstri og kvaðst því ekki láta bílinn af hendi við þá, nema nýir hemlar yrðu látnir í bílinn. Lét Helgi svo sjálfur hemlaborðana í bílinn, en maður að nafni Hafsteinn, á verkstæði Jóh. Ólafsson & Co. vann að þessu með Helga og stillti hemlana. Helgi telur, að bíllinn hafi verið í fyllsta standi er afhending fór fram, að öðru leyti en því, að handhemlar voru slæmir, héldu illa. Benti Helgi nýju eigendunum á þetta og átti að lagfæra hemlana eftir austurförina. Helgi segir að Sigurbjörn Á. Gíslason hafi óskað eftir að Arnold Pedersen fengi að aka bílnum, til þess að reyna hæfni hans. Lét Helgi þá A. Pedersen aka bílnum suður að flugskýli við Skerjafjörð. Hafði Pedersen ekið vel á beinum vegi, en verið stirður að skifta gangvélinni. Kveðst Helgi hafa orðað þetta við nýju eigendurna og getið þess, að Pedersen þyrfti meiri æfingu í akstri. Arnold hafði þegar þetta gerðist haft ökuskírteini í ellefu og hálft ár og sagðist hafa ekið við og við. Auk þess prófaði hann bílinn kvöldið fyrir ferðina og sagði þá bifreiðina hafa verið í allgóðu lagi og hemla hennar í sæmilegu standi. Tók Sigurbjörn líka fram að hann æki ávallt mjög gætilega og ekki ætti að ásaka hann á neinn máta. Arnold tók eftir því á leiðinni að Geysi að hemlar bifreiðarinnar voru mjög slakir. Einungis voru hemlar á afturhjólum bifreiðarinnar og reyndi hann að herða þá eins og hann gat með skrúflykli um laugardagsmorguninn á Geysi en ekki tók hann eftir því, hvort hemlaborðarnir væru nýir eða gamlir. Arnold athugaði hemlana ekki sérstaklega eftir viðgerðina, en er hann dró úr ferðinni við lækjarsprænu, á leiðinni niður að Tungufljóti, fann hann að vinstri hemillinn tók meira í. Fór hann yfir tvo læki á leiðinni niður að Tungufljóti og munu hemlarnir hafa blotnað. Viðurkenndi hann að hann hefði ekki athugað þetta sérstaklega, en hann kvaðst hafa ekið alla leiðina frekar hægt, á um það bil 25—30 km hraða. Síðar sagði hann í samtali við blaðamann Alþýðublaðsins að hann hefði ekið með ca. 9 km hraða, eftir að hann ók yfir lækina. Í lögregluskýrslum fengust líka frekari upplýsingar um ástand bifreiðarinnar og aðdraganda slyssins. Telur bílstjórinn, að stýrisumbúnaður og bensíngjöf bifreiðarinnar hafi verið i lagi. Hann kvaðst hafa lagt á stýrið eins og auðið var, er hann ók yfir gatnamótin niður að fljótinu, og stýrið gekk einnig tafarlaust til baka. Bílstjórinn er þess fullviss, að hann hafi ekki stigið á kúplinguna um leið og hann hemlaði á vegamótunnum, og hann kveðst hafa tekið bensíngjöfina alveg af, meira að segja ýtt handbensíntakkanum inn í borðið, en drap ekki á vélinni. Chevrolet bifreiðin var dregin upp mánudaginn 22. ágúst eftir að lið úr Reykjavík undir stjórn Ingólfs Þorsteinssonar lögregluþjóns kom á staðinn með kafara og meiri kafaraútbúnað til viðbótar þeim er var þegar á staðnum. Vegavinnuflokkurinn veitti sömuleiðis aðstoð og reyndist þetta erfitt verk sem tók sex klukkutíma en þegar því var lokið var bíllinn samstundis fluttur til Reykjavíkur. Var aðstæðum líst þannig: Bíllinn lá skorðaður í gjótu niðri í fljótinu og hallaðist mikið undan straum, þannig að vinstri hliðin sneri nokkuð upp. Fremri rúðan á vinstri hlið var öll mölbrotin, en þeim megin var stýrisútbúnaður bílsins. Er af þessu sýnilegt, að bílstjórinn Arnold Ped- ersen hefir brotið rúðuna og farið þar út úr bílnum. Sigurbjörn Á. Gíslason hefir einnig bjargast þarna út, því að hægri framhurðin var lokuð og rúðan þar heil. Enda lá bíllinn þannig, að ekki var unnt að komast út um fremri dyrnar, hægra megin. Dómstólarnir létu nú fljótlega til sín taka. Arnold Pedersen var dreginn fyrir dóm og tveim og hálfum mánuði síðar féll dómur í aukarétti Reykjavíkur í máli réttvísinnar og valdstjórnarinnar gegn Arnoldi Pedersen. Sigrún Kirstín Sigurbjörnsdóttir (1920-1938). Mynd úr dagblaðinu Fálkanum. Guðrún Valgerður Sigurbjörnsdóttir (1915-1938). Mynd úr dagblaðinu Fálkanum.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.