Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 36

Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 36
36 Litli-Bergþór vanfær kona svo maður getur rétt ímyndað sér áfallið fyrir samfélagið á þessum árum þegar bílar voru enn að ryðja sér til rúms á þjóðvegum landsins. Forsíður allra dagblaðanna voru uppfullar af fréttum af þessu slysi og jarðarförin vakti sömuleiðis mikla athygli. Mæðgurnar voru jarðaðar laugardaginn 27. ágúst ásamt Ingibjörgu Kristjánsdóttur, systur Einars eiginmanns Guðrúnar Valgerðar, frá Dómkirkjunni. Húskveðja hófst í Ási, á heimili þeirra hjóna, og fylltist allt af fólki þar í kring og var komið fyrir hátölurum svo allir gætu hlýtt á. Þaðan voru kisturnar bornar í Dómkirkjuna og er komið var þangað um hálf fjögur þá hafði geysimikill mannfjöldi safnast þar svo að mannþröngin náði á milli kirkjunnar og Alþingis og langt vestur í Kirkjustræti auk þess sem staðið var vestur eftir öllum götum á leið líkfylgdarinnar að kirkjunni. Eftir að athöfninni lauk var öllum kirkjuklukkum bæjarins hringt og þar á meðal þeim í kaþólsku kirkjunni. Mörg þúsund manns fylgdu líkfylgdinni að Hólavallakirkjugarði þar sem kisturnar voru lagðar allar í eina gröf og var þetta ein fjölmennasta útför sem verið hafði. Það er til marks um áhrif þessa harmleiks á þjóðina hve margir fyrirmenn báru kisturnar fjórar þennan dag: Inn í kirkjuna báru báru alþingismenn úr þrem flokkum kistu Guðrúnar, kistu Sigrúnar Kirstínar stjórn og forstöðukonur Elliheimilisins, kistu Guðrúnar Valgerðar vinir Einars Kristjánssonar og kistu Ingibjargar Kristjánsdóttur báru templarar. Prestar hempuklæddir báru kistu frú Guðrúnar úr kirkju. En miðstjórn og þingmenn Sjálfstæðisflokksins báru kistuna frá kirkju dyrum í líkvagninn, er stóð gegnt dyrum Alþingishússins. Kistu Sigrúnar báru konur úr Húsmæðrafélagi Reykjavíkur, en kistu Guðrúnar Valgerðar stjórn K. F. U. M. og kistu Ingibjargar báru menn úr félagi guðspekinga. Inn í garðinn báru kistu Guðrúnar: bæjarráðsmenn og framfærslufulltrúar, kistu Sigrúnar félagar úr knattspyrnufélaginu Víkingur, kistu Guðrúnar Valgerðar sóknarnefndarmenn og kistu Ingibjargar stjórnarmeðlimir ýmsra íþróttafélaga og Í.S.Í. Landsmönnum var eftirminnilegur trúarvitnisburður Sigurbjörns næstu daga og vikur eftir þessa hrikalegu atburði, bæði vegna ræðu er hann hélt í kirkjugarðinum við jarðarförina og predikun hans í útvarpi skömmu síðar. Yfirskrift orða hans var: „Drottinn var í djúpinu.“ Vísar hann þar til spurningar sem hann var spurður um hvar Drottinn hefði verið. Hluti ræðu hans við útförina er svohljóðandi: Oft sagði hún, að það væri hugboð sitt, að andlát hennar myndi bera þannig að, að líkkistan hennar gerði meira gagn, til þess að snúa hjörtum manna til Jesú, en hún nokkurn tíma sjálf hefði getað megnað í lifanda lífi. Ég vildi óska, og ég ber hér fram þá ósk fyrir hennar hönd, að þessi spá hennar megi rætast. Ég var með þeim niðri í Tungufljóti. Ég hélt, að ég myndi líka deyja. Ég hafði ráðrúm til þess að biðja fyrir mér þarna niðri í fljótinu. Eins er ég viss um, að þær hafa haft ráðrúm til þess. Ég fól Guði sál mína, og gerði það með fullkominni ró. En svo var mér bjargað. Og ógnir mínar byrjuðu ekki fyrr en ég stóð á bakkanum og vissi af þeim niðri í djúpinu. Það var ógurleg stund. Eitt sinn ekki fyrir löngu dreymdi mig þann draum, að ég hefði misst konuna mína, misst Guðrúnu Lárusdóttur frá mér. Ég vaknaði við það grátandi. Þá sagði ég við hana. Það held ég að ég missi vitið, ef ég missi þig, Guðrún mín. Þá sagði hún. Nei, vertu öruggur, það kemur ekki fyrir. Þvert á móti. Þú færð styrk til þess að vitna um boðskap Jesú Krists við gröf mína. Og ég hefi, Guði sé lof, fengið styrk til þess að flytja ykkur öllum, bæði þeim sem standa mér fjær og þeim sem standa mér nær, skilaboð hennar um hugboð hennar, að andlát hennar gerði boðun fagnaðarerindisins meira gagn, en hún sjálf, Guðrún Lárusdóttir, gat gert í lifanda lífi. Guð blessi ykkur öll. En þó Sigurbjörn hafi leitað á náðir trúarinnar var sorg hans djúp og sár líkt og Svanhildur Steinsdóttir gat borið vitni um. Svanhildur dvaldist á heimilinu á meðan hún stundaði nám við Kennaraskólann í Reykjavík. „Það var ákaflega mikil sorg í húsinu. Ég fékk herbergið hennar Sigrúnar sem dó. Bækurnar hennar voru á skrifborðinu og allt í sömu skorðum. Þegar slysið varð var Guðrún komin að því að fæða. Einar maður hennar deildi svefnherbergi þeirra hjóna með tengdaföður sínum. Þeir áttu oft óskaplega erfitt, heyrði ég“, sagði Svanhildur. Lára, dóttir þeirra Sigurbjörns og Guðrúnar, var þá skólastýra á Hallormstað, kom með manni sínum Ásgeiri dýralækni Einarssyni til að vera hjá föður sínum honum til stuðnings. Sigurbjörn Á. Gíslason er hann flutti ræðu sína við jarðarförina. Mynd úr Morgunblaðinu.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.