Litli Bergþór - 01.06.2013, Page 43

Litli Bergþór - 01.06.2013, Page 43
Litli-Bergþór 43 endurræktuð tún heimavið, sem við nýtum í vorbeitina. Endurræktuðum þau fjárleysisárin. Það er ótrúlega mikið fóður tekið upp með vorbeitinni og skiptir öllu fyrir mjólkurframleiðslu ánna. Faðir minn vildi alltaf koma fénu sem fyrst út á græn grös, og þótti vera harðari en aðrir að hafa fé úti þó það gerði vorhret og við höfum haldið þeim sið. Reynum að hafa lambærnar eins lítið inni og hægt er. Í lok júní eða byrjun júlí er féð svo flutt á fjall, við flytjum það inn í Svartárbuga. Á fjalli er það í rúma tvo mánuði, þar til smalað er í byrjun september. Gefið þið ánum fóðurbæti? Við höfum gefið einhvern fóðurbæti á fengitíma og þegar nálgast burð, en þá er heygjöfin minnkuð til að auðvelda ánum burðinn. Gemlingar fá líka mél þar sem við hleypum til þeirra. Við flokkum féð eftir burðartíma og látum það bera heima við. Flytjum það á milli húsa. Það auðveldar eftirlit á sauðburði. En það kostar auðvitað að við verðum að leiða hrútinn og skrá beiðslin. Ég nota mikið sæðingarnar, sem á þessu svæði eru í boði 17.- 20. desember og leiði svo hrútinn í beinu framhaldi, er ekki með hlé á eftir. Þá er það kúabúið. Hvernig fjós eruð þið með? Við erum með lausagöngufjós og mjaltabás. Tókum þann kost að kaupa frekar fullkominn mjaltabás en róbóta. Það er heppilegra fyrir eðlislatan mann eins og mig, þá neyðist ég til að fara í fjósið allavega tvisvar á dag! Kúnum er gefið á fóðurgang, sem um helmingur kúnna kemst að í einu, gefum rúllur í heilu lagi og ýtum heyinu að kúnum með liðléttingi. Engin sjálfvirkni. Við erum með nokkrar gerðir af rúllum og gefum á fjögurra daga fresti. Þetta gjafalag er kannski ekki leið til hámarksafurða, maður merkir að mjólkin minnkar síðasta daginn, þegar þær eru búnar að vinsa það besta úr. Restinni er svo ýtt í geldneytin. Við sláum heldur ekki mjög snemma hér í Kotinu og fáum því ekki eins kröftug og góð hey eins og þeir bændur sem slá fyrr. Ég hef sagt til gamans að mér hefur sýnst það fara nokkuð eftir því hve háir menn eru hve snemma þeir slá, menn miða slægjuna við legg- inn á sér. En mér finnst betra ef heyið er sem jafnast. Ef gefið er lítið af kröftugu heyi með lélegra heyi, éta kýrnar fyrst það góða og hafa síður lyst á því lélega. Ég gef korn til helminga á móti kúablöndu 20, og kýrnar éta ágætlega og það er ekki mikið um fóðrunarsjúkdóma eins og bráðadoða eða súrdoða. Ég var með korn í um tíu ha á síðasta ári og reikna með að auka það. Það kom þó ekki mjög vel út vegna þurrkanna, sérstaklega í melunum sem eru of þurrir. Móajarðvegur kemur betur út og þar er líka auðvelt að stýra áburðargjöfinni. En það er erfiðara í mýrum, þar sem meiri köfnunarefnislosun er. Það má ekki vera of mikið af köfnunarefni, því þá þroskast kornið of seint. Við Jón á Drumboddsstöðum eigum saman þreskivél og vinnum kornið saman. Jón þreskir og ég sýri. Ég hef ræktað einært rýgresi til beitar fyrir kýrnar. Sái snemma og skipti stykkinu í fjögur til fimm hólf og rótera kúnum hringinn. Þegar síðasta hólfið er beitt er komin aftur beit á fyrsta hólfið. Ég nota sama stykkið í nokkur ár, plægi upp árlega og ber áburð á. Fyrst á vorin fara kýrnar út á tún, en rýgresið brúar bilið milli túns og káls. Það þolir vel beit, sprettur aftur og aftur. Annars eru kýrnar á heygjöf allt sumarið, eru inni á nóttunni og nýta þá kjarnfóður í kjarnfóðurbásnum. Gýgjarhólskotið var ekki gróðursælt og talið örreytiskot hér áður, túnin ræktuð á blásnum melum. Þau eru því viðkvæm fyrir þurrkum. En þetta hefur þó sloppið vel í þessum þurrkasumrum. Í fyrra kom alltaf skúr í þann mund sem maður var að detta í þunglyndi yfir þurrkinum. Svo hef ég stundum fengið að slá tún hjá nágrönnunum ef mikið lá við. Og þá kem ég enn að því hvað góðir grannar eru mikils virði fyrir góðan búskap. Þess má geta að auk bústarfanna sinnir Eiríkur bókhaldsþjónustu og framtalsgerð fyrir bændur í nágrenninu, svo það er í mörg horn að líta í búskapnum í Gýgjarhólskoti. Blaðamaður Litla-Bergþórs þakkar Eiríki kærlega fyrir skemmtilegt og fróðlegt spjall og óskar honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á komandi búskaparárum. Geirþrúður Sighvatsdóttir. Gýgjarhólskot.

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.