Ægir

Árgangur

Ægir - 01.02.2001, Blaðsíða 50

Ægir - 01.02.2001, Blaðsíða 50
50 Hrognkelsið er stuttur og digur beinfiskur með lítinn haus og kjaft með smáar og hvassar tennur. Bolur er stuttur og kviður hálfflatur. Bakuggar eru tveir og sá fremri myndar háan kamb en aftari bakuggi og raufaruggi eru á móti hvor öðrum, svipaðir að stærð. Eyruggar eru allstórir, stuttir og breiðir en kviðuggar mynda sogskál. Sporðurinn er fremur stór. Roðið, sem kallað er kvelja, er þykkt með smáum beinkörtum. Stærri og oddhvassar beinkörtur liggja á því í þremur röðum. Hrygnan er kölluð grásleppa en hængurinn rauðmagi. Grá- sleppan getur orðið allt að 60 cm á lengd en algengust er hún um 35-54 cm. Rauðmaginn er hins vegar minni eða um 28-40 cm að meðalstærð. Grásleppan er dökkgrá að lit en ljósari á hlið- um og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn er hins vegar dökkgrár að ofan og grágrænn að neðan. Um hrygningartímann verður hann rauðleitur að neðan. Heimkynni hrognkelsisins eru í Norður-Atlantshafi. Það lifir í Barentshafi, austur frá Karahafi, í Hvítahafi, meðfram strönd- um Noregs og inn í Eystrasalt. Það er í Norðursjó, við Bret- landseyjar, suður til Frakklands og inn í Biskajaflóa. Það er við Færeyjar og ísland og einnig við Austur-Grænland. Einnig er það að finna allt frá Vestur-Grænlandi og Hudsonflóa í Kanada suður til Bandaríkjanna. Við Ísland er hrognkelsi allt í kringum landið, meira þó fyrir norðan landið. Hrognkelsið heldur sig í úthafi hluta úr árinu en kemur upp á grunnmið til hrygningar síðari hluta vetrar og fyrri hluta vors. Hrygning hefst oft í febrúar eða mars á grýttum og þaragrónum botni, á 0-40 metra dýpi. Fæða hrognkelsa er aðallega ljósáta, uppsjávarmarflær, smáhveljur og fleira. Seiðin éta þó mest ýmis smádýr í þaranum. Hrygning hefst í febrúar eða mars og fer fram á grýttum þara- botni á 0-40 metra dýpi. Eggin eru stór, um 2,5 mm í þvermál og liggja á botninum. Hængurinn sér svo um að gæta þeirra, sjá þeim fyrir súrefni og reka burtu óvini á meðan þau klekjast út. Lirfurnar eru um 5 mm við klak og mánaðargömul eru þau orð- in 1 cm á lengd. Hrognkelsið hefur verið veitt hér við land til margra ára og hefur rauðmaginn verið borðaður ferskur en grásleppan oftast söltuð eða hert. Grásleppuhrognin eru eftirsóttust og eru þau verkuð í kavíar og flutt út sem munaðarvara. Cyclopterus lumbus Linnaeus Hrognkelsi F R Ó Ð L E I K U R O G S K E M M T U N K R O S S G Á T A N

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.