Ský - 01.06.2007, Blaðsíða 33

Ský - 01.06.2007, Blaðsíða 33
 sk‡ 33 magnus Öen Carlsen fæddist árið 1990 í Tönsberg í Noregi. Faðir hans kenndi honum mannganginn en hann tefldi á sínu fyrsta stórmóti átta ára gamall. Þar kom norski stórmeistarinn Simen Agdestein auga á hæfileika Magnusar og tók hann að sér sem nemanda. Í framhaldinu fékk Carlsen ársfrí frá skóla og við tóku skákæfingar hjá Agdestein sem síðar áttu eftir að skila Magnusi stórmeistaratitli á methraða. Á Corus 2004 skákmótinu í Wijk aan Zee, birtist Magnus Carlsen eins og þruma úr heiðskíru lofti og lagði hvern stórmeistann af öðrum. Skákheimurinn fylgdist undrandi með þessum ljóshærða þrettán ára pilti brillera á mótinu og tryggja sér smám saman fyrsta áfanga að stórmeistaratitli. Í lok móts stóðu skákskýrendur á öndinni og voru farnir að tala um Magnus Carlsen sem “Moz­art skáklistarinnar” og hefur sú lýsing loðað við hann síðan. Aðeins nokkrum vikum seinna tryggði Magnus sér svo annan áfanga að stórmeistaratitli á skákmóti í Moskvu. Mánuði síðar kom hann hingað heim til að tefla á Reykjavik Rapid skákmótinu þar sem fyrrverandi heimsmeistarinn, Anatoly Karpov, laut í lægra haldi fyrir honum. Á sama móti var Carlsen á góðri leið með að leggja sjálfan Kasparov þegar heimsmeistarinn sá leið til að bjarga naumlega í jafntefli og endaði reyndar á að vinna mótið. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu var hinn 13 ára Carlsen ekki sáttur við taflmennsku sína gegn Kasparov og sagði í viðtali skömmu síðar: “Ég hefði átt að gera betur. Ég tefldi eins og barn.” En tæpum mánuði eftir heimsóknina till Íslands náði Magnus Carlsen þriðja og síðasta áfangannum að stórmeistaratitli í Dubai. Hann var aðeins 13 ára og 4 mánaða og yngsti stórmeistari heims á þeim tíma. (Til samanburðar má benda á að Bobby Fischer var 15 ára og 6 mánaða þegar hann varð stórmeistari og Kasparov var orðinn 17 ára.) Aldursmet Magnusar var svo reyndar slegið skömmu síðar af Armeníumanninum Sergey Karjakin sem var 12 ára og 7 mánaða þegar hann tryggði sér stórmeistaratitil. Vandaður drengur Magnus Carlsen þykir mjög skapandi skákmaður og getur teflt djarft. Hann nýtur sín vel í opnum stöðum, er óvenju fljótur að reikna sig í gegnum fléttur og þykir hafa einstakt minni. Það gerir svo að verkum að hann ræður yfir óvenju mörgum byrjunum og afbrigðum. Magnus hefur fyrir þónokkru síðan tekið fram úr lærimeistaranum Simen Agdestein en hann þótti einnig óvenju bráðþroska skákmaður á sínum tíma og var spáð miklum frama þrátt fyrir að það hafi ekki alveg gengið eftir. Sjálfur hefur Agdestein sagt að Magnus sé mikið mun sterkari en hann var sjálfur á sama aldri. Hinsvegar eru menn ekki á einu máli um framtíð Carlsen. Til að mynda hefur Kasparov sagt að Carlsen tefli á of mörgum skákmótum en stúderi ekki nóg. Því eigi hann á hættu að helstu keppinautar hans um heimsmeistaratitilinn, Úkraínumaðurinn Sergey Karjakin (f. 1990) og Az­erbaijanmaðurinn Teimour Radjabov (f. 1987), sigli fram úr honum eftir fáein ár. En þeir Karjakin og Radjabov munu fylgja mun strangara æfingaplani en Magnus Carlsen. Sagan segir að Kasparov hafi reyndar búið til sérstakt æfingaplan fyrir Carlsen en hann hafi hafnað því og kosið að halda sig áfram við sitt plan. Fyrir utan að tefla spilar Magnus Carlsen fótbolta og rennir sér á skíðum eins og margir góðir Norðmenn. Helgi Ó­lafsson, stórmeistari hefur fylgst með Magnusi Carlsen í gegnum tíðina og skrifað um skákir hans í Morg­unblað­ið­. Hvaða líkur telur Helgi á því að Carlsen hampi heimsmeistaratitli í framtíðinni? “Hann er mikill talent og mér virðist hann frekar að treysta stöðu sína sem skákmaður. Hann getur sýnt geysilega hörku gegn stigahæstu mönnum og einn hans helsti kostur er hvað hann hefur góða einbeitni. Auk þess er hann vandaður drengur og nýtur mikils stuðnings frá sínu fólki en þetta tvennt skiptir miklu máli. Tíminn vinnur líka með Carlsen. Skákmenn eins og Kramnik, Anand og Topalov eru farnir að halla í fertugt. Ég gef Magnusi Carlsen því alla möguleika á því að ná alla leið. Engu að síður getur þetta verið fljótt að breytast. Í kringum 1953 vissi enginn hver Tal var en Spassky var óskabarnið. Stuttu síðar var Tal á allra vörum. En svo breyttist það enn aftur og Spassky varð heimsmeistari,” segir Helgi Ó­lafsson. Á þeim þremur árum sem liðin eru frá því að Carlsen tryggði sér stórmeistaratitil hefur gustað af honum á skákmótum víðsvegar um heiminn. Árið 2004 varð hann yngsti skákmaður sögunnar til að tefla um rétt til að skora FIDE heimsmeistarann á hólm. En laut á endanum í lægra haldi fyrir Armenanum Levon Aronian sem er átta árum eldri og í fimmta sæti á styrkleikalista FIDE. Árið 2006 varð Magnus Carlsen Noregsmeistari í skák eftir að hafa sigrað lærimeistarann Agdestein í úrslitaeiginvígi. Magnus heimsótti Ísland öðru sinni á síðasta ári og tefldi þá á Glitnismótinu sem haldið var til minningar um Harald Blöndal, hæstaréttarlögmann. Þar sló hann sjálfan heimsmeistarann í hraðskák, Vishy Anand, úr keppni og sigraði svo Hannes Hlífar Stefánsson í úrslitaaeinvígi mótsins. Í síðasta mánuði telfdi hann svo aftur við Levon Aronian um rétt til að skora heimsmeistarann á hólm. Aftur hafði Aronian sigur en ekki fyrr en í bráðabana og eftir mun harðari baráttu en í einvígi þeirra árið 2004. Ný kynslóð Hinn sextán ára gamli Magnus Carlsen tilheyrir nýrri kynslóð geysisterkra skákmanna sem berst mjög hart á leið sinni að heimsmeistaratitlinum. Áður hafa verið nefndir þeir Radjabov og Sergey Karjakin sem Magnus hefur sagt vera sinn helsta keppinaut. Eins mætti nefna skákmenn eins og Peter Leko, Etienne Bacrot og Bu X­iangz­hi en allir urðu þeir stórmeistarar í kringum 13-14 ára aldurinn. En af hverju er stórmeistaraaldurinn að lækka? Helgi Ó­lafsson: “Það er einfaldlega komin fram ný kynslóð sem hefur alist upp við tölvutæknina og á auðvelt með að taka inn nýjar upplýsingar. Hinsvegar veit ég ekki hvort það er rétt að kalla þessa ungu stráka undrabörn. Þeir eru ekki að brjóta neinar hefðir eins og til dæmis Fischer gerði á sínum tíma og þá nánast upp á eigin spýtur. Hann kom eins og bomba inn í skákheiminn en ungu strákarnir í dag eru fyrst og fremst þrautþjálfaðir og njóta góðs af tölvutækninni. En af þessum ungu skákmönnum er Carlsen enn fremstur.” Það verður því áhugavert að sjá hvernig Magnus Carlsen notar árin sem hann hefur á andstæðinga sína þangað til aftur verður teflt um rétt til að skora sitjandi FIDE heimsmeistara á hólm. sky ,
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76

x

Ský

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.