Ský - 01.06.2007, Blaðsíða 38
38 sk‡
skjólið
„Hvers vegna vildu blöðin ekki skrifa um þetta? Það verður einhver
að svara til ábyrgðar. Menn verða að bera ábyrgð á sínum málum.“
„Þau skrifa um það núna,“ sagði ég.
„Þau skrifa um það núna, þau skrifa um það núna já.“ Hann
kinkaði ótt og títt kolli.
Smám saman lognuðust samræðurnar út af. Júlli hélt áfram að
beita rakvélinni á hnakkann á mér. Bara rakvélin í hnakkanum,
annars ekkert og brátt var ég búinn að sitja meira en korter í stólnum.
Sagnfræðingurinn las áfram í bókinni sinni en gaut af og til augunum
til okkar.
Loks herti ég upp hugann. „Heyrðu, Júlli. Ég held að þetta gangi
bara ekki lengur svona. Þú ert ekki í standi til að vinna núna. Ég held
ég verði bara að koma seinna.“
Sagnfræðingurinn rauk á fætur. „Já, heyrðu, ég er að hugsa um að
koma mér bara núna - og kíkja aftur seinna.“
„Ég var með 39 stiga hita í morgun,“ sagði Júlli.
„Maður á ekki að vinna þegar maður er svona veikur,“ sagði ég.
Sagnfræðingurinn flýtti sér út.
„Veistu. Ég er sammála þér.“ Loks slökkti hann á rakvélinni. „Ég
ætlaði að keyra þetta niður á lyfjum. Ég held að það hafi ekki tekist.“
„Þú þarft að loka stofunni núna og hvíla þig í dag. Farðu heim og
leggðu þig.“
„Mér þykir þetta ægilega leiðinlegt, Kristján minn.“ Júlli hafði
aldrei áður ávarpað mig með nafni. Hann hlammaði sér niður á
ljósgráan sófa úti í horni. Hann horfði ráðleysislega út í loftið. Mig
grunaði að hann hefði ekki rænu á að loka heldur myndi bara sitja
þarna þar til næsti viðskiptavinur birtist.
IV.
Ég vissi af fjölmannaðri hárgreiðslustofu ekki langt frá, þar sem ekki
þurfti að panta tíma fyrirfram. Ég arkaði þangað. Það var sólbjart en
ísköld norðangola beit í kinnarnar. Ég hljóp síðasta spölinn og svitnaði
undir þykkum ullarfrakkanum þrátt fyrir kuldann. Það var óþægilegt
og ég hugsaði með mér að þetta mætti ekki verða einn af þeim dögum
þegar allt fer úrskeiðis, ekki daginn sem maður ákveður að bjóða
fallegri stúlku á stefnumót.
Ljóshærð feitlagin kona um fimmtugt tók á móti mér. Flestir stólar
voru auðir og hún vísaði mér til sætis út við glugga. Ég skýrði henni
frá hremmingum mínum án þess að nafngreina Júlla.
„Það væri betra að vita hver þetta er, svona orðrómur er mjög
vondur fyrir stéttina.“
Ég svaraði þessu engu og hún gekk ekki frekar á eftir nafninu.
„Sko, ég er ekki að segja að ég geti ekki lagað þetta, en ég vil
samt að þú sjáir ósköpin áður en ég byrja, svo þú sért með á hreinu
hvað við erum að eiga við.“ Hún bar handspegil að hnakkanum sem
speglaði hann í rakaraspeglinum. Þetta minnti mig á gamla mynd með
Martin Sheen sem ég hafði séð á Stöð 2 fyrir langalöngu, líklega fyrir
1990. Þar lék hann drykkfelldan heimilisföður sem sló garðinn sinn
dauðadrukkinn um miðja nótt. Ummerkin blöstu við áhorfendum í
morgunbirtunni og þeim líktist hnakkinn á mér helst núna.
Ég saup hveljur. „Ég yrði ofboðslega þakklátur ef þú gætir bjargað
þessu. Er það einhver möguleiki?“
Konan brosti, dálítið yfirlætislega, en samt hughreystandi.
„Við skulum nú sjá hvað við getum gert. Það má nú ýmislegt reyna
en ég verð að raka þig ansi snöggt í hnakkann, það er ljóst.“
Það var róandi að finna fyrir fingrum hennar í hárinu. Allar
hreyfingar hennar voru markvissar og ég fann enn betur en áður hvað
Júlli hafði verið fálmkenndur. Rafmagnsrakvélin fór í löngum og
jöfnum strokum um hnakkann og ég sá fyrir mér fyrrverandi nágranna
minn slá blettinn sinn bláedrú um hábjartan dag.
Það var þungur ilmvatnsfnykur af henni, ekki góður en samt var
eitthvað viðkunnanlegt við hann. Ljósgult hárið var greinilega litað og
konan var alls ekki fríð og líklega eldri en mér hafði virst í fyrstu. En
mér leið vel nálægt henni og hún vakti mér öryggiskennd.
„Mikið verður nú gaman þegar fer að vora,“ sagði hún.
„Já, þú verður að láta þér nægja gluggaveðrið eitthvað áfram,“
sagði ég.
„Já, það er dásamlegt þegar sólin skín.“ Hún hljómaði eins og kona
full af þrá eftir fegurð.
Hún færði sig þétt upp að mér og byrjaði að klippa á mér kollinn
með skærum. Ég fann skaut hennar nuddast við olnbogann. Fiðringur
fór um mig og ég fann fyrir holdrisi.
„Og við hvað starfar herrann?“
Ég sagði henni frá því, reyndi að gera starfið áhugaverðara en mér
fannst það vera í rauninni.
„Mjög intressant. Ég sé oft skemmtilegar auglýsingar í sjónvarpinu
en svo eru aðrar óttaleg della.“
„Þú hlýtur að hitta alls konar fólk hérna?“
„Já, biddu fyrir þér, alls konar týpur koma hingað, fólk úr öllum
þjóðfélagsstigum.“
Hún spurði út í fjölskylduhagi og ég sagðist vera fráskilinn,
búa einn í miðbænum. Hún var líka fráskilin og bjó ein í gamla
Vesturbænum. Hann fannst gaman að labba eftir Eiðsfjörunni en verst
hvað sjávarrokið gat verið kalt.
Hún bar handspegilinn aftur að hnakkanum. „Sjáðu, hér er dálítill
blettur en það vex yfir þetta á einni til tveimur vikum.“
Mér virtist klippingin vera fín. Henni hafði alveg tekist að bjarga
hnakkanum, fyrir utan þennan blett sem ég sá varla sjálfur.
Hún lét mig fá nafnspjaldið sitt áður en við kvöddumst. „Það
er ekki verra að hringja á undan sér, jafnvel daginn áður svo ég sé
örugglega laus.“
Ég leit á spjaldið. Hún kallaði sig einfaldlega Jonnu. Gefinn var
upp síminn á stofunni og gsm-númer.
„Ég kem örugglega eftir sirka tvo mánuði.“
„Já, þá kemurðu með vorið með þér,“ sagði Jonna og brosti.
V.
Klukkan var að nálgast tvö þegar ég kom aftur í vinnuna. Ég var allt
of seinn. Tölvupósthólfið mitt var troðfullt af áríðandi skilaboðum og
það voru 7 missed calls á gemsanum. Ég átti að mæta á fund um kex
og morgunkorn eftir klukkutíma. Ég sökkti mér niður í vinnuna.
Upp úr fjögur fór að róast. Ég skoðaði klippinguna í speglinum.
Hún var fín. Ég leit bara vel út, miklu betur en í morgun. Ég hafði
enga afsökun fyrir að láta ekki til skarar skríða núna. Ég gerði mér
ferð inn til Aðalheiðar. Brúna hárið hennar var óþægilega fallegt,
brúnu augun hennar voru hættuleg, ilmvatnslyktin var mannskæð. Ég
þornaði upp í munninum. Aðalheiður horfði stíft á skjáinn sinn og
veitti mér enga athygli.
„Varstu búin að finna lesara fyrir Bílaland - útvarpið?“ spurði
ég. Mér kom það ekkert við. Ég var bara að reyna að brydda upp á
samræðum.
Hún horfði tómlega á mig. „Þeir vilja hugsa málið fram yfir
helgi.“
Hún kommentaði ekki á klippinguna, virtist ekki taka eftir henni.
„Voru komnar einhverjar verðhugmyndir?“
Síminn hringdi hjá Aðalheiði og hún bandaði ergilega frá sér
með hendinni um leið og hún svaraði. Ég hafði greinilega ekki hitt