Ský - 01.06.2007, Side 56

Ský - 01.06.2007, Side 56
 56 sk‡ lést og freistandi að halda að einhvers staðar hafi einhvern tímann verið til eitthvað sem kalla mætti uppkast. Jón Ó­skar skáld ritaði ítarlega ævisögu sína í nokkrum bindum þar sem lífi skálda og listamanna í Reykjavík um miðja öldina er lýst. Jón lýsir Vilhjálmi svona: „Hægt var að rekast á hann í miðbænum hvenær sem var, því ríki hans var beggja vegna landamæra hinna „siðlausu“ og „siðlátu“. Hann hóf upp hönd sína, þar sem hann stóð í Austurstræti, eins og hann ætlaði að stjórna skipshöfn og þættist standa í lyftingu eða væri prestur að búa sig undir að blessa yfir söfnuði sínum, var sagður launsonur Einars Benediktssonar, trúlega vegna þess að hann var einkennilega líkur honum...“ Síðar í bókinni lýsir Jón Ó­skar því þegar Vilhjálmur brýst óboðinn upp á svið á skemmtun sem verkamannafélagið Dagsbrún stóð fyrir í Iðnó og les ljóð. „Þá gerðist það einhvern tímann milli atriða meðan sviðið blasti autt við áhorfendum, að skyndilega vatt sér inn á sviðið hár og myndarlegur maður, augljóslega kenndur, en hafði þó fullt vald á hreyfingum sínum. Hann gekk fremst fram á sviðið, hóf upp hægri höndina eins og til að fá hljóð og sagði hátt og snjallt svo kvað við um allan salinn: Hafið þið heyrt kvæðið um hana Maríu? Þögn sló á fólkið í salnum en þó heyrði ég hvíslað í kringum mig: Villi frá Skáholti! Villi frá Skáholti!“ Lést fyrir aldur fram Ævilok Vilhjálms urðu fremur dapurleg. Hann féll drukkinn niður stiga í tvílyftum bragga sem hann bjó í og fékk þungt höfuðhögg sem hann lést af. Þá var Vilhjálmur frá Skáholti 56 ára gamall. Bragginn sem hann bjó í stóð við svokallaðan Sandvíkurveg sem lá frá suðausturhorni gamla kirkjugarðsins vestur á Grímsstaðaholt á svipuðum slóðum og Suðurgatan liggur í dag. Eins og fram hefur komið var Vilhjálmur einkar glæsilegur maður sem lét sér töluvert annt um útlit sitt og klæðaburð þrátt fyrir óregluna. Hann giftist aldrei og bjó aldrei með konu en hann naut ótvírætt kvenhylli. Vilhjálmur eignaðist þrjá syni með jafnmörgum konum. Elstur þeirra var Gunnar Jón Vilhjálmsson sem fæddist 1928. Móðir hans var Þórunn Ágústa Gunnlaugsdóttir í Ó­lafsvík en þar ólst Gunnar upp og bjó alla sína ævi. Jón Norðfjörð Vilhjálmsson fæddist einnig 1928 en móðir hans var Guðmunda Dagbjört Guðmundsdóttir frá Keflavík. Jón er búsettur í Mosfellsbæ og sagði í samtali við greinarhöfund að hann hefði sjaldan hitt föður sinn nema í stuttum heimsóknum og lítið haft saman við hann að sælda. Yngstur sona Vilhjálms er Bergur Heiðmar Vilhjálmsson sem fæddist 1933 en móðir hans var Valgerður Margrét Lárusdóttir frá Heiði á Langanesi. Hún og Vilhjálmur munu hafa kynnst á Siglufirði þar sem hann vann við að múra apótekið sumarið og haustið 1932. Bergur sagði í samtali við greinarhöfund að hann hefði ávallt hitt föður sinn í heimsóknum í Reykjavík en Bergur ólst upp á Langanesi og á Þórshöfn. Hann sagði kynni þeirra hafa verið góð þótt lítil væru og hann ætti góðar minningar af heimsóknum í kjallarann þar sem verslunin var og kaffi á Hressingarskálanum gamla þar sem litríkur hópur safnaðist strax í kringum skáldið frá Skáholti. Bæði Bergur og Jón eiga fjölda afkomenda þannig að arfleifð skáldsins lifir áfram í þeim. Að vera eða vera ekki Ekki verður skilið við Vilhjálm frá Skáholti án þess að líta ofurlítið á hinar þrálátu sögusagnir um að hann væri ekki sonur sjómannsins í Skáholti heldur launsonur Einars Benediktssonar skálds, sýslumanns og fjármálamanns. Þessi orðrómur fylgdi Vilhjálmi meðan hann lifði og ekkert gerði hann sjálfur til að draga úr honum nema síður væri. Ein helsta ástæðan fyrir þessum orðrómi mun hafa verið að Vilhjálmur var sterklíkur Einari og sérstaklega eftir að hann komst á miðjan aldur, hvort sem það var tilviljun eða átti sér líffræðilegar forsendur. Vilhjálmur lét sér vaxa yfirskegg líkt því sem Einar var með og greiddi hár sitt eins og þegar fólk mætti honum góðglöðum þrumandi skáldskap á götum Reykjavíkur fannst því sem þjóðskáldið væri þar lifandi komið. Ef við lítum aðeins á hugsanlegt sannleiksgildi þessa orðróms þá blasa við nokkrar staðreyndir. Einar Benediktsson var fæddur 1864 og var því tíu árum eldri en Sigurveig móðir Vilhjálms. Sigurveig ólst upp í Skálholtskoti sem stóð þar sem nú er Laufásvegur 13 rétt við Menntaskólann í Reykjavík eða Lærða skólann eins og hann hét þegar Einar var þar skólapiltur. Það er ekki útilokað að þegar Einar stundaði nám við skólann 1879-1883 og bjó hjá Þorbjörgu frænku sinni á Skólavörðustíg að hann hafi kynnst börnunum í Skálholtskoti en í þeirri smáu Reykjavík þekktust allir. Vilhjálmur er fæddur í árslok 1907. Um það leyti var Einar Benediktsson sýslumaður Rangæinga með aðsetur á Stóra-Hofi en fékk reyndar lausn frá því embætti í árslok 1907. Ekki var hann allar stundir á Stóra-Hofi því á árunum 1905-1906 var hann með annan fótinn í Reykjavík þar sem Marconifélagið vann að uppsetningu loftskeytastöðvar á hans vegum og á þessum árum var fjármálavafstur Einars að ná flugi. Á þessum tíma var Sigurveig gift kona í Skáholti og móðir sjö barna. Afkomendur hennar sögðu greinarhöfundi að Sigurveig hefði strítt við geðsveiflur og stundum farið að heiman um tíma og dvalið þá hjá foreldrum sínum í Skálholtskoti. Nágrannar íbúanna í Skálholtskoti voru fólk af sauðahúsi Einars sýslumanns og skálds en í næsta húsi bjó Elínborg Friðriksdóttir Eggerz­ ekkja og hinumegin bjó Einar Arnórsson, þá lagaskólakennari síðar ráðherra. Ætla má að Einar skáld hafi því stundum átt erindi á þessar slóðir þótt slíkar vangaveltur séu auðvitað býsna ábyrgðarlausar. Ekkert af þessu gefur þó tilefni til að ætla að Einar og Sigurveig hafi einhvern tímann átt náin kynni. Almannarómur er ekki ígildi sannleiks en Vilhjálmur sjálfur hélt þessari meintu rangfeðrun talsvert á lofti og ljóst er af samtölum við fjölskyldumeðlimi að margir í frændgarði hans hafa lagt trúnað á þetta. En hvort konungur útigangsmannanna í Reykjavík var í rauninni sonur eins stórbrotnasta þjóðskálds Íslendingar veit enginn fyrir víst og þeirri spurningu verður ekki svarað héðan af enda kannski mest sett fram til gamans. Vilhjálmur frá skáholti sky ,

x

Ský

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.