Fréttatíminn - 28.08.2015, Blaðsíða 11
öskrar á hjálp en heilbrigðiskerfið
tekur ekki eftir því. Og það virðist
vera að þrátt fyrir að konurnar tali
um ofbeldið sem þær urðu fyrir, sé
samræðunni eytt og að engin vilji
sé til að líta á tengslin milli líkama
og sálar. Það var þess vegna sem
ég ákvað að doktorsverkefni mitt
yrði að búa til Gæfusporin,“ segir
Sigrún en Gæfusporin er þverfag-
leg og einstaklingsmiðuð meðferð
fyrir þá sem eiga sögu um erfiðar
upplifanir í æsku. Verkefnið hófst
á Akureyri haustið 2011 og var í
upphafi eingöngu fyrir konur sem
urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í
æsku, en núna eru líka Gæfuspor
á geðheilsustöðinni í Mjódd, fyrir
konur sem hafa orðið fyrir hvers
kyns áföllum.
Fíkn fylgja alltaf geðræn
vandamál
„Þrír stórir hópar kvenna hafa
farið í gegnum Gæfusporin í
Reykjavík og fjórir á Akureyri.
Í Gæfusporunum fá konurnar
heildræna meðferð og það eru líka
farnar óhefðbundnar leiðir eins
og til dæmis svæðanudd. Það eru
ekki bara gefin lyf, því lyf eru ágæt
til að deyfa sársauka en þau lækna
ekki áföll. Þau ráðast ekki að
rótum vandans heldur ýta honum
bara í burtu. Það koma margar
konur til okkar sem hafa farið í
gegnum meðferð og eru enn að
vinna í sínum vandamálum. Ég lít
þannig á hlutina að það sé aldrei
hægt að taka fíkn út fyrir sviga
og horfa á hana eina og sér. Fíkn
er afleiðing og henni fylgja alltaf
einhver geðræn vandamál, sama
hvort það er kvíði, þunglyndi eða
annað. Allar konurnar sem hafa
komið í Gæfusporin eru með ein-
hvers konar fíkn sem er afleiðing
af sálrænum áföllum. Það er mis-
jafnt hvaða leiðir þær nota til að
deyfa sig en þær eru allar með
annaðhvort matarfíkn, áfengisfíkn
eða lyfjafíkn.“
Vill kynjaskipt meðferðarúr-
ræði
Sigrún er algjörlega sannfærð
um að konur eigi að vera á meðal
kvenna í meðferð, án karlmanna.
„Það er afar ófullnægjandi fyrir
konur, og auðvitað líka karla, sem
hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í
æsku að innan heilbrigðiskerfisins
sé eingöngu litið á fíknina í stað
þess að líta á heildarmyndina.
Langflestar þeirra kvenna sem
koma í Gæfusporin eru í mikilli
hættu á endurteknum áföllum
og ofbeldi. Sjálfsmynd þeirra er í
molum og þær kunna ekki að setja
sér nein mörk. Þær eru að glíma
við þrána við að einhver elski þær
en eru uppfullar af þeim hugsun-
um að þær séu ömurlegar og ekki
hamingjunnar virði. Þessar kon-
ur fara til dæmis í sjúkraþjálfun
þar sem þær læra líkamsvitund
því þær eru algjörlega búnar að
týna sínum mörkum, þær vita ekki
hvar þær byrja og enda, og einmitt
þess vegna lenda þær alltaf aftur
og aftur í ofbeldi. Og ég veit það
af reynslu að þessar konur geta
ekki tekist á við það að einhver
karlmaður sýni þeim áhuga, það
truflar bataferlið. Það er ekki gott
að þessar konur séu í bataferli
með veikum karlmönnum. Það er
nauðsynlegt að þær læri að setja
sér mörk og byggi upp sjálfsmynd-
ina áður en þær fara að takast á við
samskipti við hitt kynið, sem þær
hafa fæstar góða reynslu af úr for-
tíðinni.“
Halla Harðardóttir
halla@frettatiminn.is
Helgin 28.-30. ágúst 2015