Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 41
HÚNAVAKA
39
Ég ákvað að reyna við þennan fisk og óð út í til þess að komast í
kaststöðu, en sá svo allt í einu annan fisk, sem lá á tæplega hnédjúpu
vatni eina fimm metra frá mér. Ég fraus í sporunum en hörfaði svo
varlega upp undir bakkann og kastaði lítilli Blue Sharm flugu yfir
hann. Mér til furðu tók hann strax og var blýfastur.
Það sem á eftir fór var gjörsamlega laust við nákvæmni, yfirvegun
og allt það lofsvert, sem heiti hefur, nema fjörið eitt. Fyrst rásaði hann
náttúrlega í bollanum við grastorfuna, nákvæmlega þangað, sem ég
vildi ekki að hann færi. Samt reyndi ég nú að halda honum þar til þess
að geta þreytt hann dálítið, en hann strikaði af stað þvert yfir brotið og
inn á milli margra steina, sem stóðu að hálfu upp úr straumnum,
grænir af slýi. Ég brölti aftur upp á bakkann, sótti háfinn og óð eftir
honum. Hann hægði dálítið á sér og ég stýrði honum með einhverjum
hætti til baka á milli steinanna. Hann var hvergi nærri tilbúinn í
háfinn, en ég byrjaði samt að hugleiða hvar ég gæti helst búist við að
ná í hann. Besti staðurinn virtist vera rétt fyrir neðan kvörnina, eða þá
uppi i sjálfum hylnum, ef ég kæmi honum þangað. En fiskurinn var á
annarri skoðun. Hann kom að vísu aftur í 10 til 15 metra fjarlægð frá
stangartoppnum og snerist ólundarlega þegar ég ákvað að elta. Þá hélt
hann enn áfram ferðinni og það söng í trefjaglerstönginni undan
átakinu — hjáróma málmtón, sem ég kunni ekki aimennilega við.
Skammt fyrir neðan okkur var breið flúð og mér hugnaðist ekki að
hann færi að sprikla á henni með hundrað metra af línu á eftir sér.
Hann sveigði af rétt fyrir ofan hana og mér tókst að ná honum til baka,
og nú var hann auðsjáanlega tekinn að þreytast. Enn svipaðist ég eftir
stað, sem væri nógu djúpur til þess að ég gæti komið háfnum undir
hann en fann engan. Eg sleppti háfnum og ákvað að landa.
Ekki var hann reiðubúinn til þess. Þegar ég reyndi að stýra honum
upp að bakkanum, tók hann aftur á rás, og synti, spriklaði og rann, allt
í senn yfir grynningarnar. Skömmu síðar var hann kominn upp á
flúðina og ég varð að gefa eftir og láta hann sjálfan um að komast yfir
hana. Það var dálítið dýpra neðan við flúðina, en hvergi skvompa, sem
nægt gæti til þess aö hægt væri að lokka hann á grynningar. Eg reyndi
það fjórum eða fimm sinnum til þess eins að sjá hann sprikla og busla
í burt aftur. Þá loksins mér tókst að hemja hann eitt andartak, vorum
við komnir fjögur hundruð metra niður með ánni frá staðnum, þar
sem hann tók, og jafnvel þá varð ég að sporðtaka hann og sveifla
honum upp á grasbalann.