Húnavaka - 01.05.1980, Side 52
50
HÚNAVAKA
utan gripum við Finnur bróðir minn í fiskvinnu hjá Jóhanni Möller
kaupmanni, en hann verkaði saltfisk. Þá, og lengi síðan, var útræði frá
Blönduósi. Við strákarnir vorum látnir vera í breiðslu eða samantekt
eftir því sem við átti. Fiskreitirnir voru þar sem nú standa slátur- og
frystihús SAH. I norðurjaðri reitanna voru stakkstæðin, og man ég
hversu ógnarstórir mér fundust fiskihlaðarnir.
Síðar voru á þessu svæði hafðar tunnur þær, sem kindakjötið var
saltað í á sláturtíð, og þar fór fram pæklun á kjötinu. Þessi fiskvinna
var mitt fyrsta starf utan heimilis, og þótti mér það skemmtilegt, en
erfitt gat það verið að bera fiskinn, einkum ef verið var að rífa hann
saman undan rigningu.
Eg gekk aldrei í skóla, en fræðslu naut ég samt. Foreldrar mínir
lögðu áherslu á, að við systkinin fengjum þá tilsögn, sem duga mætti
til sjálfshjálpar.
Kennari var fenginn tíma og tíma í senn. Voru það tveir menn, sem
þessu sinntu — fóru um og kenndu. Þeir hétu Sigvaldi Sveinsson og
Frímann Finnsson, og munu báðir hafa verið þessu starfi allvel vaxnir.
Frímann var móðurbróðir minn og skrifari ágætur. Ég lagði mig allan
fram að ná hans fallegu forskrift, þótt ekki lukkaðist það að fullu. Það
annað, sem okkur var kennt, var reikningur og lítilsháttar í landafræði
og sögu.
Ég gæti trúað að það hafi verið föður mínum töluvert átak fjár-
hagslega, að veita okkur þessa fræðslu. Hana þurfti að greiða í pen-
ingum, en þeir munu sjaldnast hafa verið í seilingarfæri. Samt býst ég
ekki við að hægt hafi verið að segja, að foreldrar mínir hafi verið snauð
á þeirra tíma mælikvarða, þótt trauðla yrðu þau kölluð efnuð í dag.
Þau höfðu til fæðis og fata, svo að ekki var um skort á slíku að ræða. En
því aðeins hafði fólk björg í búi þá að dyggðirnar fornu: fyrirhyggja,
vinnusemi, sparsemi og nýtni, væru stranglega í heiðri hafðar.
Mér sýnist, að með fullum rétti megi segja, að fram á mína daga hafi
yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fæðst til fátæktar. Viðfangsefni
alls almennings var að lifa — hafa í sig og á. Það varðaði missi
mannréttinda að standa sig ekki í lífsbaráttunni — að þurfa að leita á
náðir annarra. Það skipti ekki máli hvort ástæðan var vanheilsa eða
vesalmennska, og mér virðist að hjá mörgum af minni kynslóð hafi það
verið gildasti þátturinn í lífsviðhorfinu, að geta staðið á eigin fótum —
vera fremur veitandi en þiggjandi. Þessu fólki var það lífstakmark að
vera sjálfstætt.