Húnavaka - 01.05.1980, Síða 56
54
HÚNAVAKA
sér, lét maður sig vanta. Dauð hönd kreppunnar lagðist með vaxandi
þunga á allt og alla.
A árunum upp úr 1930 mátti segja að peningar sæjust ekki manna á
meðal. Dilkurinn fór niður í sjö krónur í innleggi og annað eftir því.
Við þá erfiðleika, sem af kreppunni leiddu hjá okkur hjónunum,
bættist svo það að árið 1935 misstum við 20 ær, 10 gemlinga og
nýborna kú, auk þess að 40 ær létu lömbum eftir ormalyfsgjöf. Þá
mátti segja að ekki væri ein báran stök.
Þegar við komum að Sölvabakka var bústofninn þessi: 19 ær, 2
gemlingar, 2 hestar tamdir, 1 mertryppi veturgamalt og 1 kýr. Vita-
skuld hafði búið stækkað, kindurnar orðnar liðlega 100 þegar ég varð
fyrir nefndu tjóni, en þrátt fyrir það var það verulega tilfinnanlegt og
fjórði áratugurinn varð mér, eins og fleirum, vondur viðskiptis þó að
úr rættist að lokum.
Efnahagslegir þröskuldar voru yfirstignir með óhlífni við sjálfan sig
og aðra — þrotlausri vinnu bæði heima og heiman og þessi erfiðu ár
sönnuðu mér, sem ég raunar vissi áður, hvílík kostajörð Sölvabakki er.
Það má segja að þar sé „mörg matarholan“.
Jafnhliða búskapnum stundaði ég sjóinn, átti bát og hafði ætíð
næga björg í búi — seldi meira að segja stundum fisk, bæði saltaðan og
hertan. Rauðmaginn var veiddur að vorinu og silungur eftir að hann
gekk að landi.
Árið 1931 réðist ég í byggingu íbúðarhúss. Ég byrjaði á að gera
kjallarann íbúðarhæfan og var í honum með fjölskylduna til ársins
1934 er ég lauk við húsið. Þá voru börnin orðin fimm og þröngt til
baga. Auðvitað jók byggingin á afkomuörðugleikana en um annað
var ekki að ræða þar sem gamli bærinn var bæði lítill og að falli
kominn.
Ég hefi alla tíð haft gaman að smíðum og er sæmilega baglhagur og
kom það sér vel við húsbygginguna og raunar voru smíðar mér veruleg
lyftistöng. Ég var sjálfbjarga með viðgerðir og viðhald heima fyrir, auk
þess sem ég smíðaði sjálfur ýmis húsgögn og heimilistæki. Líka fékkst
ég dálítið við smíðar utan heimilis. Aldrei fannst mér þó verulegur
hagur að slíkum heimangöngum þó aurarnir kæmu sér vel. Ef lifa á af
viðskiptum við moldina verður að þjóna henni svo að hún veiti þjón-
ustu. Hún réttir engum neitt sé kröfum hennar ekki fullnægt, en sé það
gert er hún oftast örlát á gæði sín.
En þrátt fyrir það að ég ynni oft dag með nóttu að byggingu hússins