Húnavaka - 01.05.1980, Síða 66
GUÐMUNDUR JÓSAFATSSON Jrá Brandsstöðum:
1 eftirleit
Þeir, sem alllanga ævi hafa stundað heiðarleitir á haustdögum,
munu fiestir eiga þaðan margs að minnast. Ýmislegt af því er þess
eðlis, að það yljar þegar aldur færist yfir. Líklegt er, að fjarlægð og
óskyggni ellinnar bregði á stundum nokkrum ljóma á þá atburði, sem
minningar frá æsku og gleði hafa stundum varpað á leiðir okkar svo
að þær ylja enn, þótt furðu oft hafi fennt yfir sporin. En því verður
trauðla neitað, að hérlendis kemur vor á eftir vetri hverjum. Þá koma
slóðirnar í ljós.
Ég fór oft í eftirleitir á Eyvindarstaðaheiði og á þaðan margs að
minnast, sem enn sækir að þegar sumri hallar og haustar að. Virðist
mér þá stundum að þar, sem ég hef talið mig duga skást, hafi málin
snúist svo, að fleira hefur komið til, en min eigin skyggni. Þar hafa og
aðrir haft sitt til málanna að leggja.
Haustsins 1947 minnist ég með sérstakri hlýju. Þá voru leitarfélagar
mínir Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Fossum, og Sigurður Þor-
kelsson, bóndi á Barkarstöðum, úrvalsmenn að hugrekki og dug.
Mínir einkafélagar í leitinni voru tveir. Fölrauður hestur á léttasta
skeiði, sem ég kallaði Roða og móstrútóttur hundur, sem ég kallaði
Sörla, þaulvanur leitum, ágætlega viti borinn og tryggur svo af bar.
Roði var mikill vexti, fölrauður og hesta fegurstur, klárhestur, viljugur
og frábær vatnahestur, þaulvanur leitum og þó á léttu skeiði. Eg lagði
hann aldrei svo á móti skepnu í leit, að sigur væri ekki auðunninn.
Færi var slíkt að heiðin hafði hreinfrosið svo að heita mátti að allar
flár væru fullfærar. Nóttina áður en við fórum úr byggð hafði fölvað í
logni. Var því svo auðleitað, sem á varð kosið ef ekki kom þoka, en hún
varð okkur áleitin í það sinn.
Fyrsta daginn leituðum við efstu leitir meðfram Hofsjökli, allt
sunnan úr Blönduupptökum og austur að Jökulsá vestari. Þetta eru
víðáttumiklar leitir, en fáar urðu fengsvonir og komum við heim
ófegnir erindislokum.