Húnavaka - 01.05.1980, Side 73
HÚNAVAKA
71
dælasögu, að Vatnafjörður heiti nú Húnafjörður, og hið sama segir
Guðni Jónsson í íslendingasagnaútgáfu sinni. Er þó undarlega komist
að orði hjá höfundi sögunnar, ef hann á við sjó, þegar hann talar um
fjörð, sem flói allur af vötnum. Öðru máli gegnir ef litið er á hinn forna
Vatnafjörð sem land. Kemur það einnig vel heim við landlýsingu þá,
sem sagnaritarinn eignar Finnunum: „og vötn voru mikil fyrir innan
einn fjörðinn.“ Skal nú nánar frá því greint.
Inn af Hrútafirði og Miðfirði eru engin stöðuvötn, en fyrir innan
fjörðinn, sem liggur austan við Vatnsnes, er fjöldi vatna og þrjú þeirra
stór. Vestast er Sigríðarstaðavatn um 7 km langt, þá Hópið, sem er
29,8 ferkm, og austast Húnavatn um 8 km langt. Afrennsli hvers og
eins þessara vatna fellur um lygnan ós til sjávar og hverfur þar í
djúpið. Á milli Hóps og sjávar liggur Þingeyrasandur 5-6 km breiður
og um 10 km langur á milli Bjargaóss og Húnavatnsóss, en styttri við
Hópið. Þar flæðir oft vatn af völdum sjávarfalla, vinda og vorleysinga
yfir svæði, sem þekur 10-15 ferkm. I Vatnsdæla sögu eru nafngreind
þrjú vötn í Vatnsdal og fullvíst er að á dögum Ingimundar hafa þau
varið a.m.k. fimm. Öll hafa þau verið smá enda síðar kennd við tjarnir.
Til viðbótar kemur svo það, að í miklum vorleysingum flæðir Vatns-
dalsá yfir bakka sína hlíða milli í norðurhluta dalsins og einnig yfir
Eylendið í Þingi. Hið sama getur hent á vetrum. Er ekki ótrúlegt að
Ingimundur hafi séð þetta allt, nema vetrarflóðin, þegar á fyrsta sumri
sínu i Vatnsdal, og telja má víst að sagnaritarinn á Þingeyrum hafi oft
haft þá algengu sýn fyrir augum.
I Vatnsdæla sögu segir:,Jörundur háls, er annar maður var mestur,
sá er út kom með Ingimundi, hann nam sér land að ráði Ingimundar
mágs síns fyrir utan Urðarvatn og til Mógilslækjar og bjó á Grund út
frá Jörundarfjalli í Vatnsdal. . . . Hvati hét maður er út kom með
Ingimundi, hann nam land frá Mógilslæk til Giljár. Ásmundur nam
land út frá Helgavatni og um Þingeyrasveit.“ í Landnámabók er skýrt
á sama hátt frá landnámi þessara manna, og í Grettis sögu er getið
„Ásmundar undan Ásmundargnúpi, er numið hafði Þingeyrasveit.“
Þá segir í Landnámabók: „Þorgrímur bjó á Hjallalandi. . . . Þorgrím-
ur fékk dóttur Skíða af Skíðastöðum í Vatnsdal.“ Skíðastaðir voru i
fjallshliðinni gegnt Hnausum, en þeir eyddust er svonefnd Skíða-
staðaskriða féll úr Vatnsdalsfjalli árið 1545. Samkvæmt Vatnsdæla
sögu og Landnámabók voru þeir í landnámi Hvata enda þótt það væri
ekki kennt við Þingeyrasveit eins og landnám Ásmundar. Virðist hún