Húnavaka - 01.05.1980, Side 88
86
HÚNAVAKA
ungling til að flytja sáturnar að Kvíslinni á heysleða með tveim hestum
fyrir. Svo þurfti að ferja heyið yfir Kvíslina og fékk ég einnig mann frá
Steinnesi til þess og svo stóran pramma, sem þar var notaður til að
flytja hey. Lárus Jakobsson bónda á Leysingjastöðum og Jóhannes
Magnússon bónda í Vatnsdalshólum, fékk ég til þess að fara með
heybandslestina, og með þeim var svo unglingurinn, sem var til
heimilis hjá mér. Sjálfur hugðist ég taka á móti og koma fyrir heyinu
og konan mín sá um mat og kaffi og að búa um það og senda fólkinu.
Klukkan fimm um morguninn var ég á fótum og fór að sækja hesta,
sem ég fékk lánaða í Brekku og Öxl, en hesta, sem þeir lánuðu mér,
Lárus og Jóhannes, gátu þeir komið með. Klukkan átta var allt komið í
gang og byrjað að binda, en þá kom babb í bátinn, það fór að rigna.
Og þegar fyrsta lestin kom heim var komin húðarrigning og milli-
ferðamennirnir spurðu, hvort ætti að halda áfram.
Nú var úr vöndu að ráða; ef áfram héldi að rigna myndi heyið
blotna talsvert, en hins vegar afleitt að hætta við, eftir allan þennan
undirbúning. Upp í hugann komu svipaðar kringumstæður þegar ég
var 7-8 ára, er faðir minn var að láta binda utan af Geirastaðaengi og
það fór að rigna stuttu eftir að byrjað var, og fleira fór úrskeiðis. Meðal
annars bilaði báturinn, sem átti að ferja á heyið yfir Kvíslina. Faðir
minn var framúrskarandi vandlátur með verkun á heyi, en undir
þessum kringumstæðum lét hann halda áfram að binda og sagði svo
fyrir að fara með lestina yfir á Djúpavaði. Það vað er á Kvíslinni
austur undan Leysingjastöðum. Auðvitað blotnuðu sáturnar enn
meira við það, en ekki lét hann heyið í tóftina þá, heldur lét hann
sáturnar á túnið en dreifði ekki úr þeim fyrr en næsta þurrkdag. Þegar
ég minntist þessa, ákvað ég að láta halda áfram að binda, þrátt fyrir
rigninguna, þótt þetta væri nokkuð harðneskjulegt því allir urðu
gegnblautir við fyrstu ferðina. Margir hafa víst haldið að ég væri
orðinn vitlaus að láta halda áfram að binda í þessu veðri því flestir,
sem voru að heyja á Eylendinu, hættu að vinna og fóru heim. En
hamingjan var mér hliðholl eins og oft endranær, því um hádegi birti
upp og gerði besta veður sem hélst fram á kvöld. Þetta gekk allt
slysalaust og klukkan að ganga tólf voru komnar heim fimm ferðir eða
hundrað hestar og var ég ánægður með það, hafði ekki vonast eftir
meiru. Þá var eftir að skila hestum, sem ég hafði að láni og milliferð-
armennirnir gátu ekki tekið með sér og fór ég með þá, en þegar ég kom
heim frá því fór ég að koma fyrir heyinu úr síðustu ferðinni. Þegar því