Húnavaka - 01.05.1980, Page 89
HÚNAVAKA
87
var lokið og ég gat farið að hvíla mig var klukkan orðin fimm og gekk
ég þá til hvíldar þreyttur og ánægður.
Þetta varð síðasta heybinding mín á hestum, enda fóru almennt að
breytast heimflutningar, og reiðskapur að ganga úr sér. Nú á varla
nokkur bóndi reiðing eða reipi og mjög fáir kunna að binda bagga,
hvort heldur er hey eða annað.
II.
Reiðskapur
Þetta orð var samnefni yfir reiðinga og reipi, er nota þurfti þegar
flutningar voru allir á hestum, sem stundum var líka kallað að flytja á
klakk. Reiðingur var samsettur af álagsdýnu,sem var næst hestinum,
tveimur klakkatorfum og klyfbera, með tveim klökkum til að hengja
baggana á og þremur gjörðum, sem strengdar voru undir kvið hestsins.
Svo voru tvö framanundirlög, oftast torfusneplar, þynnri í þá röndina
sem aftur snéri, stungið á milli dýnu og klakkatorfu, þannig að þau
kæmu undir fremri enda klyfberafjalanna. Ekki þótti vandalaust að
leggja reiðing á hest svo vel væri og sjálfsagt var að hafa alltaf sama
reiðinginn á sama hestinum ef hægt var.
Reipin voru samsett af sila, högldum og tveim reiptöglum, helst úr
faxhári, en silinn ýmist úr taglhári eða kaðli. Klyfberagjarðir og
hnappheldur þóttu bestar úr ull og garðaló.
Mikið viðhald þurftu reipi, og reiðingar nokkuð. Hrosshár og
garðaló í reipi og gjarðir var eingöngu heimilisvinna að vetri til,
karlmannavinna, og helst þurfti að vinna það mikið að örugglega
entist til viðhalds næsta sumar.
Haga 2. janúar 1980.