Húnavaka - 01.05.1980, Page 106
Aldarafmæli
Kvennaskóla Húnvetninga
Sunnudaginn 17. júní 1979 var afhjúpaður minnisvarði um skólann á hinum gamla
skólastað Ytri-Ey. Áður þann sama dag fór fram messugjörð í Höskuldsstaðakirkju í
tilefni þess að 100 ár voru liðin frá stofnun Kvennaskólans að Ytri-Ey. Þar flutti Pétur
Þ. Ingjaldsson prófastur predikun og Dómhildur Jónsdóttir erindi um Kvennaskól-
ann.
Húnavöku þótti viðeigandi að minnast hins merka starfs Kvennaskólans á Ytri-Ey
og síðar að Blönduósi með því að birta þessi fróðlegu erindi.
I.
Ræða
Texti vor er skráður í 1. Korintubréfi 3. kap. 6-10, 16
Bréf Páls postula bera jafnan glögg merki þess hversu mikill fræðari
og kennari hann var, enda hálærður maður. En jafnframt þessum
lærdómi er skilningur hans skarpur að gjöra hinn nýja boðskap,
fagnaðarerindi um Jesú Krist, aðgengilegri öllu fólki.
Dregur hann þá upp líkingar úr mannlífinu, sem öllum eru auð-
sæjar myndir, því var trúboð Páls ekki kaldhömruð kennsla heldur
lifandi boðskapur, er grópaði sig inn í hjörtu þeirra er frelsast létu.
Því voru þessi bréf oft kennslubækur í kristinni trú, er fólk tók fegins
hendi og hafa þær verið í fullu gildi fram á vora daga.
Margt hjálpast að í uppeldi voru, mæður vorar gróðursetja góðar
hugsanir, leiðbeiningar og skýringar á mannlífinu meðal vor í heima-
húsum. Kennarar taka við að þroska oss með lærdómi, bókum og
brjóstviti, tengja saman bókvit og lífslögmál, en sérhver fái sín eigin
laun eftir sínu erfiði, sem stundum er nokkur bið á. Þarf þá þrautseigju
til að láta eigi hugfallast, en mörgum verður að trú sinni. Því að Guðs
samverkamenn erum vér, Guðs akurlendi, Guðshús eruð þér.