Húnavaka - 01.05.1980, Page 123
HÚNAVAKA
121
Nokkrar sagnir hafa geymst um Jón og eru þær birtar í Svipum og
sögnum (Ak. 1948). Hér verða tilfærðar tvær þeirra.
Yngsta barn þeirra Snæringsstaðahjóna, Jóns og Sigríðar, var Jósef,
sem var fæddur í nóvember 1808. Þá var venja að börn væru skírð
þegar nýfædd. Jón bóndi fór því strax með barnið yfir að Auðkúlu til
sóknarprestsins séra Ásmundar Pálssonar. Snjór var á jörðu og skaf-
renningur. Þegar Jón kemur niður á flóann fyrir neðan Snæringsstaði,
þarf hann að ganga þarfinda sinna, leggur hann barnið frá sér á
meðan, en svo var mikill asinn á karli, að þegar hann hafði gert að
brókum sínum, tekur hann samstundis sprettinn austur og gleymir
barninu. Þegar hann kemur á melinn fyrir vestan Auðkúlu saknar
hann fyrst barnsins og verður sem nærri má geta skelkaður, því að
vegna skafrenningsins var mjög undir hælinn lagt að barnið fyndist,
þó að líf þess hefði enn ekki sakað. Jón gerði þá áheit á Auðkúlukirkju
að gefa henni nýjan hökul, ef hann fyndi barnið með lífi. Efndi Jón
heit sitt og gaf kirkjunni vandaðan hökul, og var hann notaður við
allar tíðagerðir í Auðkúlukirkju fram undir 1930.
Jón þótti merkilega forspár og draumvitur eins og eftirfarandi saga
sýnir.
Vetrarkvöld eitt lagði Jón sig útaf til svefns á vökunni. Hann bjó þá
á Snæringsstöðum. Þá er Jón hafði sofið litla stund rís hann upp og
segir: „Hér koma andskotans þjófar í nótt og stela“. Rauk hann svo út
í skemmu, sótti peningakistil sinn og gróf hann niður í rúm sitt. Leið
svo nóttin. Um morguninn, þegar komið var á fætur á Snæringsstöð-
um, sézt að brotizt hafði verið inn í skemmuna, hafði verið rofið gat á
þekjuna. Peningakistillinn hafði verið geymdur í stórri kistu í
skemmunni, og var sú kista horfin. Fannst hún fyrir utan og ofan tún.
Hafði verið sagað stórt stykki úr lokinu, en sennilega hefir þjófunum
brugðið í brún er kistillinn var ekki í kistunni. Hjá kistunni fann Jón
fléttu úr mannshári. Nokkru síðar bregður Jón sér út að Grund, sem er
næsti bær við Snæringsstaði að norðan og hefir með sér fléttuna. Jón
var hinn hægasti og stilltasti þegar hann heilsar heimilisfólkinu á
Grund og spyr hvort nokkur kannist við fléttuna, sem hann tekur upp
um leið. Segist Jón hafa fundið hana hér suður á túninu. Gellur þá við
gömul kona ein og segir: „Hann Pálmi minn á hana“. Jón stingur þá
niður hjá sér fléttunni og biður fólkið að minnast þess, sem hún hafði
sagt. Pálmi þessi var þá vinnumaður á Grund.
Húnvetningasaga (Gísla Konráðssonar) getur þessa þjófnaðar.