Húnavaka - 01.05.1980, Page 129
HÚNAVAKA
127
Er fjúkið lék að fjalladrögum
og fönnin lá um dalinn minn,
við rákum ærnar heim úr högum
og hýstum þær við stallinn sinn.
Gestir komu göngumóðir
og gistu þá um næturnar.
Sumir voru sagnafróðir
og sögðu margt til skemmtunar.
Við leik og störf í heimahögum
hugurinn mestan þroska fær.
Frá yndislegum æskudögum
endurminning geymist kær.
■H*
SANDRIGNINGUR AF SUÐRI
Anno 1766: Raunaár. Fjársýkin, sem nú gekk yfir alla Húnavatnssýslu fyrir vestan
Blöndu, út át sig og kom fyrir austan hana geysileg meö þorra á flesta bæi, þó ei alla,
allt út að Hofi og fram í Langadal og á nokkra bæi í Skagafirði. Þetta kom af spilltum
sauðum úr Vatnsdal, sem sluppu úr kaupstaðarrekstri haustið fyrir upp á Skaga-
strandarfjöll. Að Litlu-Borg í Húnavatnssýslu hefur þetta faraldur aldrei komið.
Þann 5. Aprilis, sem var laugardagurinn næstureftir páska, var stillt veður, auð jörð
og nokkurt þykkni, en dimmdi aflíðandi dagmálum og varð sem svartasta náttmyrkur
hér um einn hálfan klukkutima með sandrigningi af suðri. Það sandfall varaði víst til
nóns og varð sumstaðar, helzt til fjalla, í skóvarp. Síðan hvessti nokkuð og eftirleiðis
næstkomandi 5 daga var nokkur þurrvindur, sem reif sandinn saman, og var oft
koldökkt í kring af sandryki. Þessi sandur kom austan úr Heklu og féll hingað norður
yfir alla Húnavatnssýslu vestur á Hrútafjarðarháls og yfir Skagafj örð og Yxnadal, líka
nokkuð Svarfaðardal, en ei norðar, svo sem sjálfan Eyjafjörð, því síður Þingeyjarsýslu,
og ekki kom sá sandur á Vesturland og ekki Suðurnes. Brestir og stórdynkir heyrðust
norður í land meir en í þrjár vikur og nokkrum sinnum síðan.
Höskuldsstaðaannáll.