Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 145
HÚNAVAKA
143
Páll hafði ákaflega gaman af bókum og keypti sér oft eigulegar
bækur af litlum efnum. Hann átti líka að lokum allgott bókasafn.
Hann hafði líka mikinn áhuga á náttúrufræðilegum efnum og safnaði
bæði eggjum og fuglum. Þegar flutt var í nýja skólahúsið árið 1958,
færði Páll Barnaskóla Höfðahrepps safn sitt að gjöf, en það var gleði-
dagur í lífi hans, er það myndarlega hús var tekið í notkun.
Þau hjón héldu bæði mikið upp á sumardaginn fyrsta og héldu
hann hátíðlegan.
Eitt sinn var sagt: „Það verður aldrei neinu góðu máli komið fram,
nema með fórnfýsi og hugsjón.“ Mér finnst þessi orð lýsa vel þessum
góðu hjónum og ævistarfi þeirra. Þau áttu bæði sinar hugsjónir um
betra þjóðfélag, gott mannlíf fyrir alla og þau lögðu fram sína krafta af
þeirri fórnfýsi, sem góðu fólki er eiginleg, til þess að svo mætti verða.
Þau höfðu mikinn áhuga á félagsmálum og töldu aldrei eftir sér að
sinna ýmsum félagsmálum fyrir sína heimabyggð.
Eina gjaldið var auðvitað ánægjan, að leggja góðu máli lið og sjá
umhverfi sitt njóta góðs af unnu starfi.
Er þau fluttu úr sveitinni vannst þeim betri tími til slíkra starfa. Páll
var lengi orgelleikari í Hofskirkju og Hólaneskirkju og Sigríður um
árabil formaður sóknarnefndar Hólaneskirkju og til minningar um
hana gaf kvenfélagið Eining mjög fallegan silfurkross til að prýða með
altari Hólaneskirkju. En Sigríður var í mörg ár formaður kvenfélagsins
og fór það vel úr hendi.
Páll var einlægur samvinnumaður alla tíð, var lengi í stjórn Kaup-
félags Skagstrendinga og formaður þess um árabil. Hann skrifaði sögu
þess í Húnaþing L Hann var gerður að heiðursfélaga Kaupfélags
Húnvetninga fyrir störf sín að samvinnumálum.
Þau hjón eignuðust 7 börn talin eftir aldri: Kristinn býr á
Blönduósi, Guðný Málfríður búsett í Kópavogi, Guðfinna býr á
Blönduósi, Jón Sveinn í Höfðakaupstað, Ingveldur Anna á Hlöðum
við Lagarfljótsbrú, Ásdís í Hafnarfirði og Edda í Höfðakaupstað.
Einnig ólu þau upp dótturdóttur sína Sigríði Birnu Björnsdóttur. Þau
hjón voru bæði einkar barngóð. Þess nutu barnabörnin, en afkom-
endur þeirra eru orðnir margir.
Eg á ekki aðra ósk betri þeim til handa, en þau mættu líkjast afa
sínum og ömmu, svo góð sem þau voru og vildu alltaf koma fram til
góðs.
Guöný Pálsdóttir, Blönduósi.