Húnavaka - 01.05.1980, Page 153
HÚNAVAKA
151
hún móður sína og tveggja ára var henni komið í fóstur til móður-
bróður síns Jóns Guðmundssonar bónda á Núpi á Laxárdal og konu
hans Sigurlaugar Höllu Guðmundsdóttur. Hjá þessum ágætis hjónum
ólst Elísabet upp ásamt einkasyni þeirra, Þorvaldi Laxdal er var
nokkru yngri en Elísabet.
Elísabet var skýrleiksbarn að upplagi, dugleg og vel virk, hög til
handar og þrifin, en sú dyggð var í heiðri höfð á Núpi. Eg efa eigi að
Elísabet og Þorvaldur hafi haft hug til frekara náms en farkennslan
bauð uppá.
Þá tóku þau hjón á Núpi barn í fóstur á fyrsta ári er ólst upp þar til
fullorðins ára, Jökul Sigtryggsson fæddan 1926.
Mér hefur verið tjáð að Elísabet hafi haft hneigð til að læra ljós-
móðurfræði eða hjúkrun. Því var það að Elísabet vann oft á bæjum í
sókninni er fólk þurfti á húshjálp að halda vegna mannfæðar eða
veikinda, þótti hún vel verki farin og góð til starfa.
Eftir því sem árin liðu hlaut búskapurinn á Núpi að færast meira
yfir á störf þeirra fóstursystkina, Þorvaldar og Elísabetar. Blómguðust
hagir Núpsfólks sem reisti íbúðarhús og ræktaði mikið. En svo varð
langur lífsferill þeirra hjóna Jóns og Sigurlaugar að hin þriðja kynslóð
hlaut að koma. Árið 1957 flutti Jökull Sigtryggsson fóstursonur þeirra
hjóna til þeirra með konu sína Valgerði Kristjánsdóttur frá Neðri-
Hjarðardal í Dýrafirði ásamt börnum þeirra og hófu þau búskap á
Núpi, reistu hús og ræktuðu landið. Enda segir á einum stað „Vort
land það yngist upp með æskufjöri að nýju“.
Hélt svo fram um árabil, gömlu hjónin Jón og Sigurlaug féllu frá,
Þorvaldur og Elísabet voru orðin fullorðin. Þá var það árið 1964 á
framanverðu ári að Elísabet Hafliðadóttir flutti frá Núpi til
Blönduóss.
Mátti segja að hún stæði nú á krossgötum æfi sinnar. Um þessar
mundir var búsettur á Blönduósi gamall og góður nágranni Elísabet-
ar. Þetta var Jón Sigurðsson, smiður frá Mánaskál.
Var nokkuð jafnt á með þeim komið, bæði höfðu þau verið stoð og
stytta síns heimilis, hún innanhúss á Núpi, hann í búskapnum og
rafvæðingu á Mánaskál. Hann átti íbúð í Bræðraborg á Blönduósi.
Bæði voru þau einfarar á lífsæfi sinni. Nú mættust þessir sveitungar
og settu saman heimili sem var þeim til gæfu og skapaði þeim betri
lífshagi.
Á heimili þeirra ríkti reglusemi, gestrisni og góður heimilisandi. Var