Húnavaka - 01.05.1980, Qupperneq 165
HÚNAVAKA
163
fjárstofni. Eins og áður var Magnús í vinnumennsku á vetrum næstu
árin, en var í sjálfsmennsku og heyjaði oftast á sumrum fyrir búsmala
sinn, enda góður og glöggur fjármaður. Magnús eignaðist þegar á
unga aldri góðhesta, enda var hann mikill hestamaður alla æfi.
Um tveggja ára skeið bjó hann á Leysingjastöðum í Þingi, uns hann
tók sig upp og flutti til Reykjavíkur, en þar dvaldi hann í tvö ár.
Hann var mikið náttúrubarn og var frá fyrstu hneigður fyrir búskap
og sveitalíf. Þráði hann jafnan átthagana, árin sem hann dvaldi í
Reykjavík. Festi hann því kaup á Hnausum haustið 1938 og flutti
þangað búferlum vorið eftir. Bjó hann þar nær allt til dauðadags.
Árið 1947 gekk hann að eiga Huldu Magnúsdóttur, Sigurðssonar frá
Leirubakka í Landssveit í Rangárvallasýslu. Var hún góð kona og
gegn, og var hjónaband þeirra mjög farsælt, en hún lést 1962. Tregaði
Magnús mjög konu sína, en bjó áfram í Hnausum með börnum sínum.
Eignuðust þau hjón þrjá syni, en þeir eru: Björn bóndi á Hólabaki,
kvæntur Huldu Aðalheiði Ingvarsdóttur frá Eyjólfsstöðum í Vatns-
dal, Magnús Jóhann, bifreiðarstjóri í Reykjavík, en hann er kvæntur
Kristínu Björnsdóttur frá Auðunarstöðum í Víðidal og Kristófer, bif-
reiðarstjóri einnig búsettur í Reykjavík, en hann er kvæntur Sigríði
Ásmundsdóttur úr Reykjavík. Einnig ól Magnús upp eina fóstur-
dóttur, Kristínu, er var dóttir konu hans, en hún er húsmóðir í
Reykjavík, gift Ómari Ólafssyni, bifreiðarstjóra úr Reykjavík.
Árið 1967 brá Magnús búi og tók þá Björn sonur hans við búi í
Hnausum. Eftir það settist hann að í Steinnesi og nytjaði jörðina um
fjögurra ára skeið eftir að sr. Þorsteinn B. Gíslason, prófastur lét af
störfum og fluttist þaðan.
Frá árinu 1972 dvaldi Magnús í skjóli sonar síns og konu hans
Aðalheiðar er þá voru flutt að Hólabaki, en þá var Kristófer sonur
hans tekinn við búi að Hnausum. Árið 1974 tekur Magnús enn við búi
í Hnausum og taldist ábúandi þar allt til dauðadags.
Magnús var maður hógvær og prúður í allri framkomu. Hann
sóttist eigi eftir opinberum störfum eða öðrum vegtyllum. Hann var
glaðvær í orðræðum og hafði kímnigáfu til að bera. En bak við glað-
værð hans bjó hlýtt hjarta og drenglund, ásamt órofa tryggð við vini
sína.
Útför hans fór fram frá Þingeyrakirkju 15. júní.