Húnavaka - 01.05.1980, Page 175
HÚNAVAKA
173
verið, og gekk leitin vel miðað við
allar aðstæður. Var því aftur
réttað í Stafnsrétt á laugardaginn
í 23. viku sumars, og reyndist fé
mun færra en í fyrra skiptið. Víða
var erfitt að halda áætlun með
göngur og skilaréttir á þessu
hausti vegna hins óvenju slæma
tíðarfars.
Þeir bændur, sem ekki höfðu
lokið heyskap í septemberbyrjun,
gátu að sjálfsögðu ekki sinnt
honum nema takmarkað meðan
göngur og réttir stóðu yfir, auk
þess sem sauðfjárslátrun var haf-
in. Enda komu ekki nema sárfáir
dagar í september að mögulegt
væri að vinna við heyþurrkun.
Dróst því mjög að ljúka heyskap
og var komið nokkuð fram í
október þegar honum var að fullu
lokið. Verkun þeirra heyja varð
að sjálfsögðu mjög misjöfn. Hey-
fengur varð nær allsstaðar mun
minni en venjulega. Algengt var
að það næmi um fjórðungi að
magni og víða að miklum mun
meira. Mjög fáir bændur gátu
talist aflögufærir. Var því undinn
bugur að því að útvega hey inn í
héraðið og var keypt nokkurt
heymagn í Eyjafirði og Skaga-
firði. Þá reyndu margir bændur
að birgja sig upp af graskögglum,
enda vitað að þeir yrðu fljótt
ófáanlegir. Með minnsta móti var
sáð til grænfóðurs um vorið
vegna veðráttunnar, enda mjög
misjafn árangur af því þar sem
reynt var. Uppskera garðmetis
varð nær engin.
Um haustið var slátrað óvenju
mörgu af öllu búfé. Sauðfjár-
slátrun lauk ekki fyrr en um
veturnætur og síðan var stórgrip-
um slátrað allt til nóvemberloka.
Gekk slátrunin greiðlega og tók
öllu skemmri tíma en upphaflega
var áætlað. Fé var mjög rýrt og
lélegt til frálags, svo yfirleitt
munaði tveimur til þremur kíló-
um frá því sem eðlilegt getur tal-
ist. Grasleysi var víðast í högum á
haustnóttum og horfur ekki álit-
legar að fénaður gæti haldist
sæmilega við. Nokkuð bætti úr
skák að í október fór veðrátta
batnandi og hlýnaði verulega í
veðri. Kýr komu snemma á gjöf
vegna illviðranna í september og
nýttist þeim takmarkað að beit
eftir það. Hjá flestum bændum
varð um bústofnsskerðingu að
ræða og víða verulega.
Síðustu mánuði ársins var sér-
staklega stillt veðrátta og úr-
komulítil. Dálítið snjóaði þó
snemma í nóvember, en þann
snjó tók fljótlega upp. Fyrst í
desember komu einnig nokkrir
kaldir dagar og setti þá aðeins
niður snjó, sem leysti algjörlega í
hláku um miðjan mánuðinn.
Veruleg hlýindi komu þó ekki til
lengdar þessa mánuði, en oftast
var góðviðri með dálitlu frosti.