Húnavaka - 01.05.1984, Page 13
HERMANN PÁLSSON:
Spakmæli í Grettlu
Allt frá því að Þingeyraklaustri tekur að vaxa fiskur um hrygg á
síðara hluta tólftu aldar hefur bókleg menning staðið með meiri blóma
í Húnavatnsþingi en flestum héruðum öðrum. Áður en öldinni lýkur
er farið að stunda merkileg fræði í klaustrinu. Elztur nafngreindra
höfunda þar var Oddur Snorrason, sem skrifaði Ólafs sögu Tryggvasonar
á latínu, og er hún enn varðveitt í fornum íslenzkum þýðingum, þótt
latneska frumritið sé löngu glatað. Systir Grettis Ásmundarsonar var
langa-langamma Odds munks. Annar klausturmaður á Þingeyrum,
sem samdi einnig Ólafs sögu Tryggvasonar á latínu, var Gunnlaugur
Leifsson (d. 1218 eða 1219). Gunnlaugur tók saman Jóns sögu helga á
latínu, en úr þeirri tungu snaraði hann Merlínusspá á ljóðrænt og
áhrifamikið mál. Þá má ekki gleyma Karli Jónssyni ábóta (d. 1213),
sem dvelst í Noregi árin 1185-88 og safnar þá efni í Sverris sögu, sem
hann mun hafa lokið við eftir dauða Sverris konungs (1202), þótt
nokkur vafi þyki leika um höfund að síðasta hluta sögunnar.
Eitt af því sem ber ótvírækt vitni um andlega grósku hér í sveitum á
þrettándu og fjórtándu öld eru þau fróðlegu letur sem voru gerð um
fyrstu kynslóðir Húnvetninga og niðja þeirra fram á elleftu öld: Heið-
arvíga saga, Vatnsdœla saga, Grettla, Kormáks saga, Hallfreðar saga, Banda-
manna saga, Þórðar saga hreðu og Finnboga saga ramma, og eru þá ótaldir
smærri þættir. Sögur þessar bregða ekki einungis upp lifandi myndum
af húnvetnskri fortíð og ævintýrum Húnvetninga á annarlegum slóð-
um, heldur er einnig fólgin í þeim merkileg lífsspeki sem varðar
manninn yfirleitt. Slíkt á einkum við um Grettlu, sem hefur fleiri
spakmæli en nokkur fornsaga önnur. Glöggum lesöndum þessarar
mögnuðu sögu hefur löngum verið það ljóst, að hún hefur þrenns
konar gildi, og þó er sundurleitum þáttum svo haglega slungið saman
að mikla gaumgæfni þarf til að skilja þá að. f fyrsta lagi er um að ræða
sagnfrœðilega merkingu hennar, þá miklu vitneskju sem hún veitir um