Húnavaka - 01.05.1984, Side 38
36
HUNAVAKA
ósi, er áður hafði reist Magnús frá Flögu Stefánsson og verslað í. Var
þar lengi síðar til húsa póstur og sími. Siðar flutti Konráð verslun sína
í hús það, er tengdafaðir hans, Þorsteinn Bjarnason, hafði átt og
verslað í. Er það nálægt brekkunni. Konráð hafði mikla verslun á
tímabili og gekk þar næstur kaupfélaginu. Hann var þægilegur
náungi, og verslaði ég og faðir minn talsvert við hann. Eg fór með
marga smjörpakkana til Konráðs. Greiddi hann kr. 3.50 fyrir kílóið
árið 1940 og þótti gott. Þetta var heimasmjör svokallað. í verslun
Konráðs fengust meðal annars bækur.
Þegar minnst er á verslun Konráðs fer ekki hjá því að verslun
tengdaföður hans, Þorsteins Bjarnasonar frá Illugastöðum á Laxárdal,
komi fram i hugann. Ég minnist þess, að ég kom eitt sinn inn í sölubúð
hans með föður mínum. Og ilminum þar inni gleymi ég aldrei. Þetta
var ilmurinn af heimsmenningunni. Faðir minn og Þorsteinn voru
miklir mátar. En Þorsteinn varð ekki langlifur. Hann dó 1937, rúm-
lega sextugur. Hann rak mikla verslun um skeið og var vel látinn.
Mikill nefndarmaður á Blönduósi. Verslun rak hann þar í hálfan
fjórða áratug. Börn Þorsteins og konu hans, Margrétar Kristjáns-
dóttur, voru þrjú: Sigríður, kona Konráðs kaupmanns sem fyrr er
getið, Auðunn húsgagnasmiður og Kristján verkamaður.
Þuríður Sigurðardóttir Sæmundsen tók að reka bókaverslun, eftir
að hún hætti kennslu við barnaskólann á staðnum, sem hún stundaði
um langt árabil. Talsvert var verslað við Þuríði. Oft kom ég þangað.
Ritföng hafði hún og til sölu. Þuríður var gift Evald Sæmundsen
kaupmanni á Blönduósi, en missti hann eftir fárra ára sambúð. Eitt af
börnum þeirra var Pétur Sæmundsen bankastjóri Iðnaðarbankans, dó
1982, 57 ára. Þuríður var systir Sigurðar, fyrrum landlæknis, frá
Húnsstöðum. Mikil reisn og glæsileiki var alltaf yfir Þuríði.
Um skeið verslaði Halldór Albertsson innan við ána. Verslun hans var
aldrei stór, en sitt hvað mátti þó fá hjá honum.
Evald Hemmert, sonur Andrésar Hemmert skipstjóra í Kaupmanna-
höfn, verslaði innan við ána. Eg man ekki vel eftir honum, en eitt man
ég: Hann talaði afar slæma íslensku. Maður skildi þó flest sem hann
sagði. Margt fékkst hjá gamla Hemmert, og duglegur kaupmaður var
hann, karlinn.