Húnavaka - 01.05.1984, Page 62
60
HÚNAVAKA
Við pabbi hröðuðum okkur til bæjar, um annað var ekki að ræða. Við
Bjarni vorum ágætir félagar og undum oft saman. Varð mér nú
hugsað til hans, hvort hann hefði komið fénu í hús áður en veðrið
brast á. Til þess voru þó litlar líkur svo skammt var liðið frá því hann
fór frá Beinakeldu.
Ekki man ég nákvæmlega hvað klukkan var, þegar ég bjó mig út i
hríðina, í samráði við foreldra mína, til að fara upp á beitarhús og gá,
hvort féð væri komið. Þau tóku fram við mig að fara ekki nema að
húsunum og koma svo heim. Þegar ég sá að ekkert fé var í húsunum,
hríslaðist um mig einhver ónota geigur við vitneskjuna um að Bjarni
var einhvers staðar úti með allt féð. Eg vissi að miklar hættur voru í
Giljárgilinu bæði fyrir hann og féð, ef það spennti þangað. Rokið var
það mikið að drundi í húsunum og maður gerði varla meira en standa
það af sér. Mér varð hugsað til þess að ég átti að koma heim þegar ég
hefði séð í húsin. Því hlýddi ég ekki. Eitthvað innra í mér togaði mig
upp fyrir túnhliðið, en þar sást ekkert. Áfram hélt ég upp Sundamel,
þar sem Reykjabrautin liggur núna. Hugsunin var hvort ég gæti orðið
til einhvers gagns við að verja gilið. Eg reyndi að halda hæðinni á
melnum til þess að halda stefnunni réttri upp með Húsadalnum að
sunnan og forðast að lenda í gilinu. Ferðin sóttist mér hægt vegna
hvassviðris og hríðarinnar, sem var einn mökkur.
Þegar ég hafði farið nokkurn spöl eftir móum og flólendi eftir að
melnum lauk, gekk ég á eitthvað sem ég datt um. Þegar ég var að rísa
upp lagðist upp að mér kind, sem var að hrekjast undan veðrinu, og
nær samtímis kom önnur kind. Eg skellti þessum kindum flötum milli
þúfna og lét hrygginn snúa í veðrið. Þarna fann ég sjö kindur með
þeirri sem ég datt um, sem ég fór eins með. Þar sem stutt var að gilinu
greip mig nokkur ótti urn að féð væri að tínast i gilið og Bjarni væri
ekki í minni hættu en féð. Þarna snerist ég fram og til baka um
allstóran blett að mér fannst, en fann ekki fleiri kindur. Þá hélt ég
lengra upp með Húsadalnum og hóaði og galaði, en varð ekki nokkurs
var. Nú voru góð ráð dýr. Ég var ekki öruggur um hvar ég væri staddur
og ákvað því að halda beint í veðrið þar til ég kæmi að girðingu sem
var milli Beinakeldu og Giljár og lá niður að beitarhúsunum. Löng
þótti mér leiðin að girðingunni en tókst þó að finna hana á milli
Einbúa og Hólahauss. Girðingin var það ísuð að ég gat haldið um efsta
gaddavírsstrenginn og rennt hendinni eftir honum án þess að verða
var við gaddana. Víða var hún slitin af þunganum.