Húnavaka - 01.05.1984, Page 63
HUNAVAKA
61
Þegar ég kom heim var Bjarni kominn þangað. Hann hafði komið
fljótlega eftir að ég fór. Þar var líka kominn Jóhannes á Stóru-Giljá
með þær fréttir að Sigurður bróðir hans væri að leita að fénu og
Bjarna. Hann hefði farið frá Giljá um miðjan dag til að aðstoða Bjarna
með féð í hús ef hægt væri áður en óveðrið kæmi. Þá var sími ekki milli
Beinakeldu og Giljár nema í gegnum Blönduós.
Það var af Bjarna að segja að hann komst fyrir féð og hafði það í hóp
austur á flóanum, en gekk illa að koma því áfram í snjónum. Hann var
með óvanan hvolp sér til aðstoðar og einnig var hann orðinn óviss með
áttir. Tilviljun réði því að hann kom að girðingu, sem tók hann góða
stund að átta sig á, þar sem hann átti ekki von á að vera nærri henni.
Meðan hann hafði verið að velta þessu fyrir sér rölti féð frá honum og
hvolpurinn var líka horfinn. í sömu andrá hvolfdist yfir Bjarna ofsa-
veður svo að varla var stætt og sortinn það mikill að ekki sá til jarðar.
Hann ákvað að láta féð eiga sig, en reyna að komast heim með
girðingunni sem lá heim að beitarhúsunum.
Sigurður fór sem áður segir til að hjálpa Bjarna við féð. Hann var á
64. ári, sérlega léttur á fæti, fylginn sér, veðurglöggur og frábærlega
ratvís.
Sigurði sagðist þannig frá: Þegar ég hafði lokið að láta inn á Giljá
með Jóa, sá ég að stutt væri í að það myndi hvessa. Ég fór því strax af
stað upp eftir til að smala með Bjarna. Eg gerði ráð fyrir þvi að féð
hefði slegið sér fram og vestur áður en fór að kafalda og væri vestur á
mó. Þar var hættulegt að hafa það í norðan áhlaupi vegna gilsins. Þess
vegna fór ég fyrst fram á Gatnamót og hóaði mikið í von um að Bjarni
heyrði til mín en aldrei varð ég hans var. Ekkert fé fann ég þarna og fór
þá austur höllin að Reiðhólunum og síðan norðvestur í stefnu á
Egilsholt. Skammt suðvestur af litla holtinu austur af Einbúanum
gekk ég fram á allt féð í einum hópi, en um leið brast á ofsaveður. Eg
setti hundinn á féð til þess að reyna að koma því ofan í Húsadalinn og
hóaði og kallaði mikið, því að ég vissi að Bjarni væri ekki langt frá,
þegar hvolpurinn, sem var með honum kom allt í einu til mín.
Með aðstoð hundanna kom ég fénu austan í Hólahausinn og þar
upp á melinn, en rokið og dimmviðrið var það mikið að ég týndi öllu
fénu suður af melnum ofan i dalinn. Þar mátti það ekki vera. Það hefði
allt fennt þar. Mér gekk illa að koma því þaðan úr skjólinu yfir í dalinn
hinu megin enda áveðurs þar, en þó tókst það að lokum. Verst gekk
mér þó að stöðva féð þar vegna hvassviðris. Báðir hundarnir hurfu