Húnavaka - 01.05.1984, Page 64
62
HUNAVAKA
þar frá mér, hafa sennilega ekki getað hamið sig þar fyrir ofsanum og
skaranum sem veðrið tætti upp.
Þarna stóð ég yfir fénu alla nóttina. Ég mátti aldrei stoppa, varð
fyrst lengi vel að hlaupa fram og til baka fyrir hópinn, svo að veðrið
tætti ekki utan úr hópnum kindur og hrekti þær vestur í gil. Þær hefðu
sko aldrei sést framar sem þangað hefðu farið. Verst fannst mér samt
að vita ekkert um Bjarna, en við því var ekkert að gera eins og komið
var.
Þetta hafði Sigurður að segja þegar hann kom hrakinn heim að
Beinakeldu klukkan um 8 morguninn 1. desember. Hann hafði þá
verið á ferðinni 18 klukkutíma samfleytt í ófærð og einhverri af verstu
hríðum sem koma og ekki mikið klæddur.
Rétt fyrir miðnætti þessa nótt hafði Jóhannes ákveðið að fara og líta
eftir Sigurði og fénu. Þá var enn grimmdarhríð. Ég og Bjarni fórum
með honum fram með öllu Giljárgilinu, fram hjá Grímsklöppum og að
Gatnamótum. Þar sem við urðum einskis vísari og ég hafði farið um
svæðið norðar fyrr um kvöldið, ákvað Jói að fara að Reykjum og vita
hvort Sigurður hefði komið þar. Við vöktum upp og hittum Pál
bónda. Hann vissi ekkert um Sigurð. Við héldum í flýti vestur flóana
og þegar við komum í miðjan Húsadalinn sáum við stóran fjárhóp
áveðurs á dalbrúninni að sunnan, en þá var klukkan að verða 8 um
morguninn.
Það leyndi sér ekki að þarna hafði Sigurður verið að verki um
nóttina. Féð var svo þétt saman í hópnum að það hefði ekki verið
þéttara þótt í rétt hefði verið. Margar ærnar, sem voru syðst í hópnum
lágu flatar og alla vega, sumar frosnar niður og gátu sig ekki hreyft.
Eins var á hinum jöðrunum. Sigurður var hvergi sjáanlegur, en við
fundum fljótt för eftir hann sem lágu í átt að Beinakeldu.
Nokkru sunnar en aðalhópurinn var fundum við kindurnar 7, sem
ég rakst á um kvöldið, allar í sömu skorðum og ég skildi við þær, og
einni kind betur eða 8. Sigurður sagðist hafa misst nokkrar kindur úr
hópnum fyrst meðan hann var að stöðva hann. Miklar líkur eru til
þess að ég hafi farið þarna fram hjá honum í hríðinni um það leyti,
sem hann var að stöðva féð, þótt ég yrði hans ekki var. Það hefur verið
hugsunarvilla hjá mér að fara ekki lengra í veðrið þaðan sem kind-
urnar hrakti. Við létum féð vera og fórum ofan að Beinakeldu. Þá var
komið kalsa norðanveður með hriðarágöngum, sem héldust allan
daginn.