Húnavaka - 01.05.1984, Page 65
HÚNAVAKA
63
Þegar Sigurður var spurður um líðan sína sagði hann að sér hefði
aldrei orðið kalt, það hefði einfaldlega ekki verið tími til þess, menn
verði heldur aldrei þreyttir hafi þeir nægan áhuga á því sem þeir væru
að gera. Aftur á móti sagðist hann sjá illa vegna skarans, sem hann
fékk í andlitið við að horfa í veðrið til þess að fylgjast með fénu.
Ekki veit ég hvað marga kaffibolla Sigurður drakk þarna um
morguninn og fékk sér bara mola með, en þeir voru æði margir.
Mestar áhyggjur hafði Sigurður af því að geta ekki verið með okkur
við að ná fénu heim og berja úr því klammann. Nú var runninn upp 1.
desember og manntalið varð að gera samkvæmt öllum stífustu kröfum
og reglum þar um. Jói sagði honum að við kæmum fénu heim, hann
skyldi fara í manntalið og hafa með sér ófriðartöskuna, en svo nefndi
Jói oddvitatösku Sigurðar þegar hann gerði að gamni sínu.
Sigurður borðaði morgunmatinn heima á Giljá og fór að því búnu
labbandi bæ frá bæ til að taka manntalið. Hann var að því allan
daginn til kvölds og lauk því eins og ekkert hefði í skorist.
Það sögðu menn að Sigurður hefði átt erfitt með að skrifa og lesa við
útfyllingu manntalsins vegna þrota í augum og andliti.
Við fórum þrír að sækja féð og fór nær allur dagurinn í að koma því
á fætur og drasla heim. Eina kind vantaði og fundum við hana lifandi,
fennta í dalnum þar sem féð spennti yfir melinn.
Ekkert var vitað um hundana i næstu þrjá daga, en þá kom að Giljá,
Magnús Jónsson í Brekku, sagðist hann hafa heyrt ýlfur í hundi, sem
sér virtist vera framan í hengju í klettum í Axlaröxlinni og sá þar
tikina í skaflinum. Hún skreið út úr holu og kom til hans. Hvolpurinn
hafði komið að Brekkukoti fyrr um daginn, aumur og ræfilslegur. Það
var álitið að hann hafi fallið með snjó niður og meiðst við að falla niður
klettana.
Læt ég hér með þessari frásögn lokið. Tel ég þennan atburð sýna svo
mikið hugrekki og dug, sem fylgdi Sigurði ætíð í gegnum árin, að hann
megi ekki falla gleymskunni til.
Fært í letur á Stóru-Giljá 20. janúar 1979.