Húnavaka - 01.05.1984, Page 66
RAGNHEIÐUR BLÖNDAL, Brúsastöðum:
Endurfundir
(Smásaga)
Eg ætlaði að fara að gefa svínunum þegar síminn hringdi. Sím-
hringing er oft kærkomin tilbreyting í fásinninu, sérstaklega eins og nú
þegar eiginmaðurinn og börnin voru að heiman og húsið óvenju hljótt.
„Bakkagerði,“ sagði ég, „þetta er Gréta.“
„Gréta, ert það þú elskan?“
Ég þekkti aðeins eina manneskju, sem sagði elskan á þennan hátt,
Helgu. Við höfðum ekki sést í átta ár. Röddin var þægileg og fáguð, en
ég hafði mesta löngun til þess að leggja á.
„Hvernig líður þér?“ Stutt þögn. „Er þetta ekki þú Gréta? Veistu að
við Eiríkur höfum smá tíma núna aflögu, svo mér datt í hug að við
gætum skroppið í heimsókn. Hvað segirðu um sunnudaginn, eftir
mat?“
,Já,“ sagði ég, „jú það væri gaman.“ Síðan hugkvæmdist mér
ekkert til að segja. Helga hló.
„Ætlarðu ekki að spyrja hvernig Eiríki líði.“
Og hvað gat ég annað en sagt „hvernig líður Eiríki?“
„Prýðilega, hræðilega upptekinn að sjálfsögðu, en ég sagði honum
að við yrðum að heimsækja þig fyrst við hefðum tíma núna.“
Helga hafði alltaf haft lag á að láta ýmislegt ósagt.
„Við vorum svo góðar vinkonur. Það verður stórkostlegt að sjá þig
aftur,“ sagði hún. Hún hélt áfram en ég var að hugsa. Eiríkur var
orðinn skurðlæknir núna og það undraði mig ekki. Hann hafði verið
frábær námsmaður og við. . . . Ég starði út yfir bylgjandi túnið og
uppgötvaði allt í einu að Helga var hætt að tala.
„Þið komið þá sem sagt á sunnudaginn,“ sagði ég hæglátlega.
„Eftir mat, já um þrjú leytið. Bless elskan.“ Helga hafði ætíð skreytt
mál sitt með „darling,“ elskan og kæra vina.
„Sjáumst,“ sagði ég og lagði símann á.